Staðan að loknum forsetakosningum
Á yfirborðinu kann Guðni Th. að virðast heldur íhaldssamur kostur í embættið. Mig grunar samt að á næstunni muni koma í ljós ýmsar breytingar á embættinu. Ef Bessastaðir verða bústaður nokkuð stórrar barnafjölskyldu mun það breyta mjög ásýnd staðarins. Húsið virkar stórt og myndugt frá Álftanesveginum en raunin er sú að jafnvel á forsetatíð Kristjáns var bæði þröngt og heldur illa búið að fjölskyldu forsetans. Það má svosem efast um að forsetinn sé táknmynd fyrir nokkurn skapaðan hlut en staðan er samt sú að hlutverk okkar feðra hefur aðeins hnignað á síðustu misserum. Að minnsta kosti á sumum sviðum. Við tökum minni þátt í umönnun barna okkar fyrstu mánuðina og krefjumst hærri launa en konur okkar og systur. Það verður gott fyrir okkur að fá forseta sem gerir þá kröfu til sín og embættisins að fá að vera foreldri til jafns við maka sinn.
Að einhverju leyti er góður árangur Höllu því að þakka að hún stóð sig vel í sjónvarpi. Lokasprettur hennar var stórkostlegur. Hann hefði þó líklega ekki orðið alveg eins áberandi hefði í raun verið möguleiki á sigri hennar. Hún rak jákvæða kosningabaráttu og virtist njóta ákveðinna griða. Mig grunar að það hefði getað gert Höllu dálítið erfitt fyrir ef orð hennar og gerðir hefðu verið grannskoðaðar aftur í tímann. Ég held, að sú lína hennar að henni hafi blöskrað hugarfarið á Íslandi, hafi kannski ekki verið í fullkomnu samræmi við ýmislegt sem hún sannarlega sagði og gerði. Það breytir því ekki að Halla gæti ein og sjálf gerbreytt pólitísku landslagi næstu missera ef rétt er haldið á spilunum. Best væri fyrir Höllu að fara gegn Bjarna Ben (kjósi hann ekki að stíga til hliðar). Halla er kannski ekki draumaframbjóðandi kjarnafylgis flokksins (þess sem studdi Davíð í kosningunum og lét hafa það að eyðileggja mannorð bæði Mogga og Viðskiptablaðs til að blása í herlúðra í því dauðadæmda framboði). En það fylgi kýs Sjálfstæðisflokkinn hvort eð er. Það þarf ekki að gæla frekar við það. En Halla gæti raunverulega stuðlað að endurreisn Sjálfstæðisflokks upp að einhverju marki. Hún yrði auðvitað umdeildari um leið og hún stigi alveg inn á hinn pólitíska vettvang en það sem aðrir sæju kannski sem ljóð á henni sæju Sjálfstæðismenn sem staðfestingu á því að hún væri í þeirra liði. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri rekinn af skynsemi myndi Bjarni Ben víkja fyrir Höllu fyrir kosningar í haust – og upp væri diktuð taktík sem fælist í umbótum og sérstaklega siðbót og bættu gildismati. Þá gæti allt gerst. Og það sem meira er, tenging Höllu við þjóðfundinn og nýja stjórnarskrá gæti þýtt að Sjálfstæðisflokkur næði málamiðlun undir hennar stjórn við róttækustu umbótaöflin í samfélaginu. Það væri hugsanlega stærsti sigur einstaks stjórnmálamanns. En svo á Halla auðvitað aðra kosti, bæði innan Viðreisnar og jafnvel Samfylkingar. Og enn aðra langsóttari á eigin vegum.
Andri sigraði Davíð. Það er ákveðinn sigur. Þrátt fyrir það kemur hann ekki alveg nógu vel út úr þessu öllu. Það er einstaklega óheppilegt að væla yfir því að konur eigi greiðari leið að fylgi en karlar. Það er eiginlega óforskammað í kosningum þar sem konur fengu nokkuð innan við 30% atkvæða þrátt fyrir að vera rétt tæplega helmingur frambjóðenda. Andri og stuðningsmenn hans verða að hætta að varpa upp þeirri mynd að þeir sem kjósi hann ekki séu á einhvern hátt ókúltiveraðir vitleysingar. Þær hugsjónir sem Andri stendur fyrir eru jákvæðar, upplífgandi og nauðsynlegar – það fer illa á því að framreiða þær með beiskju eða hroka. En þær eiga um leið undir högg að sækja. Þess vegna þarf að berjast áfram fyrir þeim. Það er samt ekki alveg ljóst hvort það verði best gert í pólitík eða með öðrum hætti. Nú þarf að skoða það. Við þurfum að halda Draumalandinu á lífi.
Það sem hinir smærri frambjóðendur lærðu á kosningabaráttunni er að jakkafataklæddir öfgar virka best. Það var aðdáunarvert að sjá þegar bæði Sturla og Ástþór áttuðu sig á því að þeir þyrftu ekki alltaf að vera organdi reiðir. Og raunar voru þeir miklu viðkunnalegri undir lokin. Það sem ég óttast pínulítið er að sú lexía muni skila því að hér fari að vaxa (líklega ótengt þeim persónulega) upp öfgafullar stjórnmálahreyfingar í dulargervi. Ekki orð um það meir í bili.
Að lokum verður að draga fram þátt Elísabetar. Hún átti fleygustu orð kosningabaráttunnar þegar hún sagði: „Ég sýni þjóðinni og sjálfri mér þá virðingu að vera ég sjálf.“ Og hún sjálf er dásamleg. Dásamlega mennsk.
Athugasemdir