Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Dr. Martin Luther King Jr. af öllu hjarta

Dr. Martin Luther King Jr. af öllu hjarta

Hjarta er ekki aðeins líffæri heldur jafnframt hugtak sem táknar tilfinningar og einnig viðhorf, hvatir og jafnvel leyndar og stundum trénaðar hugsanir. Hugtakið er mikið notað í bókmenntum, trúarbragðafræðum og daglegu tali. Hjarta í þessari merkingu getur verið opið eða lokað.

Lokað hjarta tekur ekki við og er oft steinrunnið. Slík hjörtu hafna nýjum upplýsingum og vilja helst engu breyta. Þau vilja bíða og fresta og vona að allt lagist af sjálfu sér. Góðvildin lokast inni og dagar svo uppi engum til gagns.

Leggja ber hart hjarta í bleyti til að mýkja það.

Dr. Martin Luther King Jr., sem var myrtur 4. apríl 1968, áttaði sig á áhrifum þessa hjartalags í samfélaginu sem hann vildi breyta. Hann sat, vegna mannréttindabaráttu sinnar, í fangelsi í Birmingham Alabama á páskum árið áður, og skrifaði:

„Undanfarin ár hafa hvítir hófsamir menn valdið mér vonbrigðum, ég hef næstum komist að þeirri sorglegu niðurstöðu að aðalhindrun svartra fyrir frelsi er ekki White Citizens’ Council eða félagar í Ku Klux Klanner heldur hvíti hófsami maðurinn sem hefur meiri áhyggjur af reglum en réttlæti, sem tekur neikvæðan frið, sem er fjarvera spennu, fram yfir jákvæðan frið sem þýðir nærvera réttlætis. Hvítir hófsamir menn segja linnulaust: Ég er sammála þér í þeim markmiðum sem þú sækist eftir en ég get ekki verið sammála þér í þeim aðferðum sem þú beitir."*

Hjörtu, þeirra sem óttast að brjóta reglu til að leyfa réttlætinu fram að ganga, eru harðlokuð. „Yfirborðskenndur skilningur velviljaðs fólks er gremjulegri en algjör misskilningur fólks sem gengur illt til. Hálfvolg viðurkenning er meira ruglandi en afdráttarlaus höfnun,“ skrifaði MLK sem brann í hjartanu.

Bíðið þýðir nánast alltaf: aldrei. (MLK)

Lokuð hjörtu eru hálfvolg í afstöðu. Lunderni eigenda þeirra er ævinlega í biðstöðu, hjörtun ekki brennandi heldur volg, hvorki heit né köld. Andspænis réttlæti brjóta hin hálfvolgu ekki regluna, sem þau settu sjálf, heldur finnst þeim betra að skýla sér á bak við hana, jafnvel þótt afleiðingin valdi óréttlæti og þjáningu, eins og til dæmis þegar börn flóttafólks fá ekki að njóta vafans – vegna reglunnar.  

Marteinn Luther King Jr. opnaði hjarta sitt og jós af brennandi hugsjón. Hann jós úr hjarta sínu eins og vatni úr brunni og gaf fólki að drekka. Hjartað var galopið og hann lauk upp huga þeirra sem hlustuðu og þau sáu óréttlætið sem var látið viðgangast með samþykki velviljaða (þögla) meirihlutans. 

MLK er ekki aðeins hugrökk fyrirmynd í baráttunni gegn kynþáttahatri og jöfnum kjörum allra borgarar heldur einnig í baráttunni gegn stríðsrekstri. Aðferðin er skilyrðislaus friðarmenning - án ofbeldis. Það er enginn ástæða til að hika eða bíða, það er alltaf rétta stundin til að gera rétt.  

Minnust MLK, opnum hjörtun og ausum úr þeim ef við höfum eitthvað að gefa. Næg eru verkefnin. 

*Þýðing á MLK: Ég á mér draum, Rás 1, páskadag 2018

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni