Svolítið um umbótahreyfingar og framtíðarsýn
Meðlimir hinna ýmsu umbótahreyfinga hafa undanfarna áratugi spurt sig: Af hverju gengur okkur svona illa að ná árangri? Oftast er fátt um svör. Sjaldnast er þó rætt um hvernig umbótahreyfingar nútímans hafa ekki sameiginlega framtíðarsýn um hvernig megi leysa margvíslegan vanda okkar tíma — jafnvel þótt slíkri framtíðarsýn megi púsla saman, og öll púslin séu bæði þekkt og aðgengileg. Sama fólk spyr sig reyndar oft af hverju umbótahreyfingarnar eyði svona mikilli orku í að rífast innbyrðis, sem veikir hreyfingarnar sem ættu þó þess í stað að reyna að hjálpa hvor annarri, enda sammála um ýmislegt — svarið við því á líklega eitthvað skylt við skort á framtíðarsýn.
Alvarlegustu vandamál samtímans eru: Í fyrsta lagi ójöfnuður, sem gerir minna efnuðu fólki mun erfiðar fyrir með að lifa, dregur úr trausti í samfélaginu og lífsgæðum, ýtir undir líkamleg vandamál (offitu og háan blóðþrýsting, t.d.). Í öðru lagi, loftslagsbreytingar, sem þegar eru byrjaðar að hafa mikil áhrif á líf fólks (t.d. með skógareldum og þurrkatíð). Í þriðja lagi stöðugt meira álag á óendurnýjanlegar auðlindir jarðar, sem munu verða uppurnar ef ekkert verður að gert, með miklum afleiðingum fyrir mannkyn. Í fjórða lagi, veikt og sífellt veikara lýðræði
Að auka jöfnuð, stöðva loftslagsbreytingar, gera mannkynið sjálfbærara og styrkja lýðræðið — þetta ættu íslenskar umbótahreyfingar að geta sameinast um, enda koma þessi vandamál okkur við: Við búum á jörðinni. Til þessa þarf framtíðarsýn.
Fyrst þó þetta: Fólk úr ólíkum stjórnmálahreyfingum, sem þó deilir vissum meginstefum, t.d. um jöfnuð, þarf beinlínis að grafa stríðsöxina og hugsa um hitt umbótafólkið sem jafnoka sína og bandamenn, jafnvel þótt það sé ósammála um einhver misstór atriði eða hafi einhverntíma deilt um eitthvað á netinu. Með stríðöxina grafna má taka til óspilltra málanna: Fólk úr ólíkum hópum getur myndað framtíðarsýn sem það er sammála um, framtíðarsýn sem það deilir, framtíðarsýn sem það útvarpar. Þetta ólíka fólk, sem er í ólíkum stjórnmálaflokkum, getur auðvitað átt sín tilbrigði við framtíðarsýnina og getur áfram búið við ólíkt skipulag sinna flokka, enda sjálfsagt: Það þarf ekki að sameinast til að ná árangri, en það þarf sameiginlega framtíðarsýn og halda stríðsöxinni í jörðinni.
Með þessu á ég við að forðast að efna til ítrekaðra átaka sem veikja hreyfingarnar, og á endanum ganga að þeim dauðum. Fólk getur verið ósammála og ætti að vera það ef það eru góð rök til, en það skiptir máli hvernig gagnrýni er komið á framfæri og oftast má hún vera á vinalegu nótunum — ekki öll gagnrýni þarf að vera opinber, heldur. Ítrekuð, hörð, opinber átök grafa undan trausti.
Eina hugmynd að stefi stærri framtíðarsýnar má þó benda á strax. Á Íslandi er mikið af fólki sem vill vinna minna, en getur það ekki — launin fyrir fulla vinnu hrökkva varla fyrir nauðsynjum, hvað þá ef það ákveður að minnka starfshlutfallið sitt og tekur á sig launaskerðingu þess vegna. Margir geta heldur ekki valið starfshlutfall! Stefið er: Gerum fólki kleift að velja sitt eigið starfshlutfall, aukum samtímis efnahagslegan jöfnuð, og þannig getur fólk valið að fá lægri laun, neyta minna og vinna skemmri vinnudag. Hvetjum fólk samtímis til að neyta minna. Þannig, þökk sé minni neyslu og auknum frítíma fólks, þá drögum við úr nýtingu auðlinda, losum minna af gróðurhúsalofttegundum og lífsgæði fólks aukast.
Þetta er eitt stef af mörgum sem þarf. Umbótahreyfingarnar verða að mynda stefin.
Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, býður umbótahreyfingum aðstoð við mótun framtíðarsýnar.
Athugasemdir