Hvers vegna skrifa rithöfundar?
Rithöfundurinn og heimspekingurinn Platón (427 f.o.t) í Grikklandi hinu forna gerði Sókrates að lykilpersónu í vestrænni hugsun. Hvers vegna skrifaði Platón og gaf okkur mynd af Sókratesi?
Í fyrstu verkunum skrifaði hann í anda Sókratesar en í síðustu verkunum var Sókrates málpípa hans. Platón dýrkaði ekki Sókrates og lét hann stundum fara hallloka í samræðum. Karakterinn Sókrates er mannlegur í bókunum og auðmjúkur gagnvart þekkingu og sannleika, þykist ekki vita svörin og kenndi þá list að spyrja spurninga enda kallaður ljósmóðir viskunnar.
Platón telfdi Sókratesi fram í baráttunni við mælskulistina, þar sem greinarmunur á réttu og röngu var þurrkaður út. Platón miðlaði efni sínu með samtölum í texta og hann skapaði karaktera. Hann skrifaði m.a. til að móta siðferðileg hugtök og næstu heimsmynd. Hann varð að skrifa því hann var þátttakandi í ummyndun tíðarandans.
Skriftir eru gjöf til lesandans
Rithöfundar gætu eflaust aldrei komið sér saman um svar við spurningunni hvers vegna þeir skrifi. Hver og einn þarf að svara fyrir sig og síðar gæti félagsvísindamaður flokkað svörin og lesið úr þeim til að komast að því sem ekki var vitað. Það er hægt að greina hvað rithöfundar skrifa, skipa efninu í greinar, það má átta sig á hvernig þeir skrifa, hvaða aðferð er beitt við skrifin en við verðum að spyrja þá sjálfa hvers vegna þeir skrifa.
Eftir að ég fór að lesa og skrifa af krafti þá vaknaði með mér undrun yfir því að heimurinn væri ekki eins og aðrir héldu fram að hann væri. Ég gat líka breytt heiminum með hugsun, orðum og skrifum, lagt fram aðra veröld en oftast var sögð og haldið að manni. Ég gat séð fegurðina og fyllst löngun til að sýna öðrum inn í leyndardóminn. Án lesenda var þetta þó vonlaust. Að þessu leyti er það rétt: að skriftir eru gjöf til lesandans.
Að skrifa sig inn í leyndardóminn
ZHI BU ZHi í kínverskri heimspeki merkir að vita það sem ekki er vitað, það er leyndardómurinn - og þörfin hjá rithöfundi er að skrifa sig inn í hann. Þekking er áunnin en skilningur er innsæi. Ég bý yfir þekkingu en veit fátt, það er innsæið, þörfin og áhuginn sem knýr mig áfram. Verkefnið er að skrifa mig í áttina að áfangastað, stundum má engan tíma missa, því stundaglasið gæti tæmst áður en hugljómun verður, áður en skáldagyðjan opnar dyrnar. Rithöfundurinn stígur inn og vill bera hið hulda út í birtuna til að sýna öðrum - eitthvað sem enginn hefur séð áður. Það er gjöfin.
Leyndardómurinn verður þó alltaf hulinn og aðeins orðspor hans hefur borist okkur til eyrna en listagyðjurnar níu auk Saffó frá Lesbos geta lýst upp leiðina. Verkefnið alla daga er að ganga veginn jafnvel þótt augljóst sé að enginn komist alla leið, ekki fremur en steinn Sisyfusar gæti nokkurn tíma numið staðar á toppi fjallsins. Ef til vill hefur ljósbrot af leyndardóminum vitjað einhvers í draumi og vakið þrá til að skrifa sig út úr völundarhúsi skipulagsins.
Eitt er víst, að rithöfundurinn þarf alltaf hjálp frá lesandanum, án hans reikar hann um í myrkri. Skriftirnar eru gjöf til lesandans því höfundurinn skrifar ekki fyrir sjálfan sig.
Heimspekikaffi: Hvers vegna skrifa rithöfundar?
Margir hafa glímt við spurninguna Hvers vegna skrifa rithöfundar? í gegnum tíðina en þrátt fyrir það er það alltaf áskorun að gera tilraun til að svara henni. Skriftir eru frjáls athöfn sem við Sigurlín Bjarney Gísladóttir ljóðskáld höfum skrifað um núna í nóvember. Við munum flytja hugleiðingar okkar um efnið í heimspekikaffi í Gerðubergi 20. nóvember kl. 20 og gefa gestum kost á að leggja til svör. Það er ókeypis á þennan viðburð og allir velkomnir, jafnt lesendur sem rithöfundar.
Tenglar
Hvers vegna skrifa rithöfundar - 20. nóvember
Athugasemdir