Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Að leita ástar í Kópavogi: Um nóvelluna Kópavogskróniku

Til stóð að skrif þessi birtust á menningarvefnum Starafugli.

Þar sem sá vefur er óvirkur birtast þau hér.

 

Um nóvelluna Kópavogskróniku: Til dóttur minnar með ást og steiktum eftir Kamillu Einarsdóttur (1979).Veröld gefur út. 2018. 126 blaðsíður.

 

Hún hitti hann á pöbb eitt kvöld / á Country pub í Reykjavík / Hún starði á hann mjög ákveðin / Hann glápti á móti dauðadrukkinn / Hún kinkaði kolli og blikkaði hann / Hann var dáleiddur af allan Vodkann / Hann fór til hennar og sagði / hvar hann var frá / Hún sagði "Veistu hvað?" / Við höfum sameiginlegt / því við komum bæði frá Kópavogi. (Hluti dægurlagatexta indversku prinsessunnar Leoncie við lagið „Ást á pöbbunum“)

 

Segjast verður eins og er að máske á dægurlagatexti Leoncie ekki svo mikið sammerkt með Kópavogskróniku. Ekki nema sögusviðið. Jú, ástin kemur við sögu í báðum verkum eða eitthvert form hennar. Áfengisneysla líka. Ólán sögupersóna einnig. Má tala um lánleysi í ástarmálum, hugsanlega óendurgoldna ást. Allavega í Kópavogskróniku. Ef til vill mætti líka tala um að sitthvað gæti verið betra í verkum þessum. 

Fæst börn eru sérstaklega stolt yfir ríðiafrekum mæðra sinna. Ég get alveg skilið það. En elsku stelpa, þú verður nú að viðurkenna að listinn yfir bólfélaga mína er tilkomumikill. (bls.5)

Kópavogskrónika er sett upp sem ókrónalógískt bréf eða eintal móður, „framhaldsskóladroppát [...] barþjónn á strippibúlli og svo í hinum ýmsu láglaunastörfum hjá hinu opinbera“ (bls. 9), til dóttur sinnar. Bókin skiptist í 27 ótölusetta mislanga hluta með yfirskrift. Í frásögn sinni ræður móðir dóttur frá ástarsamböndum en rantar einnig um dagdrykkju sína, eiturlyfjanotkun, kynni sín af tilgerðarlegum listaspírum, bólfélaga, karla og kvenna, vinnu á fatafellustað og auðvitað um Kópavog svo sitthvað sé nefnt.

Aðalmálið með rantinum er þó að vara barnið við ástarsamböndum. Ástæða þess virðist vera sú að oft hefir móðirin komið illa út úr slíkum samböndum. Oft hefir hún og borið meiri ást til ástarviðfanganna en þau til hennar. Ráða má af orðum hennar að elskhugarnir hafi einkum viljað útrás fyrir holdlegar þarfir og nutu góðs af því hve tilkippileg eða gröð hún var. Tilkippileikinn virðist þó sér í lagi ráðast af ástarþörf. Þar er bobbinn.

-Sjá má fyrir sér lifaða kerlingu í samneyti við ógæfulegt fólk á áttunda bjór á öldurhúsinu Catalínu í Kópavogi. Kona þessi er líkleg til að hafa vanrækt barnið sitt eða hafa „lítið sem ekkert gert í [...] [þess] þágu.“ (bls. 9) 

Þær hafnanir sem konan verður fyrir valda því, eða ráða má það af textanum, að hún missir fótana í lífinu, verður drykkfelld og samræðisgjörn. Hún stærir sig engu að síður af lífstíl sínum þótt hún hafi jafnframt lítið álit á sjálfri sér. Virðist hún raunar fyrirverða sig og tönnlast á því hve ómöguleg hún sé í alla staði og engrar elsku verð. Svífur því viss angurværð yfir vötnum, sorg sem sljóvguð er með vímugjöfum og samböndum sem stuðla fremur að hryggðartárum en gleðitárum. Engu að síður er leitast við að sá hlutina á gamansaman hátt. Sitt sýnist sjálfsagt hverjum hvað það áhrærir.

Ef leitast skal við að hólfa verkið þá væri ekki úr vegi að kalla það And-ástarsögu. Sögukona ræður enda barni sínu frá því byrja í sambandi og tönnlast oft og tíðum á skaðsemi ástar. Auk þess er ekki úr vegi að kalla verkið Kópavogssögu (varla mörg sem falla í þann flokk) í ljósi nafngiftar og þess að sögusviðið er sumpart þar og hverfist sálarlíf og líf aðalpersónunnar um margt við staðinn atarna. Það er eitthvað aumkunarvert við hvort tveggja.

 

En það var hvorki lauslæti mitt né skortur á hinu svokallaða móðureðli sem leiddi mig suður í Kópavog. Það var ástin sem gerði það. Þú mátt mín vegna apa flest eftir mér. En þú skalt forðast sambönd. (bls. 10)

Rannsóknir hafa sýnt að ef þú vilt minka líkurnar á að vera lamin í klessu eða myrt, er mikilvægast fyrir þig að forðast að lenda í einhverju af þessu þrennu:

vændi, 

eiturlyfjum,

ástarsamböndum

Sé haldið áfram að draga í dilk þá mætti skella druslustimpli á verkið. Nokkuð er um ríðingarsögur og sumar hverjar bersöglar og vílar sögukona sér ekki við að taka sér skaufa í munn. 

Á einhverjum tíma hefði slíkt valdið allsherjar hneykslan og andköfum góðborgara. En þar sem góðborgarar hneykslast fremur á þegar talað er illa um múslimska terrorista, blæjukerlingar og homma þá eru litlar líkur á að fólki svelgist á lestri þessum. Eða hvað? 

Má vel hafa fleiri orð um þetta verk og velta fyrir sér hvað það segi um samtímann, Kópavog, ást á tímum sundrungar og þar fram eftir götunum. Það verður ekki gert enda er verkið stutt og getur fólk bara vel tekið sér það í hönd og lesið það. Tekur það ekki langan tíma enda fremur auðlesið og auðskiljanlegt verk. Kannski ekkert ósvipað verkum Indversku prinsessunnar.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni