Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Alþjóðadagur hamingjunnar 20. mars

Alþjóðadagur hamingjunnar 20. mars

Alþjóðadagur hamingjunnar á vegum Sameinuðu þjóðanna er í dag, 20. mars og eru viðburðir víða um heim í tilefni dagsins. Markmiðið er að skapa hamingjustundir. Í Reykjavík er a.m.k. einn viðburður í tilefni dagsins. Að yrkja hamingjuna. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Embætti landlæknis hafa tekið höndum saman um að fagna deginum í Hannesarholti kl. 16 með ljóðum, tónlist og hugvekjum um mikilvægi hamingjunnar í daglegu lífi . Dagskráin er öllum opin og enginn aðgangseyrir. Hún fer fram á kaffihúsinu og stendur í um klukkustund. 

Þakklæti og hamingja

Eitt af því sem er nátengt hamingjunni en ekki nógu oft nefnt er þakklæti, því folk öðlast ekki hamingju aðeins með því að fá eitthvað frá öðrum heldur einnig með því að gefa til baka og þakka. 

Því miður hafa ekki allir lært dyggðina að þakka. Sumum finnst svo eðlilegt, að hafa það sem þeir búa við og að þiggja frá öðrum, að það hvarflar ekki að þeim að þakka. Þeir finna ekki þakklætis og færa ekki öðrum þakkir fyrir góðviljann. Hætta er á að þetta viðhorf, þessi hugsunarháttur leiði til þess að athugasemd heimspekingsins Schopenhauers eigi við um yfirsjón þeirra: „Við komum ekki auga á það besta í lífinu, heilsuna, fyrr en við erum orðin heilsulaus, æskuna fyrr en á gamals aldri og frelsið fyrr en í ánauð.“ Betra er að átta sig á gjöfunum á meðan þær vara og þakka fyrir áður en það er of seint.

Hamingjan er háð þakklætinu, því sá sem kann að þakka fyrir það sem hann hefur, fyrir það sem aðrir gefa honum og fyrir lánsemi sína í lífinu, er líklegur til að skynja gæfu sína. En ef þeir geta ekki veitt öðrum hamingju þá verður líf þeirra sjálfra snauðara því fáir hugsa til þeirra.

"Vertu hamingjusöm persóna með því að gera aðra hamingjusama," sagði Voltaire.

Þakklæti er lykilþáttur í leitinni að hamingju. Þakklæti er tilfinning fyrir lánsemi og hlutdeild annarra í henni.

Megi dagurinn geyma hamingjustund!

Facebook: Viðburður í Hannesarholti kl. 16 

Alþjóðadagur SÞ um hamingjuna

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni