Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Semjum um styttingu vinnuvikunnar, ellegar setjum lög

Semjum um styttingu vinnuvikunnar, ellegar setjum lög

Um þessar mundir er samið um kaup og kjör á Íslandi. Fjölmargir kjarasamningar eru lausir og nú er reynt að ná sáttum um efni og innihald þeirra, enn fleiri losna á næstunni. Ein af mikilvægustu kröfum stéttarfélaganna er að vinnuvikan verði stytt. Ætti sú krafa að vera ein af þeim sem hagsmunasamtök atvinnurekenda ættu að geta fallist á, en ef ekki, þá verður Alþingi að sinna skyldum sínum gagnvart almenningi í landinu og breyta lögum til að gera skemmri vinnuviku að veruleika. Það er ekki seinna að vænna að farið sé í aðgerðir í þessum efnum.

Af hverju skemmri vinnuvika?

Krafan um styttingu vinnuvikunnar fer hátt um þessar mundir, sem er eðlilegt, enda er vinnuvikan á Íslandi lengri en í þeim löndum sem við miðum okkur helst við — lönd þar sem íbúarnir búa að öðru leyti við sams konar lífskjör og gengur og gerist á Íslandi. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Vikulegar vinnustundir fólks í fullu starfi á Norðurlöndunum. Teiknað eftir gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.1 

En það er enn frekari ástæða til að krefjast skemmri vinnuviku, því starfsævin hér á Íslandi er lengri en í þessum sömu viðmiðunarríkjum (og raunar Evrópusambandinu einnig) — sjá myndina að neðan.2 Þá vinnum við óvenju mikla vaktavinnu miðað við sömu ríki.3 Við eigum líka met í atvinnuþátttöku innan OECD.4 Við erum svo að segja að drukkna í vinnu.

Árafjöldi sem vinnandi fólk má búast við að vera á vinnumarkaði á Norðurlöndunum og í Evrópusambandinu, byggt á tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.2

Á sama tíma og þessar staðreyndir blasa við er augljóst að ekki er allt með felldu í okkar samfélagi: Streita er að verða meira og meira áberandi vandamál, en æ fleiri leita sér nú hjálpar vegna streitu, auk þess sem kulnun er vandi sem sækir á um þessar mundir. Fólk sækir meiri og meiri aðstoðar í sjóði vegna kununar og streitu.5 Þá kemur Ísland illa út í alþjóðlegum samanburði OECD hvað varðar jafnvægi vinnu og einkalífs — vegna vinnu.6 Það er kominn tími á að við tengjum: Við erum samfélag sem vinnur of mikið, þar sem er of mikil streita, og fólk nær ekki að finna jafnvægi milli vinnu og annarra lífsins athafna.

Við þurfum að draga úr vinnu — það er engin önnur leið til að bæta úr ástandinu.

Skemmri vinnuvika er möguleg

Stytting vinnuvikunnar á Íslandi er vel möguleg, en krefst vissrar útsjónarsemi og þolinmæði að innleiða.

Full ástæða er til bjartsýni, því tilraunir BSRB og ríkisins með styttingu vinnuvikunnar hafa gengið mjög vel, en tilraunirnar felast í því að styttingin hefur verið framkvæmd á mörgum ólíkum vinnustöðum þar sem margs konar starfsemi er stunduð.7 Í samfélagsumræðunni hefur kannski farið hæst að styttingin hafi verið gerð á skrifstofum (sem er rétt), en orðið útundan að styttingin hafi einnig farið fram á leikskólum, verkbækistöðvum, hverfisstöðvum, hjá heimaþjónustu og á lögreglustöð.

Þetta hefur blessast og gengið upp, þótt ekki hafi breytingin verið áreynslulaus allsstaðar, en breyta hefur þurft hinu og þessu á þeim vinnustöðum þar sem styttingin hefur verið innleidd. Á einhverjum leikskólum, sem dæmi, hefur sú leið verið farin að hliðra til hvenær börnin fara í síðdegiskaffi; í staðinn fyrir að að öll börnin fari á sama tíma fara þau í kaffi yfir lengri tíma, færri í einu, en þetta krefst minni mönnunar. Einnig hefur verið brugðið til þess ráðs að leyfa starfsfólkinu að fara úr vinnu fyrr í lok dags, enda eru þá börnin tekin að hverfa heim á leið, og þörfin fyrir mönnun minnkar samhliða.8 Á stöðum þar sem vaktavinna er unnin hefur vaktakerfum verið breytt, þannig að á tímapunktum þar sem minni þörf er fyrir mönnun fer fólk af vöktunum. Vaktirnar hafa s.s. verið styttar.

Þessi upptalning gefur hugmynd um hvernig styttingin hefur verið innleidd, og ætti að veita vísbendingu um hvernig innleiðingin gæti gengið fyrir sig á öðrum vinnustöðum í okkar landi.

Í iðnfyrirtækjum þarf að haga málunum öðruvísi, en margt bendir til að þar séu sóknarfæri sem felast í innleiðingu nýrrar tækni, breyttum framleiðsluháttum, og að hugsa framleiðsluna út frá öðrum forsendum. Ég talaði nú nýverið við mann sem vinnur fyrir fyrirtæki þar sem er stunduð færibandaframleiðsla á varningi, en um er að ræða matvælaframleiðslu. Sá sagði mér að í þessu tiltekna fyrirtæki væri átta tíma vinnudagur viðhafður, en klukkutími til tveir á hverjum degi færu í bið eftir að framleiðslulínan næði fullri virkni í upphafi dags og keyrði sig niður í lok dags, og yfir þessu þyrftu starfsmennirnir að hanga á hverjum virkum degi. Þarna mætti vel breyta framleiðslulínunni þannig að hún væri sneggri að ná fullum afköstum og keyra sig niður, en með þessu mætti framleiða jafn mikið á skemmri tíma og vinnudagurinn væri styttur jafnframt. Í mörgum fyrirtækjum eru eflaust sóknarfæri eins og þessi, þau má nýta, öllum til hagsbóta. Nákvæm útfærsla er án efa misjöfn eftir fyrirtækjum og iðngreinum.

Í sumum tilfellum er stytting vinnuvikunnar ekki möguleg vegna manneklu, og er það þá sjálfstætt vandamál sem þarf að leysa fyrst. Það ætti að vera sjálfsagt mannúðarmál að auka mönnun á vinnustöðum þar sem er mannekla, og stytta vinnuvikuna í kjölfarið, enda á enginn að vera að sligast undan vinnuálagi, allra síst í jafn ríku og tæknivæddu samfélagi og okkar.

Skemmri vinnuvika og tæknin

Það er augljóst hverjum sem það vill sjá að Ísland er ekki einungis ríkt,9 heldur er það jafnframt mjög tæknivætt. Við búum yfir ýmiss konar sjálfvirkni sem hjálpar okkur við að vinna verkin, við t.d. notumst mikið við sjálfvirkar greiðslumiðlanir, þannig að seðlar skipta nú um hendur mun sjaldnar en var, með tilheyrandi vinnusparnaði. Einnig reiðum við okkur á mikla sjálfvirkni í sjávarútvegi, þannig að mun færri þarf t.d. við að fletja fisk en var fyrir hálfri öld. Má ætla gróflega að ein fiskflatningsvél leysi af hólmi 30-40 handfletjara.10 Mun minna þarf að bera út af pósti nú á dögum, sökum þess að flest berst orðið rafrænt fyrir tilstilli sjálfvirkra kerfa. Svona mætti lengi telja.

Það er augljóst að tæknibreytingar og sjálfvirkni eiga að gera okkur kleift að draga úr vinnu, en gera það ekki — vinnuvikan hér á landi er ámóta löng og hún var um 1980;11 lítið hefur þokast í átt til styttingar hennar, en tæknin er gjörbreytt frá sem þá var. Úr þessu þarf að bæta og myndu samningar um skemmri vinnuviku vera til mikilla bóta.

Ef kjarasamningar bregðast, setjum þá lög

Á Íslandi er rík menning fyrir því að nauðsynlega verði að semja um skemmri vinnuviku í kjarasamningum, jafnvel þótt lítið hafi þokast í átt að styttingu vinnuvikunnar undanfarin ár og áratugi, en afar hæpið hljóti að teljast að setja lög um skemmri vinnuviku. Það sem stjórnar þessari menningu er einhver óljós hugmynd um að vinnustundir séu samningsatriði, en þessi hugmynd er nú orðin að heilögu sakramenti, hvort sem er innan Alþingis eða hagsmunafélaga atvinnurekenda. Hin nýja forysta stéttarfélaganna er þó sem betur fer annarrar skoðunar.

Í þessu samhengi er rétt að minna á annan þátt vinnunnar sem hefur gjörbreyst undanfarna áratugi. Á Íslandi ríkti um áratugaskeið stefnuleysi í vinnuvernd, bæði skorti á um löggjöf og vilja til að framfylgja henni. Afleiðingin af þessu var fjöldi vinnuslysa og tíðir vinnusjúkdómar, en lítið gekk eða rak, allt þar til menningin var upprætt, lög voru sett og samið var um vissar breytingar. Á þeim tíma sem er liðinn hafa orðið gríðarlegar breytingar, og eru vinnuslys mun fátíðari nú en var fyrir um hálfri öld.12 Að sama skapi er vinnuvernd álitin mikilvægur hlekkur í starfsemi flestra fyrirtækja (undantekningarnar eru þó enn til staðar!). Af hverju ættum við ekki að gera það sama með vinnutímann: Uppræta menningu sem segir að lög um vinnustundir megi helst ekki setja, og uppræta hugarfar sem segir að margar stundir séu betri en fáar? Það er full ástæða til, enda er þörf á róttækum breytingum á okkar samfélagi hvað varðar vinnutímann, eins og kom fram hér á undan. Það er engin ástæða til að halda í langan vinnutíma, bara til þess að halda í hann — en ein leið til þess að það breytist, til að við komumst úr þeim vana sem við erum föst í, er lagasetning.

Ef atvinnurekendur vilja ekki veita fólki þann sjálfsagða rétt að vinna minna, í gegnum kjarasamninga, þá ber Alþingi að setja lög sem tryggja launafólki þennnan rétt. Raunar er frumvarp þar um reiðubúið í þinginu — það þarf bara að samþykkja það, og það má gera fyrir þinglok. Ekkert væri sjálfsagðara né eðlilegra í tæknivæddu og lýðræðislegu nútímasamfélagi sem er þjakað af ofvinnu og streitu, eins og raunin er á Íslandi.


Neðanmálsgreinar:

1. Myndin er teiknuð eftir gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, en gögnin sem liggja að baki myndinni má finna hér.

2. Strangt til tekið er um að ræða hve lenga starfsævi fólk má búast við að vinna, en byggt er á núverandi stöðu mála ásamt því að tekið er tillit til hvernig má búast við að vinnumarkaðurinn þróist. Hér er byggt á rannsókn Eurostat, sem má nálgast hér. Kolbeinn H. Stefánsson hefur einnig fjallað um lengd starfsævinnar á Íslandi, hér.

3. Hagstofa Íslands (7. desember 2017). Félagsvísar: Vaktavinna á Íslandi 2006–2016. Hagtíðindi. Reykjavík: Hagstofa Íslands. Einkum bls. 2-3. Sjá hér.

4. Með atvinnuþátttöku er átt við hlutfall fólks á aldrinum 15-64 ára sem er í vinnu eða er í atvinnuleit. Sjá gögn á vefsíðu OECD, hér.

5. Sjá umfjöllun á fréttavefnum Vísi 1. maí 2018, hér, og enn fremur fréttavef RÚV 26. júlí 2018, hér. Sjá einnig fréttavef RÚV, 14. ágúst 2018. hér.

6. OECD hefur nú í nokkur ár staðið að útgáfu árlegs hagvísis sem nefnist Better Life Index, en um er að ræða upplýsingar um grunn-lífsgæði borgaranna í þeim löndum sem tekin eru til skoðunar. Þar sem Ísland er aðili að OECD, þá eru þar tölur um Ísland. Sjá vefsíðu vísisins, hér.

7. Rétt er að taka fram að um 2.000 manns taka þátt í tilraunaverkefnunum. — Upplýsingar um árangurinn af tilraunaverkefni um skemmri vinnuviku hjá Reykjavíkurborg má finna í skýrslum hér, hér og hér. Nánari upplýsingar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg má finna hér. Þá má einnig finna upplýsingar um bæði tilraunaverkefnin á vefsíðu BSRB, hér.

8. Byggt á viðtali við varaborgarfulltrúa í nóvember 2018.

9. Samkvæmt gögnum OECD var Ísland í 7. sæti meðal OECD ríkjanna árið 2016, þegar litið var til þjóðarframleiðslu á mann. Sjá hér.

10. Byggt á viðtali við starfsmann í fiskvinnslu.

11. Sjá umsögn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, um frumvarp um 40. stunda vinnuviku, (181. mál, 149. löggjafarþing) frá 25. nóvember 2018, bls. 2. Umsögnina má finna hér.

12. Sumarliði R. Ísleifsson (2013). Saga Alþýðusambands Íslands: Til Velferðar. Reykjavík: Forlagið. Sjá einkum kaflann um kjarasamninga og vinnulöggjöf.


Mynd: Átta stunda vinnudags krafist í Melbourne, Ástralíu, 1856. Mynd af Wikipediu. Nánar hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni