Stytting vinnutíma: Lífskjarabót fyrir almenning
Eftirfarandi skjal var undirbúið fyrir kjararáðstefnu Starfsgreinasambandsins sem haldin var á dögunum. Tilgangurinn með þessu skjali er að vekja athygli á einni leið til að stytta vinnudaginn á Íslandi og reyna að vekja upp samstarf meðal stéttarfélaga í landinu um styttingu vinnudags.
Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, leggur til við fundargesti að þeir beiti fyrir sér í komandi kjarasamningum við atvinnurekendur um styttingu vinnudagsins. Alda leggur til að í komandi samningum verði lögð áhersla á þrenns konar aðgerðir, sem verði farið í samtímis: Stytta vinnudaginn, hækka grunnlaun og fækka yfirvinnustundum, en slíkt myndi kalla fram breytingar á vinnufyrirkomulagi og aukningu á framleiðni. Nánari rök fylgja að neðan.
Brýnt vandamál sem íslensku samfélagi ber að leysa er langur vinnutími, en hann skerðir lífsgæði okkar. Ljóst er að margir byggja lífsafkomu sína á yfirvinnu - sem auðvitað er ein rót langs vinnutíma - en koma þarf til móts við þá sem eru í þessari stöðu þegar vinnutíminn er skertur. Önnur rót er að framleiðni á Íslandi er lélegri en t.d. á Norðurlöndunum þar sem heildartekjur (af grunnlaunum auk yfirvinnu) eru svipaðar. Ofan á þetta allt leggst að mjög margir vilja nýta tíma sinn öðruvísi, t.d. eyða meiri tíma með vinum og fjölskyldu.
-
Meðal Norðurlanda sker Ísland sig úr í fjölda vinnustunda. Árið 2010 vann meðalmaðurinn á Íslandi um 38 vinnudögum lengur en meðalmaður í Noregi, 14 dögum lengur en í Svíþjóð, 23 dögum lengur en í Danmörku, og einum degi lengur en í Finnlandi. Taka verður tillit til þess að árið 2010 hafði vinnustundum á Íslandi fækkað vegna takmarkana á yfirvinnu og annarra slíkra aðgerða. Þess má vænta að vinnustundir leiti í sama horf þegar þessum takmörkunum er aflétt.1 Þess ber að geta að vinnutíminn hjá okkur hefur nánast ekkert styst síðustu þrjátíu ár,2 og að með sama áframhaldi myndum við ná þeim fjölda vinnustunda sem fólk í Svíþjóð vinnur á um það bil öld.3
-
Legið hefur ljóst fyrir í langan tíma að vinnudagurinn á Íslandi er of langur og að hann hefur skaðleg áhrif á lífsgæði. Í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum kom í ljós að hérlendis var mest kvartað yfir því að vinnan truflaði heimilislíf. Þessi rannsókn náði til Norðurlandanna, fjölmargra landa í Evrópu og einnig fjarlægari landa eins og Japans og Ástralíu. Engin sérstök ástæða er til að ætla að þetta hafi breyst mikið þar sem vinnandi fólk vinnur lítið skemur nú en fyrir hrun.4
-
Í nýlegri skýrslu frá Hagstofu Evrópusambandsins voru tekjur, vinnutími og fleira skoðað meðal aðildarríkja Evrópusambandsins, en auk þess voru með Ísland, Noregur, Sviss, Króatía, Makedónía og Tyrkland. Viðmiðunarár rannsóknarinnar var 2010.5 Rannsóknin leiddi í ljós að yfirvinna var hvergi meiri hlutfallslega en á Íslandi í þessum löndum; á Íslandi var yfirvinnan um 8% greiddra stunda. Heildarlaun skv. rannsókninni voru svipuð og á hinum Norðurlöndunum, en lægri.
-
Framleiðni á Íslandi er í lakara lagi samanborið við hin Norðurlöndin.6 Árið 2010 var framleiðni á Íslandi 88% af framleiðni Finnlands, 84% af framleiðni Danmerkur, 55% af framleiðni Noregs og 80% af framleiðni Svíþjóðar. Stór hluti af ástæðunnar er trúlega að langar vinnustundir draga úr framleiðni yfir lengri tíma (þreyta byggist upp), en auk þess er líklegt að lélegt skipulag hrjái íslenskan vinnumarkað.7
-
Í sömu rannsókn og nefnd var í lið 2) kom einnig í ljós að um 42% fólks vildi vinna minna. Þá kom einnig í ljós að margir gátu alls ekki unnið minna, ýmist af fjárhagslegum ástæðum eða vegna ósveigjanlegra vinnustaða. Enn fremur kom í ljós að margir vildu verja meiri tíma með vinum (65%) og fjölskyldu (66%), en þeir gerðu. 8
-
Rannsóknir hafa sýnt að við styttingu vinnutíma breytist vinnufyrirkomulag, sem verður til þess að auka framleiðni. Með aukningu í framleiðni mætti vinna upp styttinguna, þannig að ekki þyrftu laun að lækka.9 Auk þess væri hægt að bæta grunnlaunin vegna aukinnar framleiðni. Aukin framleiðni er talin koma til af því að fólk verður ekki jafn þreytt á löngum vinnudegi, vegna þess að allt vinnuskipulag er yfirfarið í kjölfar styttingar (menn neyðast til þess), en auk þess sé starfsandi betri.
Alda telur að launþegahreyfingin í landinu þurfi að setja styttingu vinnutímans meðal forgangsatriða í næstu kjarasamningum. Í sömu samningum verði reynt af öllum mætti að hækka grunnlaun, svo þeir hópar sem neyðast til að vinna yfirvinnu í dag þurfi þess ekki lengur.
Til þess að þetta gangi upp þarf að hugsa um langan vinnutíma, lélega framleiðni, léleg grunnlaun og yfirvinnu sem nátengd fyrirbæri. Samningarnir þyrftu að setja hömlur á víxlverkun þessara fyrirbæra og þyrftu að ráðast að þeim öllum samtímis.
Í Þýskalandi á 9. áratug síðustu aldar voru gerðir samningar sem verkuðu á laun, vinnutíma og framleiðni. Reynslan af því var góð, vinnutíminn styttist og framleiðni jókst.10 Við á Íslandi ættum að geta gert eitthvað álíka, en við þurfum þá að leggjast í átak til þess.
1 Sjá nánar í bæklingi frá Öldu sem er aðgengilegur hér: http://alda.is/?p=1603
2 Sjá bækling Öldu um styttingu vinnutíma.
3 Þ.e.a.s., ef vinnutíminn styttist ekkert frekar í Svíþjóð. Sjá nánar hér: http://alda.is/?p=2042
4 Sjá bækling Öldu um styttingu vinnutíma.
5 Hagstofa Íslands hefur birt úrdrátt úr skýrslunni þar sem Ísland er sérstaklega til skoðunar. Úrdráttinn má finna hér: www.hagstofa.is/lisalib/getfiletrack.aspx?ItemID=14624
6 Miðað er við framleiðni á hverri unninni vinnustund. Gögnin eru fengin úr Total Economy Database. Sjá hér: http://www.conference-board.org/data/economydatabase/
7 Sjá bækling Öldu um styttingu vinnutíma.
8 Sjá bækling Öldu um styttingu vinnutíma.
10 Bosch, G. og Lehndorff, S. (2001). Working-time reduction and employment: Experiences in Europe and economic policy recommendations. Cambridge Journal of Economics, 25, 209-243.
***
Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is
Athugasemdir