Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ímyndarherferð Viðskiptablaðsins

Á vef Viðskiptablaðsins eru þessa stundina tveir pistlar sem eiga að sannfæra lesendur um að blaðið sé býsna gott. Annar pistillinn er skrifaður til höfuðs „virkum í athugasemdum“ og óvinum blaðabarna – hinn til höfuðs mér.

Í seinni pistlinum segir blaðamaður að ef hann væri eins og ég myndi hann hætta í vinnunni sinni. Því annað hvort sé ég vitlaus eða knúinn áfram af annarlegum hvötum.

Málið snýst um þessa hendingu í pistli eftir mig (svona í pistlinum í Vb):

„Það getur verið erfitt að þjóna tveimur herrum," skrifaði Ragnar Þór. „Um daginn steig Viðskiptablaðið feilspor þegar það setti kjarakröfur kennara í nýtt samhengi með stríðsfrétt um stórkostlegar kjarabætur OR. Í kappi sínu við að freta á vinstri mennina í stjórn Reykjavíkurborgar blés blaðið óvænt vindi í segl kennara. Ég þykist vita að í baklandi blaðsins hafi ekki verið nema miðlungs ánægja með blaðið eftir þetta. Þess vegna kom það mér ekki á óvart að í síðasta blaði birtist löng og ítarleg loftárás á kennara, skreytt með myndritum." 

Síðan segir blaðamaðurinn að kjarabætur í OR hafi verið fréttnæmar. En það sé dæmi um sjúkleika að telja að það að frétt sem komi sér illa fyrir meirihlutann í Reykjavík sé birt í Viðskiptablaðinu hafi nokkuð með pólitík að gera. 

Blaðamaðurinn segist raunar ekki gera athugasemdir við pistil minn að öðru leyti en því að ég dragi fréttaskrifin inn í umræðu um Viðskiptablaðið sem málpípu pólitískra afla.

Um þetta er auðvitað bara það að segja að ofangreind tilvitnun stendur eins og hún er. Ritsstjórn Viðskiptablaðsins er með þeim hætti að blaðinu er grímulaust beitt til að skara eld að köku tiltekinna pólitískra afla í landinu. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að ekki finnist á blaðinu heiðarlegir starfsmenn. Það þýðir aðeins að vinna hinna heiðarlegu er alltaf fyrr eða seinna sett í samhengi af grímulausum erindrekum tiltekinna viðhorfa.

Dæmið sem ég var að ræða í pistli mínum var einstaklega skýrt. Viðskiptablaðið hafði birt frétt sem gagnaðist kennurum í kjarabaráttu. Stuttu seinna birtist pistill sem var einhver sú ofsafengnasta og annarlegasta árás á kennara sem birt hefur verið í íslenskum fjölmiðli. Hún birtist bæði í vef- og prentútgáfu blaðsins.

 Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina getur alveg sagt að árásarpistillinn komi sér ekkert við. Það er alveg rétt. En bæði fréttin og pistillinn koma ritstjóranum við – og það er hann sem stjórnar blaðinu. Það er hann sem markar stefnu þess. Og það er hann sem ber ábyrgð á því að Viðskiptablaðið er löngu orðið að málgagni harðlínumanna á hægri kantinum. 

Það er vissulega rétt að ofsakenndustu skoðanir blaðsins hefur ítrekað þurft að flytja í skoðanapistlum – einfaldlega vegna þess að veruleikinn er ekki í samræmi við þær skoðanir sem verið er að boða nema að takmörkuðu leyti. Þannig var stórsókn Viðskiptablaðsins gegn núverandi forseta landsins í kosningabaráttunni byggð á litlu öðru en baknagi og rógi. 

Blaðamenn eru ekki sótthreinsiklútar. Það að á blaðinu finnist heiðarlegir blaðamenn merkir ekki að miðillinn sjálfur sé heiðarlegur. Ekki frekar en að hvítir reitir á skákborði sanni að skákborð sé hvítt á litinn. 

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að allir starfsmenn Viðskiptablaðsins séu óheiðarlegir eða óvandaðir. 

En ég segi hiklaust að ritstjórnarstefna blaðsins sé það. Og að miðlinum sé (í prenti og á vef) beitt á grimman pólitískan hátt.

Ímyndarherferð Viðskiptablaðsins mun ekki skila miklum árangri þótt dreginn sé fram einn og einn heiðarlegur blaðamaður eða eitt og eitt „blaðabarn“ sem kann íslensku.

Ímynd miðilsins fer þá fyrst að batna þegar þeir sem þar stjórna sýna í verki að þeir verðskuldi heiðarlega og vandvirka blaðamenn. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni