Helgi Hrafn ætlar ekki fram. Klókt plan hjá Pírötum?
Fréttir um að Helgi Hrafn ætli ekki fram í næstu kosningum komu mér eins og flestum öðrum á óvart. Svo hugsaði ég málið aðeins og mér sýnist sem allt bendi til þess að tíðindin merki að brátt megi búast við því að stjórnarandstaðan komi sér saman um aðalmál næstu kosninga: Stjórnarskrána.
Helgi ætlar að snúa sér að innra starfi flokksins og grasrótinni. Það er ekki vanþörf á því. Það er meira en að segja það að búa til heilan stjórnmálaflokk á örfáum misserum úr sundurleitum hópi hugsjónafólks. Píratar eiga á hættu að verða vinstra-heilkenni stjórnmálanna að bráð. Það er erfitt að ná málamiðlunum í hópi byltingarseggja. Og það verður mjög erfitt að ná utan um innra starf flokksins. Það verður þeim mun auðveldara ef þeir sem því starfi sinna hafa trúverðugleika og geta miðlað málum. Það er alveg viðbúið að Helgi Hrafn er líklega sá maður sem auðveldast ætti með nákvæmlega það. Á hann verður hlustað meðal þeirra sem gengið hafa til liðs við flokkin og munu ganga til liðs við flokkinn á næstunni.
Raunar held ég þetta sé merki um meiri kænsku en Píratar hafa verið þekktir fyrir hingað til. Inn í flokkinn streymir nú fólk úr öllum áttum. Það er eiginlega útilokað að vita hvernig stjórnmálamenn verða úr mörgum af þeim sem stigið hafa fram – og munu jafnvel fá brautargengi. Þetta gæti verið uppskrift að tortímingu. Að fjórum árum liðnum gæti allt hafa liðast í sundur. Birgitta hefur náttúrlega reynslu af fyrstu hendi af því hve illt er að treysta á samstöðu í nýjum þingflokkum.
Lang gáfulegast er fyrir Pírata að fara til kosninga í haust (að því gefnu að við það verði staðið) með eitt, skýrt mál. Og það mál er stjórnarskráin. Það mál hefur á bak við sig þjóðarvilja upp að verulegu marki og er eitthvað sem allir tilvonandi þingmenn flokksins hljóta að geta staðið á bak við – þótt ekki sé nema vegna þess að réttmæti nýju stjórnarskrárinnar er tilkomið vegna reglulegrar aðkomu almennings að ákvörðunum tengdum henni. Á meðan þingflokkurinn afgreiðir málið með dyggri hjálp baklandsins getur Helgi unnið með öðrum að því að flokkurinn verði setjandi á annan vetur.
Stjórnarskráin er aukinheldur mál sem gerir stjórnarandstöðunni kleift að kaupa sér tíma og kratar, sem horfa fram á fullkomna eyðileggingu, geta farið í kosningar í ákveðnu vari. Það verða aðrar kosningar fljótlega þegar málið er farið í gegn frá þinginu. Þá geta flokkarnir sem ekki eru tilbúnir nú í haust verið búnir að ná vopnum sínum og þá ætlar Helgi Hrafn fram – með flokk sem búinn er að vinna í sínum innri málum og tilbúinn í slaginn. Þeir þingmenn sem þá hafa setið á þingi í stuttan tíma geta snúið aftur heim í kjördæmi, búnir að uppfylla kosningaloforð og tilbúnir til að fá umboð til heils kjörtímabils í viðbót.
Ég hygg þetta sé mjög klókt. Þetta gæti alveg virkað.
Athugasemdir