Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Gildi útiveru fyrir börn

Gildi útiveru fyrir börn

Hvaða máli skiptir náttúran í hversdagslífi barna? Eflir útivera seiglu barna? Getur verið að tæknivæðingin dragi úr hreyfingu barna og reynslu af náttúrunni? Miðvikudaginn 19. september kl. 20 ætlum við Sabína Steinunn Halldórsdóttir íþrótta- og heilsufræðingur að fjalla um grunngildi fyrir börn, m.a um náttúruást, gildi útiveru á skynþroska barna og lífsgæði til frambúðar. Einnig munum við ræða áhrif tækninnar og hugtakið náttúruónæmi bera á góma.  

Náttúruást

Verkefnið okkar er að rækta sambandið við náttúruna og lífið á jörðinni í heild. Við erum ekki aðeins íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig háð staðnum sem við stöndum á, landslagi, golfstraumnum og náttúrunni allri. Gildin felast í lifandi sambandi mannverunnar við náttúruna og þeim er ætlað að efla með okkur virðingu og kærleika gagnvart henni. Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu.

Náttúruást eflist við góða og mikla útiveru sem styrkir einstaklinga og veitir þeim tækifæri til að takast á við verkefnin þar og leysa á hugvitssaman hátt. Ekki aðeins litir, líf og fjölbreytni náttúrunnar eru gefandi heldur einnig gagnkvæmt sambandið.

Náttúrufirring

Að firra einhvern getur merkt að svipta hann einhverju. Einvera getur svipt fólki samveru og vináttu. Of mikil innivera og tæknivinna innandyra getur leitt til firringar gagnvart náttúrunni. Að vera firrtur er að hafa tapað einhverju mikilvægu samband. Að missa sambandið við náttúruna, kraft hennar, lögmál og fegurð er að vera firrtur. Það getur skapað vandamál en oft verja borgarbúar 90% sólarhringsins innandyra. 

„Okkar síbreytilega náttúra er mikilvæg fyrir þroska barna því hún örvar skilningarvit og hreyfiþroska barna ásamt því að næra hug og hjarta og auka almenna vellíðan.“ skrifar dr. Lára G. Sigurðardóttir og minnir á spakmælið „Vinnan getur beðið meðan þú sýnir barni regnbogann, en regnboginn bíður ekki meðan þú klárar vinnuna.“ (https://utipukar.is/)

Horfðu á barnið, hvettu það áfram og vertu ávallt tilbúin með ný og ögrandi verkefni til þrautalausna. Hlustaðu á þankagang barnsins og vertu þátttakandi í ferðalaginu,

segir Sabína Steinunn sem verður með mér á heimspekikaffinu í Gerðubergi. Í bók sinni Færni til framtíðar bendir hún á margt sem nota má í útiumhverfi barna til að efla þroskann. Nú er haust og því upplagt að huga að laufblöðunum. Hún skrifar:

„Laufblöð eru skemmtilegur efniviður til að örva hreyfifærni. Þau eru bundin við haustið og því er skammur tími sem hægt er að nýta þau. Laufblöðin er hægt að nota eins og drulluna til að mynda ýmis konar form og línur til að hoppa yfir, í kringum og halda jafnvægi eftir. Eins er hægt að mynda mynstur með laufblöðum og kasta steinum inn í þau. Gefa þá t.d. hverju mynstri ákveðin stig eftir því hversu stór þau eru. Laufblöðunum má þyrla upp í loftið og reyna að tæma ákveðið svæði á þann máta og þjálfa upp þol. Eins er mjög gaman að hlaupa í gegnum mikið af laufblöðum og finna þau þyrlast upp undir fótunum.“ 

Gaman væri að hitta foreldra, kennara og aðra sem starfa með börnum og hafa áhuga á útivist og reynslu af náttúruhugljómun - í Gerðubergi 19. september kl. 20 á heimspekikaffi. 

Facebookviðburður

Borgarbókasafnið upplýsingar 

Förum út að leika!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni