Lengri leiðin heim er betri
Það er ekkert að óttast, það er ekkert að óttast vegna margbreytilegra trúar- og lífsskoðana, þær snúast um anda og efni, guði og raunsæi, heimspeki og siðfræði. Það er ekkert að óttast því við virðum allar skoðanir sem standa með lífinu, frelsinu og samkennd fyrir fólki. Það eina sem við þurfum að gera er að horfast í augu, tala saman og skiptast á skoðunum.
Það sem við óttumst og virðum alls ekki, er kúgun og ofbeldi, ofríki, ofstæki, ofmetnaður og ofsi sem leiðir til eyðileggingar og dauða.
Gera þarf skýran greinarmun annars vegar á lífsskoðunum einstaklinga sem leita að svörum við knýjandi tilvistarspurningum og hins vegar hreyfinga sem vilja öðlast stöðu og völd í samfélaginu út á sannleikann. Sá sem leitar efast og það er gott því hann er opinn og gagnrýninn. En sá sem efast ekki leitar ekki og það er slæmt því hann fer í vörn og byggir varnarmúr sem skapar átök.
Í sömu svifum og einhver er þvingaður til að vera og gera eitthvað sem hann vill ekki og í sömu andrá og einhver setur sjálfan sig á hærri sess en aðra er hætta á ferðum. Ávallt ber að vera á varðbergi gagnvart allri tilhneigingu til að hneppa aðra í ánauð haturs eða heimsku.
Engin ástæða er að óttast hvert annað, ólíka hætti fólks, smekk í daglegu lífi, klæðaburð, húðlit, fæðingarstað eða neitt annað sem oft er notað til að skilja fólk að. Enginn vandi er að umbera hvert annað, fólk fer létt með það. Það er enginn vandi fyrir almenning víða um veröld að eiga vinsamleg samskipti. Það sem allir þurfa að óttast eru hreyfingar og leiðtogar sem hrærast í átakamenningu og bregðast við ógn með grimmi-, heimsku-, og lymskulegum refsingum, hefnd.
Það eina sem þarf er að tileinka sér friðarmenningu til að ná fallegum markmiðum án þess að traðka á öðrum. Seinvirk aðferð friðarins knýr fólk til sátta á veginum en átök krefjast skyndilausna sem í raun er aðeins vopnahlé. Óttast ber yfirgang og átakamenningu og rækta skal vinsamleg samskipti. Almenningur stundar friðsamleg samskipti sín á milli en of margar þjóðir lúta leiðtogum sem stunda átakamenningu.
Mikilvægast er læra er að greina á milli þeirra sem hrærast í átakamenningu og þeirra sem lifa í friðarmenningu. Láta ekki glepjast af hörkunni, stytta sér ekki leið, heldur velja iðulega lengri leiðina heim, hún er farsæl. Verið ekki hrædd, aðferðin tekur tíma og krefst þolinmæði en hún varir lengur.
Ef enginn mætir í stríðið fer það ekki fram, það er staðreynd.
Athugasemdir