Davíð og Guðni
Í síðasta pistli sagði ég að framboð Davíðs Oddssonar væri á stuttum tíma orðið það óheiðarlegasta í sögu forsetakosninga. Sumum fannst að þar væri ég að vanmeta framboð Ólafs Ragnars gegn Þóru. Í öllu falli eru töluverð líkindi milli þess hvernig Davíð og Ólafur kusu að haga sinni baráttu.
Ég átti í löngum umræðum fyrir síðustu forsetakosningar um þá afstöðu mína að kjósa Ólaf.
Ég kaus hann. Af tveimur ástæðum. Hann hafði sýnt að í skilningi hans á forsetaembættinu hafði almenningur raunverulega vald gagnvart þinginu oftar en á fjögurra ára fresti. Hinsvegar taldi ég að hann væri líklegur til að vera þrándur í götu stjórnlyndra foringja sem ætluðu sér að troða málum gegnum þingið hvað sem það kostaði.
Ég held að það hafi verið rétt greining. Nú, fjórum árum seinna, stöndum við frammi fyrir a.m.k. þremur ágætum kostum sem vilja nota beint lýðræði sem aðhald á stjórnvöld. Tími Ólafs er liðinn og mig grunar sterklega að hann hafi reynst mikilvægt púsl í ákveðnu samfélagsspili sem enn er verið að spila.
Síðdegis horfði ég á Guðna Th. mæta Davíð Oddssyni í umræðum. Stuttu eftir þáttinn lýstu viðhlæjendur Davíðs yfir fullnaðarsigri og töldu að þarna hefði Davíð gert sér bragð úr ellefta boðorðinu um að græða á daginn og grilla andstæðinga sína á kvöldin.
Það sem mig grunar að þeir hafi túlkað sem stórsigur Davíðs voru augljós óþægindi Guðna. Þeim kom ekki til hugar annað en að þau óþægindi stöfuðu af einhverskonar blöndu þess að hafa vondan málstað og verja og uppgjöf gagnvart leiftrandi snilld andstæðingsins.
Ég sá þetta ekki þannig. Óþægindi Guðna voru í mínum augum fullkomlega eðlileg. Þarna var verið að draga umræður niður á svo lágkúrulegt plan að Guðni hafði eiginlega bara tvo kosti. Að verða lágkúrulegur sjálfur – eða sitja þarna og líða illa.
Mig grunar að mikil sigurvíma sé í herbúðum Davíðs í kvöld. „Sáuð þið hvernig ég tók hann?!“ og allt það. En sú sigurvíma er lævís. Í kvöld jók Davíð ekki fylgi sitt, hann dýpkaði það. Alveg eins og maður sem fastur er í mýri er jafn fastur þótt stígvélin hans sökkvi dýpra. Hann gladdi fyrst og fremst þá sem þegar styðja hann fyrir. Þeir sem ekki voru fyrirfram í her Davíðs upplifðu þetta öðruvísi.
Mörgum misbauð framkoma Davíðs. Eineltistilburðirnir voru augljósir. Vanlínað Guðna einnig. Góðu heilli er enn til fleira fólk í þessu landi sem á auðvelt með samúð en þeir sem njóta þess að horfa á ofbeldisseggi.
Öðrum misbauð en af öðrum sökum. Þeir sem haft hafa fyrir því að setja sig inn í þau mál sem Davíð notar sem ásakanir gegn Guðna sjá svo greinilega hvernig ekki stendur steinn yfir steini. Allt sem Davíð segir um Guðna er lygi. Hver einasta ásökun. Það er nokkuð undarleg upplifun að horfa á mann mæta í sjónvarpssal og fá að þusa óáreittur og dæla upp úr sér ásökunum sem enginn fótur er fyrir. Hefði umsjónarmaður þáttarins verið betur undirbúinn hefði mátt ætla að Davíð hefði verið stoppaður af. Í stað þess fékk hann að láta dæluna ganga.
Guðni hefur veikleika. Þessi veikleiki birtist í þeim ummælum sem Davíð þykist geta notað gegn honum. Kaldhæðnislegt er að nákvæmlega sami veikleiki kemur í veg fyrir að Guðni afhjúpi Davíð sem hræsnara og loddara. Veikleiki Guðna er sanngirni.
Sanngirni er veikleiki í pólitík. Að minnsta kosti eins og Davíð og ÓRG stunda hana.
Málið er, að við erum ekki að leita okkur að nýjum forseta sem er góður í pólitík. Ég held það sé meira að segja nokkuð rúmur meirihluti fyrir því að kjósa heldur sanngjarnan mann á Bessastaði en lævísan.
Davíð sakar Guðna einkum um þrennt: Móðgun við þorskastríðin. Löngun til að ganga í ESB og vilja til að borga Icesave.
Guðni hélt eitt sinn fyrirlestur, m.a. um þorskastríðin, þar sem hann m.a. útlistaði kenningar um hneigðir þjóða til að búa sér til ákveðnar fegraðar en falskar minningar um atburði í sögu sinni. Hann spurði á einum stað hvort tilteknar vísbendingar úr óformlegum rannsóknum pössuðu við þá kenningu að þar væri fávís lýður að taka þátt í að búa til slíkar minningar. Síðan ræddi hann málin fram og aftur og gekkst greiðlega við því að vera í hópi þeirra fræðimanna sem sæju ákveðnar vísbendingar um að svona kenningar nytu nokkurs stuðning af sönnunargögnum í íslenskri sögu.
Auðvitað er þetta allt rétt hjá Guðna og rækilega rökstutt. Það er ekki einu sinni umdeilanlegt í akademískri hugsun að svona virki hlutirnir. Það, að varpa fræðilegu ljósi á atburði í Íslandssögunni, er ekki landráð eða þjóðníð. Þvert á móti er það nauðsyn hverri þjóð að geta horft á sjálfa sig í akademískum spegli.
Móðgunargirni fyrir hönd löngu dáinna skipherra er í besta falli kjánaleg. Í versta falli svívirða. Skipherrar landhelgisgæslunnar og áhafnir þeirra voru oft ekki nema í meðallagi ánægðar með íslenska ríkið og til eru upptökur af ansi hreint magnaðri gagnrýni á hugsanagang íslenskra stjórnvalda í miðju þorskastríði úr ranni þeirra sem sáu um að gæta miðanna. Ef eitthvað er móðgun við minningu þeirra er það ámátleg tilraun til að nota skipherrana í þjóðrembulegu áróðursstríði til að lengja ögn í pólitísku dauðastríði valdasjúks manns.
Icesave taldi Guðni að væru nauðasamningar og að kannski væri skásti kosturinn sá að semja. Þetta sagði hann um þá samninga sem Ólafur Ragnar samþykkti en var hafnað af Bretum og Hollendingum. Davíð rausaði mikið um að Guðni hefði enga sannfæringu – ólíkt Ólafi og notaði Icesave sem dæmi. Það sjá allir hve ámátlegur rökstuðningur þetta er. Ólafur Ragnar var ekkert innblásinn af slagorðinu „Við borgum ekki skuldir óreiðumanna“ þegar hann höndlaði með Icesave. Hann samþykkti samninginn sem Guðni taldi að væri kannski sá illskásti. Þjóðin hafnaði næsta samningi. Og þar skiptist þjóðin í fylkingar.
Ég var dyggilega gegn Icesave og skrifaði kannski manna mest gegn samþykkt samninganna. Það breytir því ekki að ég var fullkomlega meðvitaður um að ég tilheyrði þjóð þar sem til voru aðrar skoðanir á málinu en mínar. Jafnvel þótt ég hafi verið bjargfastur á sannfæringu minni hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að málið væri þannig vaxið að ég ætti að reyna að ræna völdum og knýja fram eina niðurstöðu færi málið á þann veg sem væri mér óljúft. Það er erfitt að lesa í hvað Davíð er að reyna að segja um afstöðu sína og sannfæringu – en það er morgunljóst að forseti getur aldrei gert annað en að ráðfæra sig við þjóðina. Það er ekki hlutverk hans að hafa vit fyrir henni eða segja henni fyrir verkum. Forseti sem ekki hlustar á aðrar skoðanir en sínar eigin er ekki aðeins ófær um að vera forseti – hann er andlýðræðislegur.
Davíð reyndi að saka Guðna um að vilja inn í Evrópusambandið í fyrri kappræðunum en náði ekki að koma því nægilega vel að. Hann hamraði því járnið í kvöld. Samkvæmt Davíð er Guðni ESB-sinni og hann játaði það á Útvarpi Sögu.
Nú hlustaði ég á viðtalið á Útvarpi Sögu. Það viðtal vakti fyrst verulega athygli mína á Guðna. Hann svaraði vel og raunar aðdáunarlega þegar reynt var að espa upp andúð á flóttamönnum. Í viðtalinu reyndi Pétur hvað af tók að fá Guðna til að segjast hlynntur aðild að ESB. Það tókst ekki fyrr en Pétur var búinn að eyða töluverðum tíma í að mála upp eftirfarandi sviðsmynd: Segjum að þjóðin kjósi að halda viðræðum áfram og gerður sé samningur. Í þeim samningi nái Íslendingar fram öllum sínum ítrustu kröfum í hverju einasta máli. Hvað myndi Guðni gera þá?
Guðni ítrekaði að þetta væri ósanngjörn spurning og afar óáreiðanleg en fékkst að lokum til að segja að í svona ímyndaðri sviðsmynd gæti hann freistast til að segja sjálfur „já“ við samningi. Hann hafði þegar byggt undir það svar með því að benda á að þátttaka Íslendinga í ýmsu alþjóðlegu starfi, t.d. Nató, væri töluvert umfram það sem menn hefðu upphaflega talið felast í fullveldi landsins.
Stuðningsmenn Davíðs hafa farið mikinn á netinu með þetta svar. Þeir segja að Guðni sé ESB-sinni. Og þegar þeim er bent á alla fyrirvarana hreyta þeir út úr sér: „Guðni á að vita að svona samningar myndu aldrei nást.“
Það á ekkert að þurfa að útskýra það hvað er óheiðarlegt við þessar aðfarir. Það ætti að blasa við.
Og það sem meira er. Guðni væri fyllilega fær um að vera forseti jafnvel þótt hann styddi aðild að ESB, ef það væri gert að ígrunduðu máli.
Stuðningsmenn Davíðs ættu að ígrunda dæmi sem er þeim ögn nærtækara. Hvers vegna er Guðni svona mjúkur við Davíð?
Jú, af nákvæmlega sömu ástæðu og hann neitar sér um að hafa aðeins svarta eða hvíta skoðun á öllum málum. Hann telur að Davíð sé ekki djöfull í mannsmynd og neitar sér um að skrumskæla hann eða mála upp ofureinfaldaða mynd af honum. Það má reyna að sjá kostina í Davíð alveg eins og það má sjá kosti þess að borga Icesave, ganga í ESB eða draga þjóðrembu í efa. Raunar krefst sanngirni þess að maður reyni.
Niðurstaða Guðna er að Davíð sé ekki alvondur. Að Davíð hafi orðið fyrir barðinu á skrumurum sem tæta hann í sig af töluverðri heift.
Og ,takið eftir, þetta gerir Guðni jafnvel þótt hann finni nú á eigin skinni að Davíð er slíkur skrumari sjálfur – hann kýs samt að halda í heiðri sanngirni og heiðarleika gagnvart manninum.
Þegar öllu er á botninn hvolft hefur Davíð nefnilega rétt fyrir sér um einn hlut í dag. Það er stórmunur á sannfæringu þessara tveggja manna. Bara ekki á þann veg sem Davíð heldur.
Athugasemdir