Skemmri vinnutími hluti nýrrar þjóðarsáttar?
Hluti hátíðarhalda gærdagsins voru ræður, að vanda. Í að minnsta kosti einni þessar var rætt um að efna til nýrrar þjóðarsáttar, en að þjóðarsátt sú ætti að hverfast um stöðugleika í hagkerfinu og aukinn kaupmátt.
Aukinn kaupmáttur er nauðsynlegur fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins, um það verður ekki deilt. Hins vegar ber að íhuga mjög alvarlega hvort launahækkanir séu gott og rétt skref fyrir ýmsa aðra hópa í samfélaginu.
Staðreyndin er sú að lífskjör á Íslandi eru að jafnaði með miklum ágætum, lífskjör hér á landi eru mjög mikil í samanburði við önnur samfélög. Má þar nefna til dæmis lífskjaravísitölu Sameinuðu Þjóðanna, þar sem Ísland er ár eftir ár í toppsætunum. Í grófum dráttum þýðir það að lífskjör okkar, sem samfélags, séu með þeim bestu í heimi þegar kemur að tekjum, lífslíkum, menntun og almennum aðbúnaði – við erum efnað samfélag. Þetta þýðir þó ekki að allir í samfélaginu hafi sömu tækifæri til þessara lífskjara, þeim er misskipt.
Rannsóknir hafa sýnt að aukin lífsgæði í efnuðum samfélögum, fást ekki með því að auka tekjur almennt. Hins vegar er full ástæða til að bæta lífskjör, t.d. varðandi frítíma og fjölskyldulíf. Rannsóknir sýna nefnilega að á Íslandi er vinnutími langur og að hann truflar heimilislíf mjög mikið.
Í nýrri þjóðarsátt er því nauðsynlegt að huga að öðrum úrræðum til að auka lífsgæði, en bara að auka tekjur. Verkalýðshreyfingin þarf að huga að aðferðum eins og til dæmis styttingu vinnutíma, sem myndi hafa bein áhrif á lífsgæði vinnandi fólks. Stytting vinnutíma er gamalkunnugt viðfangefni stéttarfélaganna, enda er það þeim að þakka að vinnutíminn er þó ekki lengri en hann er í dag. Hins vegar hefur stéttarfélögunum ekki tekist að stytta vinnutímann undanfarna þrjá áratugi (sjá mynd), þótt einhver þeirra hafi reynt, og hefur þar mögulega vantað upp á samtakamáttinn.
Mörg dæmi eru til um styttingu vinnutíma hér á landi, frá ýmsum tímabilum tuttugustu aldar. Hér skulu nefnd þrjú: Árið 1909 styttist vinnuvika prentara um eina stund, án þess að laun lækkuðu. Árið 1956 fengu prentarar 44 stunda vinnuviku í apríl, maí og september (48 stundir voru venjan þá), en jafnframt launahækkun. Árin 1966 til 1972 fór vinnuvika prentara í 40 stundir allt árið um kring, án þess að laun þeirra lækkuðu – raunar hækkuðu þau sum árin.
Stytting vinnutíma er bæði nauðsynleg og gagnleg aðgerð, öllu vinnandi fólki til heilla.
***
Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is
Athugasemdir