Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Vinnuvikan á Íslandi og málflutningur Viðskiptaráðs: Vafasamur málflutningur rýndur

Ígær birtust nokkrar fréttir um að vinnuvikan á Íslandi gæti í raun verið skemmri en talið hefur verið hingað til (sjá hér, hér og hér), jafnvel að hún sé ein sú stysta í Evrópu. Er í þessu sambandi vísað til fréttatilkynningar Hagstofu Íslands frá því fyrr á árinu, þar sem er lýst nýjum tölum frá stofnuninni um vinnustundir og framleiðni. Í fréttum gærdagsins er meðal annars dregin sú ályktun að Ísland sé ekki lengur birt í gagnabanka OECD um vinnutíma, vegna þess að Hagstofan sé að endurskoða sínar tölur og aðferðir, jafnvel þótt merki þessa sé ekki að finna í sjálfum gagnabankanum.

Þessar fréttir eiga sér rætur í málflutningi hagfræðings sem starfar hjá Viðskiptaráði Íslands, eins helsta hagsmunagæsluaðila í íslensku samfélagi og á íslenskum vinnumarkaði – fyrr og síðar. Ýmsir fjölmiðlar gripu í gær málflutning hagfræðingsins, Konráðs S. Guðjónssonar, á lofti og birtu sem staðreyndir, án gagnrýni, og án þess að ræða við Hagstofu Íslands um áreiðanleika gagnanna. Þó er full ástæða til að véfengja áreiðanleika gagnanna, sem og málflutning hagfræðingsins.

Svolítið um gögnin

Hingað til hafa gagnabankar um vinnustundir gefið til kynna að meðalfjöldi vinnustunda á hvern vinnandi mann á Íslandi sé um 1883 stundir á ári, en nýju gögnin gefa til kynna að fjöldinn gæti verið um 1487 stundir. Þarna munar um 396 stundum, sem jafngildir um átta stundum á hverja vinnuviku (miðað við fjögurra vikna sumarfrí), sem er umtalsvert.

Hagstofan segir sjálf í fréttatilkynningu sinni, að mismunurinn á fjölda vinnustunda gæti skýrst af ýmsum þáttum, meðal annars þessum hér:

„Jafnframt gæti umfang ólaunaðrar vinnu eða svartrar starfsemi skýrt mismuninn að hluta, en svör þeirra sem spurðir eru með beinum hætti í vinnumarkaðsrannsókninni taka einnig til vinnuframlags vegna slíkrar starfsemi. Aðferðafræði við útreikning nýju talnanna tekur hinsvegar ekki á svartri starfsemi eða ólaunaðri vinnu enn sem komið er þó svo að þjóðhagsreikningastaðlar geri ráð fyrir slíku.“

Áreiðanleiki þessara gagna er þannig á engan hátt hafinn yfir vafa, því gögnin ná ekki til svartrar atvinnustarfsemi né til ólaunaðrar vinnu. Það er vel þekkt að á Íslandi er mikil ólaunuð yfirvinna unnin, meðal annars af fólki sem er á föstum launum, en slíkt er algengt í ýmiss konar sérfræðistöðum, störfum í heilbrigðiskerfinu og á fleiri sviðum hagkerfisins. Svört atvinnustarfsemi er líka vandamál, sem ekki er búið að útrýma á íslenskum vinnumarkaði. Í ofanálag, þá byggja þessar nýju tölur á upplýsingum sem koma frá íslenskum fyrirtækjum, og það er vel þekkt að fyrirtæki hérlendis eru oft ekki skilvís á gögn til opinberra stofnana.

Það má því segja að gögnin hafi veigamikla vankanta sem ber að taka alvarlega, ekki síst vegna þess að sjálf Hagstofa Íslands leggur áherslu á þessa vankanta.

Hagfræðingurinn, samhengið og túlkun

Þetta er þó ekki allt, því í fréttunum er haft fyrir því að setja töluna, 1487 stundir, í mjög vafasamt samhengi: Hún er borin saman við gögn OECD, sem eru með öllu ósambærileg, því þau taka einmitt til yfirvinnu, greiddrar sem ógreiddrar, svartrar atvinnustarfsemi, aukinheldur sem þau eru aðallega unnin úr því sem launþegar segja sjálfir (sjá hér). Þetta er því eins og að bera saman epli og appelsínur.

Þetta gerði hagfræðingurinn í fyrstu, og fjölmiðlar höfðu síðan eftir, þrátt fyrir að öllum hafi mátt vera ljóst, einnig fjölmiðlafólki, að gögnin eru algerlega ósambærileg. Hefði samanburðurinn átt að ganga upp, þá hefði þurft að bera töluna saman við önnur sambærileg gögn – ekki ósambærileg!

Það má því segja að málflutningurinn sé nánast sjálfdauður, þegar málið er skoðað nánar.

Þetta upphlaup allt hefði líklegast ekki orðið að veruleika, hefðu vankantar gagnanna verið teknir alvarlega, hefði verið haft samráð við Hagstofu Íslands um gerð fréttanna og rætt við félagsvísindafólk. Það færi betur á því, að slíkt yrði gert næst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu