Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ráðlagður dagskammtur af gæsku

Manneskjan er harðgerð skepna. Hún getur aðlagast næstum hverju sem er. Það hefur enda ekki verið nein vanþörf á því í gegnum tíðina. Þau skilyrði sem náttúran og menn sjálfir hafa búið sér frá örófi alda eru svo fjölbreytt að erfðakjarnsýrur okkar hafa verið strengdar til hins ítrasta til að tryggja vöxt og viðgang. 

Unnur Jökulsdóttir segir til dæmis frá því í Kríusögum sínum hvernig börnin í glæparíkinu Panama væru svo forhert af hýðingum foreldranna að ekki dygði minna til en að berja þau með sverum vatnsslöngum ætti það að hafa einhver áhrif. Og jafnvel þá væri áhrifin helst þau að börnin hertust með hverri barsmíð.

Gamlar lýsingar á íslenskum börnum segja frá agalausum krakkaskríl sem barinn var sundur og saman án þess að batna. Uppeldissamviskubit þjóðarinnar er djúprist. Freud gæti gert sér mat úr því að nú eru tvær vikur á ári undirlagðar því að þjóðsagnartröll eru látin færa börnum fórnir frá foreldrunum. Þessi sama kynjaþjóð var áður notuð til að hóta börnum hörmungum, limlestingum, ógnunum og dauða héldu þau sig ekki á mottunni.

Mannkynið væri líklega löngu útdautt hefði það ekki þennan hæfileika til að þrífast á misjöfnu. Innra með okkur lúrir möguleikinn til nær óhugsandi vonsku en einnig stórkostlegrar fegurðar. Þess vegna er heimurinn útataður í stríðum þar sem jafnvel lítil börn eru látin taka upp vopn gegn óvinum. En þess vegna er heimurinn líka fullur af fórnfýsi, gæsku og góðum verkum.

Samfélag okkar er samfélag sem reynir að stuðla að hinu góða og úthýsa hinu vonda. Við vitum alveg að mannkynssagan hefur sannað ítrekað að börn lifa það af að vera barin en við höfum samt tekið þá afstöðu að umbera ekki barsmíðar á börnum. Þótt þær séu söguleg arfleið.

Við reynum að styðjast við rannsóknir og vísindi þegar kemur að skipulagi samfélags okkar. Því fylgja sérstakar hættur. Fólk er ennþá með því flóknasta sem við þekkjum og það er misráðið að þykjast geta staðlað það.

Hver er til dæmis ráðlagður dagskammtur af gæsku? 

Barnauppeldi er ekki færibandavinna. Það er menntun ekki heldur. Bæði uppeldi og menntun snýst að verulegu leyti um að virkja eitthvað innra með barninu. Uppeldi og menntun snýst að mestu leyti um það hvað barnið kemur til með að gera eftir að skólanum sleppir. 

Ráðlagður dagskammtur af stærðfræði er ekki til.

Erfiðar upplifanir eru nær örugglega mikilvægur þáttur þess að verða heilsteypt manneskja. Það þurfa allir að upplifa erfiðleika, sorg og höfnun. Einföldustu staðreyndir lífsins bera það með sér að mikilvægt sé að geta glímt við óumflýjanlega erfiðleika. 

Spakmælið segir að börn þrífist best á misjöfnu. Það er eflaust rétt. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart þegar eldra fólk og íhaldssamt stígur fram á völlinn og kvartar undan vettlingatökum.

Nýjasta dæmið er Óttar Guðmundsson geðlæknir. Óttar fullyrðir að geta fólks til að glíma við áföll upp á eigin spýtur sé miklu meiri en gert sé ráð fyrir. Þess vegna sé sífellt verið að hjálpa fólki sem þurfi enga hjálp. Hann nefnir ömmu sína sem dæmi. Tíu börn hennar dóu og tveir eiginmenn. Hann spyr hvort áfállahjálp hefði breytt einhverju.

Ef við byggjum í Panama hefði Óttar eins getað sagt að hann hefði verið barinn tvisvar í viku með garðslöngu þegar hann var barn. Og hann hefði vel þolað það.

Það er auðvitað rétt að menn hafa umborið ægilegar raunir gegnum tíðina. Oftast í hljóði. Hörmulegt ástand hefur víða verið viðtekið – og flestir hafa sætt sig við það. Að minnsta kosti á yfirborðinu. Ef mannkynssagan ætti sér slagorð væri það: Lært bjargarleysi.

Tökum lítið dæmi. Atvinnuhættir á Íslandi voru lengst af með því móti að afar erfitt var að stofna fjölskyldu. Í hverri sveit var styrkur fárra studdur af ómegð margra. Þess vegna var ekki óalgengt að heimili sundruðust af litlu tilefni. Dauðsföll, hallæri og fátækt urðu til þess að umkomulausari hluti þjóðarinnar kæmist á vergang eða flakk. Ótal mæður þurftu að horfa á eftir börnum sínum þegar þeim reyndist um megn að ala önn fyrir þeim.

Við gætum nefnt Jónas Hallgrímsson. Hann var sendur að heiman sem barn eftir að faðir hans drukknaði við silungsveiðar í Hraunsvatni. Það þótti áreiðanlega ekkert tilkomumál þótt barn sæi líkið af föður sínum uppi á borði. Það þótti líka eðlilegt að börn dáinna feðra færu að heiman til að „létta á“ heimilinu eins og það var kallað.

Menn hafa tilhneigingu til að vorkenna sér ekki nema þeir fái leyfi til þess. Lengst af hafa menn borið harm sinn í hljóði. Það þýðir ekki að Jónas hafi ekki þjáðst undan dauða föður síns. Eða að ömmur okkar hafi ekki grátið í hljóði hvert einasta barn sem þær misstu í dauðann – þótt börnin væru tíu. 

Menn voru ekki mikið að bera þjáningu sína á torg. Það þótti skapgerðarbrestur. 

Löngu seinna þegar Jónas varð fyrir því að missa kærkomna vini á stuttum tíma opnaði hann á föðurmissinn í ljóðlínunum: 

 

Þá var eg ungur

er unnir luku

föðuraugum

fyrir mér saman.

Man eg þó missi

minn í heimi

fyrstan og sárstan

er mér faðir hvarf.

 

Við mættum stundum að hugleiða að hinn lágværi niður aldanna geymir mörg þögul óp örvæntingar.

Þurfi einhver frekari sannana við til að sjá og skilja að hversdagslegir hlutir skildu eftir djúp ör þá mæli ég með að lesa lýsingu Matthíasar Jochumsonar á því þegar hann var slitinn úr fangi móður sinnar og fluttur burt „til að létta undir“ með henni. Eftir þann lestur þarf enginn að velkjast í vafa um það að það gat verið sárt að vera til.

Okkur hefði verið mikill sjóður í því ef við ættum lýsingar mæðra þeirra Jónasar og Hallgríms á sömu atburðum. En það er karlmennska að bera harm sinn í hljóði og karlmennska hefur alltaf einkennt íslenskar konur frekar en karla.

Nú mætti segja að dæmið af Jónasi sé einmitt sönnun þess hve dýrmæt þjáningin sé. Listaskáldið góða sé beinlínis skilgetið afkvæmi þeirra þjáninga og þess rofs sem varð í lífi hans á barnsaldri. Líklega er það að einhverju leyti rétt. Hefði Hallgrímur ekki dáið svona snemma er líklegast að Jónas hefði endað sem sveitaprestur norður í landi í stað þess að verða skáld, orðsmiður og náttúrufræðingur í Köben.

Við þetta er samt ýmislegt að athuga. Hví skyldum við frekar rekja fegurðina til erfiðleikanna frekar ljótleikann, til dæmis drykkjusýkina og ótímabæran dauða?

Vissulega magnar ljótleikinn oft upp fegurðina. Og vissulega er sköpun oft undankomuleið frá þjáningu. En ætli fegurðin og sköpunarmátturinn sé samt ekki margfalt meiri í heimi þar sem slíkt er ræktað og nært en í heimi þar sem slíkt er viðbragð fárra við hörmungum og dauða. Hefði Mozart orðið meira undrabarn ef móðir hans hefði dáið við fæðingu hans (eins og minnstu munaði) í stað þess að deyja þegar hann var táningur?

Hver er ráðlagður dagskammtur af þjáningu? Þurfa listamenn hærri skammta?

Þjáning er okkur öllum nauðsynleg. Þar með er ekki sagt að við ættum að leita hana uppi. Það er eðlilegt að við færumst undan þjáningu þar sem það er hægt en berum hana af reisn þar sem hún er óumflýjanleg. Hefði samfélagið litið á Jónasar litla Hallgrímsson sem sína ábyrgð hefði það átt að koma í veg fyrir að hann þyrfti að flytjast að heiman. Jafnvel þótt samfélagið hefði vitað að hann kynni seinna að meitla eitthvað fallegt úr þjáningarsteininum sem annars yrði til í maga hans. Og hefði samfélagið haft sæmilega ábyrgðarkennd gagnvart náunganum hefði faðir Jónasar aldrei drukknað spottakorn frá landi. Fólki hefði verið kennt að synda.

Það er eðlilegt og rétt að hjálpa. Alveg eins og það er eðlilegt að tjá sig um þjáningu sína og sársauka. Það var kannski ekki karlmannlegt af Jónasi og Matthíasi að segja frá sorg sinni. En það var rétt og það var fallegt. Eins kann einhverjum að þykja að það sé ekki karlmannlegt að þjást eftir að hafa lent í mikilli ókyrrð eða bankaráni. En það er rétt að segja frá og það er rétt að hjálpa þeim sem þjást. Það er ekkert fallegt við það að láta sem ekkert sé – þótt til sé fólk í mannskynssögunni sem þagði við stærri áföll.

En það er munur að hjálpa og staðla. Þjáning, eins og allar mannlegar tilfinningar, hefur mismunandi áhrif á fólk. Það er ekki hægt að afgreiða vonda lífsreynslu með einni aðferð sem virkar fyrir alla. Og það er ekki hægt að krefjast þess að fólk fylgi einni forskrift þegar það verður fyrir skaða. Hjálp á að vera í boði án þess að henni sé troðið upp á fólk. Þannig hjálpar maður fólki raunverulega.

Í umræðum um grein Óttars skaust á flot það viðhorf að sekta skyldi foreldra barna sem treysta sér ekki í skólann. Sumum þótti slík skoðun fljóta af viðhorfum geðlæknisins.

Börn sem ekki mæta í skólann langdvölum eru vissulega í miklum vanda. Það er hættulegt að vera ekki þátttakandi í samfélagi og vandræði ungs fólks við að tilheyra geta hæglega magnast og orðið langvarandi.

Þetta hörkuviðhorf er samt alrangt og tekur ekki á kjarna málsins. Tilgangur náms er að virkja eitthvað innra með manneskjunni. Þótt þú getir með hótunum fengið til þín skrokkinn af barninu þá tryggir það þér engan aðgang að sálinni. Þú menntar ekki holmenni. Þú menntar ekki einhvern sem treystir þér ekki. 

Eflaust mætti segja að stöðug seta á skólabekk sé forsenda fyrir því að nám eigi sér stað (það held ég raunar að sé rangt) og því verði með öllum tiltækum ráðum að fá börnin í skólann eigi nám að vera möguleiki til að byrja með. Við því myndi ég segja að það að ná til barns sem flutt er nauðungarflutningum í skólann er alltaf erfiðara verkefni en að fá barn til að vilja mæta í skólann. Menn ættu þá að leggja orkuna í það að fá barnið til að koma.

Síðan 2012 hafa foreldrar breskra barna verið sektaðir fyrir óheimilar fjarvistir úr skóla. Þar er nefnilega búið að staðla nám svo grimmilega að búið er að reikna út nákvæmlega hvaða framfarir skulu sér eiga stað á hverri einustu viku frá því barnið er fimm ára þar til það er sextán ára. Bent er á að tíu daga leyfi frá skóla á hverju ári minnki líkurnar á ágætiseinkunn á samræmdu prófi um fjórðung.

Fyrsta skólaárið voru gefnar út 32.512 sektir. Það næsta voru sektirnar orðnar 62,204 og á síðasta ári voru þær 86.010. Nú hefur samband sveitarfélaga þar í landi sagt að kerfið sé óframkvæmanlegt. Ástæðan var sú að faðir fimm eða sex ára stúlku neitaði að samþykkja það og fór með dóttur sína í tíu daga ferð í Disney World þrátt fyrir að skólinn hefði hafnað leyfinu. Sumir hafa meira að segja bent á að eina leið fátækari fjölskyldna til að leyfa börnum sínum að ferðast sé að fara utan háannatíma. Í þessu tilfelli neitaði faðirinn að borga sektina og dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið í rétti.

Í Bretlandi hefur grundvallarmisskilningur á því hvað nám er orðið til þess að festa í sessi mannfjandsamlegt kerfi. Börn sem ekki mæta í skólann kunna vissulega að vera í miklu vanda. Þau þurfa hjálp. Það þarf ekki að koma á óvart að grunnskólakerfi sem er í raun gjaldþrota sjái enga aðra leið en að láta þá hjálp vera á formi nauðungar.

Hið hjálpsama samfélag má ekki vera ósveigjanlegt. Það er kannski okkar versti löstur. Við höfum einfaldar, yfirborðskenndar hugmyndir um hið góða líf. Við höfum ráðlagðan dagskammt af öllu. En ráðlagður dagskammtur af þjáningu er ekki til. Ekki heldur ráðlagður dagskammtur af sköpun.

Hjálp þarf að vera á forsendum þess sem hjálpa á – þótt hún hafi á endanum bætandi áhrif fyrir samfélagið allt. 

Uppeldi og menntun mega ekki vera línulegir, staðlaðir ferlar. 

Sú vá vofir til dæmis yfir háskólunum að búið er að koma upp allskyns ferlum og stöðlum sem raunverulega kunna að koma í veg fyrir að háskólar sinni sínu hlutverki. Frægur nóbelsverðlaunahafi sagði um daginn að ef háskólar á sinni tíð hefðu gert sömu kröfur um afköst og nú væru þá hefði hann aldrei haldið starfinu. Hann hafði enda eytt megninu af ferlinum í að glíma við eitt tiltekið vandamál, lengst af án árangurs, en þegar hann loks leysti það fylgdu því nýjar grundvallaruppgötvanir í fræðigrein hans.

Á síðustu öld voru til háskólar sem markvisst gerðu engar kröfur til sinna bestu meðlima. Þeir töldu sig vita sem var að þær kröfur sem byggju innra með snillingum væru fremri þeim kröfum sem stofnun gæti veitt þeim.

Mér varð hugsað til þess í umræðunni um listamannalaun nú á dögunum. Sú umræða hefur geisað í íslenskum fjölmiðlum frá árinu 1919. Hún er alltaf eins. Byggir alltaf á sama misskilningum á því hvað list sé – og til hvers list sé.

Svo virðist sem að einu „framfarir“ umræðunnar á hundrað árum séu þær að nú hafa hælbítar listamanna komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að mæla afköst rithöfunda í kílóum af pappír. 

Það er ágætis áminning um það að þótt hlutirnir mjakist fram á við og samfélagið sé að flestu leyti betra en það var – þá er ekki langt niður á sammannlega bresti eins og heimsku og grimmd.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni