Viðbrögð án ofbeldis eru alltaf valkostur
Hugtakið friður er viðamikið og felur í sér tilfinningar og dyggðir. Friður er mennska sem borgarar rækta með sér. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða skyndiákvörðun heldur margskonar starfsemi sem lýtur sama markmiði: að rækta líf, særa engan og virða aðra.
Friður er seinvirkur en eflir kærleika.
Hatur eða kærleikur
Í völundarhúsi mannssálarinnar er margt að finna, þar er hatur, öfund, hroki og illska en þar er einnig samlíðun, samkennd, samúð og kærleikur. Allt þetta er hægt rækta eða vanrækja, efla, styrkja eða draga úr og dempa.
Vert er að minnast þess að viðbrögð Norðmanna við hryðjuverkunum í Osló og fjöldamorðunum í Útey voru lofsverð og til eftirbreytni. Norðmenn sendu þau skilaboð til heimsins að svarið við illvirkjum væri meira lýðræði, gagnsæi og mannúð og að svarið við hatri væri kærleikur. Ótta og illsku var vísað á bug. Þetta voru sjaldséð viðbrögð í anda þeirra sem vinna að friði, jafnrétti og opnu samfélagi fyrir alla.
Stríð gegn hryðjuverkum (War on Terror) virðist ekki bjóða upp á kærleika. Það stríð er reist á því lífseiga lögmáli að svara í sömu mynt: auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Gjalda líku líkt og hefna helst margfalt. Þessi aðferð elur hatur í brjóstum, hatri sem getur varað um kynslóðir.
Tvær aðferðir til að bregðast við
Raunsæisfólk og bjartsýnisfólk hefur alla tíð skipst á skoðunum um hvaða viðbrögðum eigi að beita gegn ógn, hvort fylla eigi vopnabúrin, hræða andstæðinginn og fæla hann burt, drepa hann, eða hvort fremur eigi að sýna friðsemd og fá alla til að taka þátt í því að skapa friðarmenningu í stríðshrjáðum löndum. Hvort stilla megi til friðar án þess að beita ofbeldi.
Það er fljótlegra að refsa, eyða og deyða heldur en rækta tilfinningar og efla dyggðir, heldur en að ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, kúgun, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi.
Stríð er fljótlegra en veldur hatri.
Almenningur líður ávallt þjáningar vegna ofbeldisviðbragða. Munum að viðbrögð án ofbeldis eru alltaf valkostur sem þarf að rannsaka og undirbúa. Friðsemd og viska eru vænlegri til að uppræta þá þætti sem valda deilum og átökum. Veitum aðhald, bendum á aðra kosti en stríð.
Athugasemdir