Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Að vera börnum hjálparhella

Að vera börnum hjálparhella

Vinsemd er sú dyggð og hjartahlýja sem helst er talin geta dregið úr kvölinni og aukið styrk gleðinnar í þessum guðsvolaða heimi. Vinsemdin býr yfir mörgu af því fallegasta sem getur prýtt manneskjuna.

Hjálpsemi er eitt af því sem vinsemd felur í sér. Hún er alls staðar mikils metin og hvarvetna eru gerðar tilraunir til að kenna hana og festa í sessi. Jafnt veraldleg siðfræði sem forn trúarbrögð brýna hjálpsemi fyrir öllum í samfélaginu.

Fátækir, landlausir, ríkisfangslausir, eignalausir, landaflótta og varnarlaus börn eru iðulega efst á blaði hjálpseminnar. Berskjölduð börn biðja ásjár og margir vilja hjálpa en við erum með stofnun, lög og reglur, sem kemur í veg fyrir alla vinsemd og hjálpsemi og sendir allslaus börn þangað sem þau vilja ekki fara.

Zainab Safari, barn frá Afganistan er dæmi um það. Hún hefur talað, lýst skoðunum sínum og tilfinningum, ólíkt öðrum 300 börnum sem vísað hefur verið burt frá Íslandi frá árinu 2013, oft til Grikklands. Hún vill alls ekki fara til Grikklands heldur vera hér áfram og gera eitthvað gott fyrir samfélagið. Hún gæti kannski kennt einhverjum að koma vel fram við aðra og um gildi þess að rétta hjálparhönd.

Hjálparhella og hjálparhönd

Vert er að rifja upp orðasambandið: að vera hjálparhella einhvers. Í Gyðingdómi og Kristni er það mikið notað í bænum til guðs sem þráfaldlega er beðin/n um að vera þessi hjálparhella: Þú ert hjálpari minn, þú ert verndari minn og skjöldur heilsu minnar, hlífðarbjarg, öryggt vígi, bjargfesting, hellubjarg, athvarf, hæli, verndarhlíf.

Það er augljóst að trúaðir bjuggu í óöruggum heimi og þráðu öruggt skjól. Hvernig átti óskin að rætast samkvæmt þessari gömlu speki? Svarið var mjög einfalt þótt of margir væru blindir á það og það stóð í þessari sömu bók: útrétt þína hönd fátækum, gef þeim fátæka eftir þínum föngum, gjör þínum vin til góða – svo þín blessun verði fullkomin.

Svarið var vinsemd og er enn. Allt snýst þetta um vinsemd, jafnt trúaðra sem trúlausra. Bæði gamlar bækur og nútíma siðfræðirit segja það sama: sýnum fátækum, landflótta börnum vinsemd, hlustum á þau og ekki valda þeim frekari kvölum, líf þeirra er nógu erfitt samt.

Tengill 

Viðtal Stundarinnar við Zainab

MYND: DAVÍÐ ÞÓR

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu