Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Verra réttlæti í einkunnagjöfum?

Ég legg til að fólk lesi þessa grein Emblu Drafnar Óðinsdóttur um námsmat. Hún telur að nýtt námsmatskerfi sé ranglátt og telur nokkra hluti til. Helst má nefna:

1. Inntak náms er ólíkt eftir skólum og lítið eftirlit með því hvort farið er eftir matsviðmiðum námskrár.

2. Leiðir skóla til að ákvarða hvort nemandi fær A eða B eru ólíkar og því getur nemandi sem á einum stað fær A fengið B á öðrum.

3. Þessi mismunun getur haft áhrif á inntöku í framhaldsskóla. 

Ég hygg að þetta sé allt rétt hjá henni upp að einhverju marki. Ég er samt ekki viss um að þetta séu endilega þættir sem snúist fyrst og fremst um réttlæti og ranglæti. Það er miklu fremur að hér afhjúpist nokkuð djúpstæður vandi við námsmat.

Greinin er samt prýðilegur umræðugrundvöllur. 

Í fyrsta lagi er ástæða til að staldra við þessi orð hennar:

 Í aðalnámskrá eru gefnar nákvæmar skýringar (matsviðmið) um það sem stendur á bakvið hvern einasta bókstaf og mælst til að sömu viðmið séu notuð sem við sem mest mat í skólastarfinu“

Hér liggur dálítill misskilningur. Það eru vissulega matsviðmið í námskrá en þau eru mjög langt frá því að vera nákvæm. Tökum dæmi:

„Nemandi geti átt góð samskipti þar sem gætt er að máli, hlustun, tillitssemi, virðingu og kurteisi.“

Það gefur auga leið að ótal leiðir eru færar að þessu marki. Það blasir raunar ennfremur við (sem alltaf hefur fylgt námskrám) að mjög líklega er sumum markmiðum sinnt betur/oftar en öðrum. Eiríkur Rögnvaldsson benti til dæmis á það um daginn að samræmd próf í íslensku eigi sér alls ekki stoð í þeim markmiðum sem námskrá kveður á um.

Ef við skoðum nú nánar hvernig námskráin greinir á milli A og B þá getum við skoðað þetta:

Þetta telst A:

„Nemandi geti beitt skipulegum og mjög góðum vinnubrögðum við ritun, skipað efnisatriðum í röklegt samhengi og mótað málsgreinar og efnisgreinar af öryggi og á skýran hátt. Beitt stafsetningu og greinarmerkjasetningu af öryggi og fylgt mjög vel viðmiðum um uppbyggingu texta. “

Þetta telst B:

„Nemandi geti beitt skipulegum og góðum vinnubrögðum við ritun, skipað efnisatriðum í samhengi og mótað málsgreinar og efnisgreinar á skýran hátt. Beitt stafsetningu og greinarmerkjasetningu af nokkru öryggi og fylgt vel viðmiðum um uppbyggingu texta. “

Eins og sést er munurinn á A og B aðallega fólgin í því að virðisaukandi atviksorðum er bætt í lýsingu á hæfninni. Það hvort nemandi fylgi vel eða mjög vel óskilgreindum viðmiðum um uppbyggingu texta er langt frá því auðvelt eða einfalt að meta.

Einn vandi við samræmingu námsmats er sá að markmið skólastarfsins eru opin og sveigjanleg og túlkunum undirorpin. Í sjálfu sér mætti hugsa sér að engir tveir skólar kenndu nákvæmlega eins en samt væru allir að fylgja námskránni.

Stóra breytingin við mat á skólastarfi með nýrri námskrá felst í því að nú skal mæla hæfni. Upplýsingar eiga að fylgja nemanda sem útskrifast úr grunnskóla sem koma að gagni við að velja honum stað við upphaf framhaldsskólanáms. Nemandi sem fær B í einhverri grein telst undirbúinn undir nám í þeirri grein. Nemandi sem fær A er líklega fær um að stökkva að einhverju leyti yfir grunnefni framhaldsskólans. Nemandi sem fær C þarf meiri tíma til að ná grunntökum á efninu en grunnskólinn gaf.

Hér skapast vandi. Venjan er nefnilega sú að mat á útskriftarnemendum sé langdrægt. Skólar meta allan veturinn í 10. bekk. Líklega á það að veita nákvæmari upplýsingar um námshæfni og úthald heldur en stök mæling á hæfni eða þekkingu. Ósamræmið er þetta: Hvernig í ósköpunum á að meta meðaltal hæfni? Ef nemandi er sannarlega hæfur til að hefja framhaldsskólanám í maí en var það ekki í ágúst hvers vegna skyldi skólinn þá gefa honum það mat að hann sé mitt á milli þess að vera hæfur og vera það ekki?

Í raun ætti það eitt að skipta máli hvar nemandinn stendur við lok grunnskólagöngu sinnar. Það mætti jafnvel færa sterk rök fyrir því að besta aðferðin við að uppfylla kröfur um námsmat sé að halda stöðupróf undir lokin og láta þau gilda alfarið. 

Það væri þó misráðið.

Um leið og farið er að að finna meðaltal hæfni verður til þörfin á því að umbreyta bókstöfum í tölur. Meðaltalið af A, B+, B og D er ekki til nema fyrst sé ákveðið vægi eða gildi einstakra bókstafa. Það hvort A hafi gildið 6 eða 9,5 eða 11 skiptir í raun engu sérstöku máli. Það er útilokað að halda því fram að ein reikniregla þar sé óréttlát miðað við aðra. Slíkur samanburður er marklaus og gagnslaus.

Fyrst þarf að svara því hvort yfirhöfuð eigi að vera að finna meðaltöl með þessum hætti. Menntamálastofnun hefur verið spurð – en hún hefur ekki svarað enn.

 

Nú er mikilvægt að staldra við og velta því fyrir sér af hverju þetta sé ekki skýrara en raun ber vitni. Það getur ekki verið erfitt að samræma nám betur en þetta.

Svarið við því er að þetta er svona að yfirlögðu ráði. Nám þarf að vera fjölbreytt svo það megi þróast. Nemendur verða að fá meira vald og stýra námi sínu meira en hingað til hefur verið. Skólar verða að fá að þróa sérkenni sín og kennarar að nýta styrk sinn. Samhæft, staðlað nám er um leið staðnað. Það er verið að bylta skólakerfinu innanfrá vegna þess að það er úrelt. Þeir sem bylta því eru nemendur, kennarar, foreldrar og annað starfsfólk skólanna.

Það að meta nemendur mjög gróflega í A, B og C er meðvitað gert til að skapa rými til skólaþróunar. 

Hversu vel skólakerfið okkar er í stakk búið til að fylgja slíkum breytingum eftir má efast um. Það eru ýmis vandamál. Þá er eftirlit með skólum alls ekki nógu gott. Og eins og áður sagði eru samræmd próf beinlínis á skjön við yfirlýst markmið náms.

Það er samt umræða sem taka verður.

Mig langar að síðustu að eyða nokkrum orðum í síðasta punktinn. Er það ranglátt þegar einn nemandi fær B+ en annar, jafnhæfur, A og báðir vilja komast inn í eftirsóttan framhaldsskóla?

Auðvitað er það ósanngjarnt. Sú ósanngirni er samt ekki til komin vegna einkunna í bókstöfum. Nákvæmlega sami „vandi“ var uppi þegar nemendur fengu einkunnir í tölum. Dettur einhverjum í hug að 9,5 hafi allsstaðar þýtt það sama? Er ekki einmitt afar líklegt að nemendur með svipaða hæfni hafi sumsstaðar fengið 8 en á öðrum stað 9? Og fyrst við erum að ræða það: Er réttlátt að strákur komist inn í Versló með 8,5 en stelpu sé hafnað með 9?

Auðvitað virkar þetta allt ranglátt. En ranglætið hefur ekki aukist með breyttu kerfi. Breytingin hefur aðeins afhjúpað djúpstæðan vanda.

Tilteknir skólar hafa stundað það árum saman að nota margvíslega rangláta kvarða til að velja inn nemendur. Nemendum hefur verið mismunað eftir kynjum eins og neft er hér að framan og ennfremur hefur algjörlega verið horft fram hjá því að einkunnir eru ekki sambærilegar milli skóla. Ofan á það bætist að jafnvel þótt þær væru fullkomlega sambærilegar (og notaðar væru t.d. einkunnir á samræmdum prófum) þá er ekki þar með sagt að þær séu til marks um þá hæfni sem kveðið er á um í námskrá.

Nú er mikið óðagot í þeim framhaldsskólum sem vilja velja inn nemendur eftir einkunnum. Í stað þess að nemendum sé raðað upp í tilviljunakennda röð þar sem hægt er að námunda árangur niður í hundraðasta hluta má búast við því að mikill fjöldi nemenda verði með sambærilegan árangur: Þ.e. telst hæfur eða framúrskarandi hæfur til að hefja nám. 

Að einhverju leyti mætti segja að þetta sé réttlátara svona. Nú stendur nemandi sem áður hefði kannski fengið 8,23 í meðaleinkunn jafnfætis öðrum með 8,27 – enda engin sérstök ástæða til að ætla að munurinn á milli þeirra sé raunverulegur. 

Námsmat úr grunnskóla gegnir sum sé ekki lengur því hlutverki að raða nemendum í einfalda röð. Það á aðeins að flokka þá í 4 misstóra flokka. 

Er það óréttlátt?

Ég held ekki. Ef vit væri í inntökuferlum framhaldsskóla og eigi þeir yfir höfuð að fá að velja inn nemendur til að búa til einhverja úrvalshópa ættu þeir að stíga alla leið og fá fram alvöru breytingar. Þeir ættu að láta nemendur njóta góðs af félagsstarfi, listsköpun og íþróttum. Umsækjendur ættu að koma í viðtöl og leggja framtíðarsýn sína á borðið. Það ætti að gera alvöru kröfur og flokka nemendur eftir raunverulegum mismun.

En það er afar ólíklegt að við sjáum slíkar breytingar. Þess í stað verður búið til málamyndaréttlæti með stöðluðum, samræmdum prófum sem nær örugglega skarast í mjög mikilvægum atriðum á við kröfur um inntak náms. 

„Það getur verið sárt að framfylgja lögum“ var sagt um það þegar veikum flóttabörnum var vísað frá. Að sama skapi getur verið hættulegt að knýja fram yfirborðskenndar hugmyndir um réttlæti. Hér má nota orð Nóbelsskáldsins: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni