Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Alíslenskur lundi frá Kína

Ég bý svo vel að státa af íslensku vegabréfi. Var sannlega ekki vandkvæðum bundið að fá slíkt þar sem ég er fæddur á Íslandi. Nánar tiltekið leit ég dagsins ljós í Selfosshreppi, því svæði sem hefir löngum verið spyrt saman við hinn alíslenska hnakka með aflitað hár og ættbálka húðflúr eða træbal tattú til að láta þetta hljóma aðeins meira real. Þessi greinarstúfur er nú einu sinn "made in Iceland". Er hann nánar tiltekið settur saman á Núpi í Dýrafirði á Vestfjörðum, á stað sem umlukinn er alíslenskri náttúrufegurð auk þess að vera í næsta nágrenni, eins og hvert íslenskt mannsbarn veit, við að sögusvið Gísla sögu, Haukadal.

En talandi um fegurð þá hefi ég sjálfur átt í megnustu erfiðleikum með að upplifa hana í gegnum tíðina (hér skal gengið útfrá því að fegurðarmat sé allajafna persónubundið og að hún liggi ei í eðli einhvers hlutar eða persónu) og mætti maybe tengja það fæðingarstað mínum enda hefir hann blessaður aldrei, mér vitandi, verið notaður sem lýsandi dæmi um íslenska yndisfegurð. Máske kann það að hafa gætt mig vanfegurðarskyni og hindrað alla göngu inn í jökla til þess að verða eitt með fegurðinni svo hún megi ein ríkja.

Já, sannlega segi ég yður, ég er jarðbundinn maður. Tel ég mér alltént trú um að svo sé. Alltént verð ég sjaldan fyrir hughrifum og á erfitt með að skilja hjarðdýrahegðun eins og þá sem birtist svo greinilega þegar ljóst var að knattspyrnuliðið íslenska samanstóð ekki af eintómum aukvisum. Enda er eitthvað hjárænulegt við það, á þessum alþjóðlegu tímum, sem samanstanda af einhverju meiru en Derrick í sjónvarpinu, að berja sér á brjóst í sameiningareldi þeirrar staðreyndar að deila fæðingarlandi með einhverjum. Alveg burtséð frá skemmtangildi íþróttarinnar sem vissulega er nokkurt.

Allavega get ég ekki varist þeirri hugsun að það sé undarlegt að vera stoltur af einhverju sem maður hafði ekkert með að gera eins og fegurð lands, íþróttaafrekum, eða að státa af ákveðnu vegabréfi, þótt klárlega megi vel vera ánægður með það. Ætli þetta sé ekki eins og að vera stoltur af alíslenskum lunda frá Kína sem er örugglega frábær þótt það sé eitthvað ömurlegt við hann.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni