Ráðist á þinghúsið - í Moskvu
Skrílslætin og djöfulgangurinn í stuðningsmönnum Donald Trump, þegar þeir réðust til inngöngu í þinghús Bandaríkjanna, þann 6.janúar síðastliðinn gefur tilefni til þess að líta í baksýnisspegilinn.
Það hefur nefnilega verið ráðist á fleiri þinghús gegnum tíðina og í þessari grein verður sagt frá atburðum sem áttu sér stað í Moskvu, höfuðborg Rússlands, haustdögum 1993. Það hús er kallað ,,Hvíta húsið".
Þá voru tæplega tvö ár liðin frá því að annað mesta heimsveldi tuttugustu aldarinnar, Sovétríkin, sem samanstóðu af 15 lýðveldum, molnuðu í sundur, en því ferli lauk endanlega 25.desember 1991, eftir tæplega 70 ára tilveru. Upplausn þeirra fór að mestu leyti friðsamlega fram, nema í Vilníus, Litháen, í janúar 1991, þegar þetta litla ríki lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum.
Skriðdrekar gegn Litháum
Michail Gorbachev (fæddur 1931), þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, greip til gamalkunnugs ráðs Rússa og sendi skriðdreka og brynvarin farartæki gegn almenningi. Sömu aðferð var beitt í Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968, til að brjóta frelsisþrá landanna á bak aftur. Allt létust 15 Litháar í þessum átökum í Vilnius þessa janúardaga 1991. En Rússar drógu sig síðan til baka. Ísland varð síðan fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði landsins að nýju, þann 4.febrúar 1991.
Að lokinni valdaránstilraun harðlínumanna í Moskvu í ágúst 1991, sem rann út í sandinn, molnaði smám saman undan Gorbachev. Honum var ekki bolað frá, en allur vindur var farinn úr honum sem leiðtoga og var hann í raun úr leik eftir þetta.
Fram á sjónarsviðið var kominn Boris nokkur Jeltsín (1931 – 2007), sem var kjörinn forseti Rússlands, eftir að Sovétríkin voru endanlega leyst upp í desember 1991. Sviðið var nú hans.
Gríðarleg átök um stefnu og aðgerðir
Við tóku hinsvegar gríðarleg samfélagsátök, sem kannski blikna að mörgu leyti í samanburði við það sem er í gangi í Bandaríkjunum núna. Almennt efnhagsástand í Rússlandi (og fyrrum 14 lýðveldum þess) varð enn verra en það hafði verið og lækkaði meðalaldur Rússa um nokkur ár á þessu tímabili. Til að mynda var efnahagssamdrátturinn tæp 15% árið 1992.
Gríðarleg átök urðu á milli fylgismenna Jeltsín og andstæðinga hans, m.a. gamla Kommúnistaflokksins. En völd Jeltsín urðu sífellt meiri og hann stjórnaði sífellt meira með forsetatilskipunum (,,dekret“).
Þessi átök náðu hámarki í dagana 21.september til 4.október árið 1993 þegar til mikilla átaka kom á milli Jeltsín og andstæðinga hans á rússneska þingi, þar sem Rúslan Kasbúlatov og Alexander Rutskoi, varaforseti, voru í aðalhlutverki. Hann hafði snúist gegn forseta sínum.
Deilurnar snerust að mestu leyti um hvernig skyldi bregðast við hörmulegu efnahagsástandi landsins, efnahagurinn var í frjálsu falli, en einnig var um að ræða mikla valdabaráttu á milli einstaklinga og á milli forsetans og þingsins. Þann 21.september leysti Jeltsín þingið upp og boðaði til nýrra kosninga.
Þingmenn lokuðu sig inni í Hvíta húsinu, sem þá var aðsetur þingsins, sem ennþá var kallað ,,æðsta ráðið“ (Supreme Soviet) og héldu þar eldfimar ræður gegn forsetanum. Nú kallast rússneska þingið ,,Dúma.“
Jeltsín kallar á skriðdrekana
Að lokum fékk Jeltsín nóg og skipaði hernum þann 4.október að ráðast á þinghúsið til að fjarlægja (svæla út) þá þingmenn sem þar höfðu lokað sig inni. Skriðdrekar og brynvarin farartæki umkringdu þinghúsið og létu sprengikúlunum rigna. Jeltsín hafði ráðist á eigið þing.
Segja má að Moskva hafi logað á þessum tíma og barist var á götum borgarinnar, þar sem stuðningsmönnum og andstæðingum forsetans laust saman og glímdu einnig við öryggissveitir.
Þegar skriðdrekar Jeltsíns höfðu lokið sér af og eldar loguðu í Hvíta húsinu í Moskvu, týndust þingmenn út, enda ekki vært í húsinu, húsið brann ill. Jeltsín hafði brotið alla andstöðu gegn sér á bak aftur, með hervaldi.
Í heildina létust um 150 manns í þessum átökum, samkvæmt opinberum tölum, en mun hærri tölur hafa verið nefndar, allt að 2000. Í kjölfarið var svo samþykkt ný stjórnarskrá með miklum völdum forsetans. Þess nýtur Vladimír Pútín nú.
Árið eftir braust svo út stríð í Téténíu, í S-Rússlandi, sem stóð út valdatíma Jeltsíns, út árið 1999 og kostaði tæplega 6000 rússneska hermenn lífið, en mun fleiri íbúa Téténíu. Krafa þeirra var sjálfstæði. Reyndar kom svo til annars stríð á valdatíma Pútíns, sem stóð til 2009, en þá var búið að ,,friðþægja“ Téténíu að mati yfirvalda.
Efnahagur Rússlands hélt áfram að að vera mjög slæmur en tók að skána um og eftir 2000, þegar Pútín komst til valda.
Samsett mynd: Boris Jeltsín og Hvíta húsið í Moskvu eftir meðferð hans á því.
Athugasemdir