Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Blindi meðlimur SALEK-hópsins

Þeir fáheyrðu atburðir gerðust á dögunum að formaður KÍ sýndi að í honum blundar skap. Það er í sjálfu sér ágætt. Það sem ergði hann var þessi pistill hér.

Nánar tiltekið þessi efnisgrein hér:

„Samningurinn var allur reistur á brauðfótum. Brauðfótum sem kennaraforystan vissi af en hélt leyndum fyrir kennurum.“

Það sem formaðurinn vill meina er að atburðarás í kjaramálum síðustu mánaða hafi öll verið svo tilviljanakennd og óvænt að það hafi ekki verið nokkur leið að sjá fyrir að það myndi enda þannig að grunnlaunahækkanir til kennara samkvæmt síðasta samningi myndu rýrna niður í það sem laun voru fyrir samning. Honum er sérstaklega illa við að vera sakaður um óheilindi. 

Það er nú svo að ég er ekkert endilega að tala um óheilindi í pistlinum mínum. Ef eitthvað eitt orð næði utan um það (sem það gerir ekki) væri miklu nær að velja vanhæfni eða klúður. Staðreyndin er nefnilega sú að þessi gersamlega „óvænta“ atburðarás sem KÍ var aðili að hefur leitt til þess að viðsemjendur kennara hafa ásamt meginþorra vinnumarkaðarins sett sér það markmið að kjör kennara rýrni – aftur. 

Ég segi aftur. Því þetta er í annað sinn sem nákvæmlega sami leikurinn er leikinn. Árið 2002 var gerður samningur sem fela átti í sér stórkostlegar leiðréttingar á kjörum kennara. Tveimur árum seinna var komið verkfall. Tveimur árum! Kennarar hafa nefnilega fengið skítalaun gríðarlega mörg ár aftur í tímann. Ástæðan er ekki flókin. Sveitarfélög hafa getað leyft nýliðun að hrynja og eftirsókn að hverfa vegna þess að eldri kennarar eru fangar eigin eftirlauna. Þess vegna er nákvæmlega enginn innri hvati til að efla kjör kennara. Nema ef vera skyldi faglegur metnaður og virðing fyrir skólastarfi. Það eru bara engir dálkar fyrir metnað og virðingu í Excel-skjalinu.

Nú er ágætt að rifja upp hvað SALEK er. Það er það sem málið snýst um. SALEK er hópur sem á að breyta íslenskum vinnumarkaði í skandinavískan með því að stöðva höfrungahlaup í launahækkunum og búa til einhverskonar rólegheitastemmningu þar sem laun hækka og lækka í takti við hagkerfið. KÍ hefur ekki aðeins unnið með SALEK-hópnum af illri nauðsyn eins og formaðurinn gefur í skyn í pistlinum sínum („Það hefði verið fullkomlega óábyrgt af forsvarsmönnum KÍ að stinga höfðinu í sandinn og taka ekki þátt í vinnunni sem farið hefur fram innan hópsins“) heldur leiddi fulltrúi KÍ hluta af vinnunni. 

Það var alveg ljóst af öllu starfi hópsins og öllu því sem frá honum kom að stórar launaleiðréttingar eins og þær sem KÍ þóttist ná fram í síðustu samningum var einmitt það sem hópnum var ætlað að eyða. Það kemur því líklega engum á óvart þegar SALEK-hópurinn ákveður að eyða áhrifum launahækkana kennara á næstu árum – nema formanni KÍ.

Hér verð ég að benda á svolítið broslegt. Formaðurinn skrifar í skammarbréfinu um mig: „Fyrir hálfum mánuði var gengið frá rammasamkomulagi [...] sem hefur síðan verið ranglega kennt við svokallaðan SALEK-hóp. Ég segi ranglega, því bæði KÍ og BHM, sem hafa frá upphafi tekið þátt í SALEK og gera enn, neituðu að skrifa undir.“

Það sem er broslegt er að hér reynir formaðurinn að gefa í skyn að þetta hafi alls ekki verið neinn rammasamningur af hálfu SALEK-hópsins. Þannig reynir hann að láta svo líta út sem ekki sé eins mikill þungi á bak við ákvörðunina. Þetta er voða sætt – en um leið voða gegnsætt. Mínar heimildir um að rétt væri að spyrða ákvörðunina sem til umræðu er við SALEK eru einfaldar. Það hef ég eftir formanni KÍ en pixlarnir eru varla kólnaðir í rafútgáfu Skólavörðunnar þar sem hann segir: 

„KÍ samdi yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla, birt á heimasíðu KÍ og er einnig að finna aftar í þessu blaði. Þetta var gert um leið og niðurstaða SALEK hópsins var kunngjörð og rammasamkomulag aðila undirritað.“

Þetta er voða aulalegt svo sterkari orð séu ekki notuð.

Hvernig getur sami maðurinn sagt eitthvað og svo sagt nokkrum dögum seinna að það sé helber misskilningur? Mér detta aftur í hug nokkur orð. Það mætti tala um óheilindi ef maður tryði að þetta væri vísvitandi. En ef maður vill leyfa viðkomandi að njóta vafans eru vanhæfni eða klúður líklega betri orð.

Formaður KÍ vill láta okkur trúa því að það hafi verið reiðarslag að SALEK-hópurinn hafi kosið að miða laun kennara við launaþróun eins og hún stóð árið 2013. Hann skrifar í Skólavörðunni:

„Önnur ástæða er sú að viðmiðunarárið, þar sem vísitala er núllstillt, er 2013 sem er vond tímasetning fyrir aðildarfélög KÍ, því þá var launastaða félagsmanna afar slæm. Það var þá sem Kennarasambandið hóf þá vegferð að lagfæra laun kennara...“

Af hverju skyldi SALEK-hópurinn hafa miðað við 2013? Og af hverju er það svona ósanngjarnt? Hvað með 2012 eða 2011 eða 2010. 

Raunin er sú að 2013 var líklega besta viðmiðunarárið sem hægt var að velja frá 2008. Ef ár eru borin saman út frá kaupmætti og 2008 stillt sem 100 þá hefur þróun kennaralaunanna verið þessi:

2008: 100

2009: 95,9

2010: 94,4

2011: 94,9

2012: 95,0

2013: 96,3

Það sem formaðurinn á við er ekki að ósanngjarnt sé að velja árið 2013 sem viðmiðunarár og því sé SALEK-hópurinn ósanngjarn. Hann er að segja að það sé afstaða KÍ að það ætti að vera almennt samkomulag allra að kennarar myndu hækka meira en allir aðrir í þeim samningum sem sem gerðir hafa verið og gerðir munu vera síðustu og næstu misseri. Það virðist hafa komið honum stórkostlega á óvart þegar aðrir ætluðust til launahækkana líka. Hvað þá að það myndi hefjast höfrungahlaup.

Með öðrum orðum: Formaður KÍ hefur árum saman starfað með stóru aðildarfélögum launþega að því að stöðva höfrungahlaup í launahækkunum en samt byggði félagið alla kjarastefnu sína á því að kennarar kæmust upp með að hoppa einir einu sinni enn og svo myndu allir aðrir sitja kyrrir.

Það er allavega algjörlega ljóst að innan SALEK-hópsins var ekkert slíkt samkomulag.

Það var líka öllum ljóst að það stefndi í hörð átök á vinnumarkaði. Það vissu allir að framundan væri höfrungahlaup. Enn einu sinni.

Það tekur að meðaltali 1-3 ár fyrir launahækkanir kennara að rýrna. Það sýna síðustu tveir áratugir. Á þessum áratugum höfum við gert þrenns konar samninga. Einn nauðarsamning eftir að löggjafinn snerist gegn okkur. Einn átakalítinn samning með nánast engum breytingum og tvo samninga sem seldir eru sem sérstakir „leiðréttingarsamningar“. Þá eru kjarasamningar „einfaldaðir“ og kennurum sagt að laun þeirra verði leiðrétt til þess sem eðlilegt sé.

Það hefur engu skipt hvaða samningstegund verður fyrir valinu. Launahækkanir rýrna allar jafn hratt.

Til að breyta þessu væri hægt að fara tvær leiðir: Sú fyrri er að mynda einhverskonar bandalag eða þjóðarsátt um hækkuð laun kennara miðað við aðrar stéttir. Formaður KÍ virðist hafa haldið að hann væri í einhverju svoleiðis samstarfi í mörg ár þótt raunin væri sú að hann var einmitt í samstarfi um að slíkt gerðist alls ekki (og þess vegna kemur „bakreikningurinn“ nú). Hin leiðin er sú að neyða sveitarfélögin til úrbóta.

Við erum aldrei að fara að fá þjóðarsátt um stórhækkuð kennaralaun. Ekki bara vegna þess að forysta KÍ hefur sannað með síðustu atburðum að henni hefur gersamlega mistekist að selja öðrum aðilum vinnumarkaðarins slíkar hugmyndir – heldur líka af tvennum öðrum ástæðum. Í fyrsta lagi er búið að „ofselja“ síðasta samning og skapa þá ranghugmynd að kjör kennara sér næstum dónalega góð. Og hinsvegar vegna þess að ef einhver slík þjóðarsátt gæti orðið á næstu árum þá lyti hún að heilbrigðiskerfinu en ekki menntakerfinu (líklega réttilega að mínu mati).

Seinni leiðin. Að neyða sveitarfélög til að gera kennslu meira aðlaðandi var möguleiki. Mörg ákvæði í samningnum voru farin að kosta óheyrilegt fé. Svona eins og þegar slúbbert lendir í því að þurfa að borga fyrir lélegt viðhald á húsnæði. Sú leið er bara orðin illfær. Síðasti samningur snerist ekki um neitt annað af hálfu sveitarfélaga en að kreista meiri kennslu úr gömlu kennurunum sem geta ekki hætt vegna eftirlauna. Það var leiðréttingin.

Allt hefur þetta meira og minna blasað við. Það hefur ekki þurft neina spámenn. Sjálfur hef ég skrifað um megnið af þessu ótal sinnum áður og í mörg ár. Ég vona að formaður KÍ lesi það sem skrifað er um skólamál líka þegar að hnitast ekki um hann. Það eina sem hefur ekki blasað við eru innri átakalínurnar í SALEK-hópnum. Það að formaðurinn hafi orðið steinhissa á afstöðu hópsins nú þegar höfrungahlaupið er hafið getur bara þýtt tvennt: Annaðhvort hefur forystan hvorki hlustað né hugsað allan þann tíma sem hópurinn hefur starfað eða hún hefur tekið sénsinn og vonað að áhættan myndi borga sig.

Sem hún gerði ekki. Allt fór á allra versta veg – og því var í örvæntingu (sama dag og SALEK-ramminn var birtur) skrifuð yfirlýsing um að kennarar væru fúlir. Þeir mega líka vera það. Það hefur verið mynduð þjóðarsátt um að þeir haldi áfram að hafa lág laun. 

Allt fyrir augunum á forystu sem sá ekki neitt og fattaði ekki neitt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni