Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Syndasælan og Viðskiptablaðið

Ég verð að viðurkenna að ég er sérstakur áhugamaður um Viðskiptablaðið. Það vekur hjá mér syndasælu (guilty pleasure) að lesa það. Það tók við af Varðturninum að þessu leyti. Sérstaklega er ég hrifinn af leiðurunum og netfréttunum. Þar fær maður alltaf línuna nokkurnveginn ódulbúna.

Þetta hér er einstaklega gott:

Skoðið fyrirsögnina og svo undirfyrirsögnina. Ríkisstarfsmenn eru í sérflokki því helmingur þeirra er með hærri laun en hinn almenni íslensk[i] launamaður.

Það er semsagt helmingur ríkisstarfsmanna með hærri meðallaun en meðaljóninn. 

Það er greinilegt að Viðskiptablaðið notar aðra mælikvarða á nafnorðið „sérflokkur“ en aðrir.

Þetta er næstum því jafn slæmt og að birta frétt um upplausn í Evrópusambandinu. Komið hafi í ljós að helmingur íbúa þess sé undir meðalgreind.

Næstum því. 

Það er nefnilega örlítill launamunur ríkisstarfsmönnum í hag ef miðað er við miðgildi launa. Alls ekki svo mikill munur að það réttlæti tal um sérflokka – en smá munur.

Nú væri fróðlegt ef til væri á landinu blað sem kynni að greina eðli og gerð viðskipta- og fjármálamarkaða og gæti varpað ljósi á undirliggjandi þætti launa- og vinnumarkaðar.

Við erum svo heppin að slíkt blað er til. Það heitir Kjarninn.

Nú væri gaman ef svoleiðis blað skoðaði þessi mál. Reyndi til dæmis að grafast  fyrir um það hvers vegna sveitarfélögin knýja fram láglaunastefnu í landinu – og skoðaði með gagnrýnum hug hvers vegna ríkið borgar að meðaltali ögn hærri laun en almenni markaðurinn.

Það mætti sannfæra mig að óathuguðu máli um það að það hafi eitthvað með það að gera að ríkið rekur mikið af sérhæfðustu stofnunum landsins. Og að þetta sama ríki hafi miskunnarlaust losað sig við láglaunafólk hin síðari ár til þess að geta fitað milliliði sem reka nánast þrælakistur (t.d. í þrifum á opinberum byggingum).

En ég vildi gjarnan vita meira um málið. Ég veit samt að Viðskiptablaðið mun ekki svara spurningunum. Mér sýnist nefnilega að það miði við lesendahóp í sérflokki, sem er meira en hálfur undir meðalgreind.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni