Vandi Viðreisnar
Það fer ekkert ofsalega mikið fyrir Viðreisn þessa dagana. Samt er framboðið einn af stóru óvissuþáttum næstu kosninga. Það skiptir hreinlega töluverðu máli hvort takist að virkja frjálslynda hægrafylgið. Það ætti að vera hægt að skapa slíkan valkost.
Eitt finnst mér þó standa í veginum. Slíkt fylgi kæmi, eins og staðan er núna, fyrst og fremst frá Samfylkingu (+BF) og Sjálfsstæðisflokki. Og mannskapurinn sem stæði að framboðinu kæmi líka aðallega frá þessum flokkum (fyrir utan kannski einhverja sem ekki hafa gefið sig mikið að pólitík hingað til).
Vandinn er þessi: Í pólitík verður að skoða feril fólks. Og það er einfaldlega þannig að öfl innan úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu eru ekki, eins og mál standa, trúverðug. Fólk tengt þessum flokkum hefur setið of lémagna og leyft málum að þróast allt of langt. Af sömu ástæðu er ljóst að nýr formaður Samfylkingar mun engu breyta. Hann verður að öllum líkindum alltof samofinn því sem þjóðin er á góðri leið með að hafna.
Ef einhver vill laga það sem að er hjá þjóðinni þá er það gott og gilt. Það er samt erfitt að trúa því að þeir séu til þess færir sem tilheyrt hafa Sjálfstæðisflokknum síðustu ár. Flokkurinn mun stórskaðast vegna þess agaleysis og afstöðuleysis sem einkennt hefur öll hin stærri innri mál. Bjarni Ben er ekki sterkur leiðtogi. Hann er pólitísk stuna, ekki heróp. Persónulega er hann stórlaskaður. Nafn hans má finna í öllum lekamálum sem eitthvað kveður að, hann hefur reynst ófær um að taka á augljósum afglöpum og jafnvel afbrotum sem undirsátar hans gerast sekir um – og nú situr hann þumbaralega hjá og segir ekki orð meðan Davíð Oddsson ýtir honum miður kurteislega til hliðar, segir að hann sé veikur foringi og ætlar einn og persónulega að leggja út í tapaðan forsetaslag til þess eins að draga hægri menn á Íslandi ögn lengra út á væng öfganna.
Pólitíkin 2016 verður í Íslenskri sögu sá tímapunktur sem þjóðernisremban og rasisminn komst alla leið upp á yfirborðið. Sigmundur Davíð bjó ógeðinu griðarstað með stuðningi við popúlistana í Reykjavík. Nú ætlar stóri flokkurinn í stjórnmálunum að sigla í kjölfarið.
Slagorð Bjarna Ben er þegar komið fram. Ekki gera ekki ekki neitt.
Að mínu mati liggur sök hjá hinum stóra þögla hluta Sjálfstæðisflokksins. Það er glæpsamlegt að þegja af sér hvert málið á fætur öðru. Það er fáránlegt að láta Bjarna Ben komast upp með siðferðilega og stjórnmálalega hálfvelgju af þeirri einu ástæðu að menn virðast enn vera í þagnarlosti eftir einræðistíð Davíðs. Það er ótrúverðugt að slíta sig svo lítið beri á frá Sjálfstæðisflokk eða Samfylkingu með nýtt nafn og útlit og láta sem maður sé nýr valkostur.
Frjálslyndir kratar og hægri menn munu engu áorka í landsmálunum ef þeir geta ekki tekist á við Árna Pál og Bjarna Ben í stórlöskuðum hásætum sínum.
Þeir sem líklegast leggja í þennan leiðangur fyrir Viðreisn einkennast ekki fyrst og fremst af nýrri hugsun eða óbeit á núverandi stjórnarfari. Þeir einkennast af átakafælni. Og þótt það sé vissulega rétt að átakamenningu sé illilega ofaukið í íslenskum stjórnmálum þá er slagur framundan. Þótt ekki sé nema til að standa í vegi fyrir þeirri sterkukarlapólitík sem nú liggur í loftinu.
Athugasemdir