Friðsemd sprettur af hugrekki
Friðarsinni er sú og sá sem skilur að ofbeldi er ævinlega og alltaf röng aðferð og beitir því aðeins heillavænlegum aðferðum til að leysa ágreining. Friðarsinni dregur sig ekki í hlé heldur stígur fram og mótmælir óréttlæti.
Friðsemd er ekki byggð á ótta, hugleysi eða hugarórum. Hún sprettur af hugrekki, hugsjón og virðingu fyrir lífinu. Hún verður til með því að læra að mótmæla án ofbeldis.
Friðsemd er gildi sem nauðsynlegt er að tileinka sér: að læra og rækta. Hún er regla sem tengir borgarana saman en ef hún er brotin geta áratugir liðið í óbærilegri ógleði. Starf friðsemdarinnar snýst um að koma í veg fyrir að hefnd og hatur breiðist út um samfélagið og flytjist á milli kynslóða.
Friðsemd felur í sér umburðarlyndi og von. Miskunnsemi er ljósið sem lýsir. Sú og sá sem vill verða friðsemdarmaður þarf að tileinka sér líferni án ofbeldis og kúgunar, hreinsa sig af eitrinu.
Hún og hann finna til samkenndar með öðrum og rétta hjálparhönd með því að berjast gegn misskiptingu og misrétti. Þau verja mannleg gæði og mótmæla hreyfingum sem byggja á fyrirlitningu gagnvart fólki og náttúru.
Jafnvel tungumálið er mengað með karllægu myndmáli úr hernaði: að vera í fremstu víglínu, vera dugleg(ur) eins og herforingi, berjast til síðasta blóðdropa, slá herskildi um eitthvað, dauður er höfuðlaus her, seint er að herklæðast þegar á hólminn er komið, það er ekki góður stríðsmaður sem engin hefur sár.
Ofbeldi er vítahringur dauðans. Ofbeldi nærist á gremju, hefnd, græðgi, lygi, blekkingu, heimsku og virðingarleysi. Ofbeldi og heimska eru vonlaust par sem valda engu nema sundrungu. Friðsemd og viska eru vænlegri félagar sem uppræta þá þætti sem valda deilum og átökum. Þau grafa ekki aðeins stríðsöxina heldur sá og rækta jörðina.
Það er líf eftir stríð en það dregur ekki úr ofríki fyrr en reynslu kynjanna af ofbeldi verður jafngild. En tíðkast hefur að útiloka heimakonur frá ákvörðunum um endurreisn samfélaga. Verkefnið er að byggja aftur upp einstaklinga, fjölskyldur, samfélög og þjóðir eftir stríð og ofbeldi. Það verkefni þarf að vera á höndum beggja kynja – þá heppnast það. Allir þurfa að taka þátt, ekki aðeins karlar í einkaþotum.
Friðsemd snýst um aga og taumhald á sjálfum sér og að vera sein/n til vandræða. Hún opinberast jafnframt í samlíðun, hjálpsemi, umhyggju og vinsemd. Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug/ur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju að eigin gæðum til af svo megi verða.
Hafna ber öllu ofbeldi og málflutningi fyrir ofbeldi, hvaða dulum sem hann klæðist - en um þessar mundir eru 70 ár liðin frá kjarnorkuárásunum og hryðjuverkunum í Japan og 30 ár frá fyrstu kertafleytingunni hér á landi svo glæpurinn gleymist ekki.
Aldrei aftur Hiroshima og Nagasaki!
Samtök Friðarhreyfinga standa fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasaki á suðvesturbakka Tjarnarinnar og kertum fleytt kl. 22:30, fimmtudaginn 6. ágúst. Kertafleyting í þágu friðar verður við Minjasafnstjörnina á Akureyriá sama tíma.
Ljósmynd/Heiðdís Guðbjörg
Athugasemdir