Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Listin og heimspekin glíma veruleika og drauma

Listin og heimspekin glíma veruleika og drauma

Ég missi áhugann um leið og ég skil hlutinn, ég hef mestan áhuga á efni áður en það kemst í endanlegt form. Heimkynni mín eru á milli veraldarinnar og ímyndunaraflsins. Í þeim heimi sem ég skapa er guð, ég trúi á hann þar, en ekki í raunveruleikanum,“ sagði Nick Cave tónlistarmaður í kvikmyndinni 20,000 Days on Earth (2014)

Af öllu sem ekki býr við vísindalega sannaða tilvist hefur hugmyndin guð eða æðri veru sem starfar óháð mannlegum vilja, ef til vill haft mest áhrif í mannkynssögunni. Hugtakið guð merkir oftast æðstu veru sem hægt er að ímynda sér, slík vera er tilbeðin í flestöllum trúarbrögðum mannkyns og hefur ýmsa eiginleika, vald og sálargáfur.

Listamenn í tón-, rit- og myndlist hafa gjarnan gert tilraunir til að túlka eða tjá hugmyndina um guð og æðri verur. Sú list snýst ekki nauðsynlega um tilvist eða magnaða eiginleika heldur um tjáningu á tilfinningum og hugmyndum listamannsins á uppljómun sinni. 

Áhrifarík list setur ekki skilyrði heldur opnar fyrir nýja og oft óvænta túlkun. Slík list getur vissulega þótt óþægileg og valdið verulegum usla, sérstaklega ef hún er á skjön við hefðina. Hún er ögrandi og kannski sönn.

„Ég varð að segja satt og ganga alla leið,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður sem hefur gert helgimyndir af ólíkum toga. Nefna má dæmi um tvær helgimyndir hennar af konu, en helgimynd er heiti yfir myndir með trúarlegu inntaki. 

Önnur myndin sýnir móður sem heldur á barni að hætti Maríu guðsmóður. Hin myndin sýnir nakta konu í gylltu umhverfi með geislabaug, lafandi brjóst og opna rós eða sköp sem er tákn innra lífs og leyndardóma tilverunnar. 

Myndirnar báðar vekja hugrenningartengsl við æðri veruleika óháð því hvort hann sé til eða ekki. Hugmyndin er að  minnsta kosti til og heimspekin og listin glíma við hana í heimkynnum sínum sem eru á milli veraldarinnar og ímyndunaraflsins.

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður mun ræða um myndina af guði á heimspekikaffi í Gerðubergi hjá Gunnar Hersveini miðvikudaginn 21. október kl. 20:00 út frá nokkrum sjónarhornum. Þar heldur pælingin áfram.

Heimspekikaffi Lífsgildin

Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni