Þessi færsla er meira en 10 ára gömul.

Samtök atvinnulífsins gegn betra fjölskyldulífi

Þrír þingmenn hafa lagt fram frumvarp um breytingu á eldri lögum um vinnustundir. Myndi frumvarpið ganga eftir myndi dagvinnustundum í reglulegri vinnuviku fækka úr 40 í 35. Vinnudagurinn myndi styttast um eina stund.

Skemmri vinnudagur myndi sérstaklega hjálpa fjölskyldufólki, sem á erfitt með að sinna fjölskyldunni vegna þess að það kemur of þreytt heim úr vinnu. Í rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum kom Ísland mjög illa út í samanburði við önnur lönd í Evrópu og víðar, einmitt hvað varðar þetta atriði.

Í frumvarpi þingmannanna þriggja er gert ráð fyrir að bæta megi framleiðni á Íslandi til að vega upp á móti styttingunni. Framleiðni á Íslandi er talsvert lakari en í nágrannaríkjunum og ýmsum Evrópuríkjum – og í mörgum þessara landa er unnið minna en á Íslandi. Það má sem sé væntanlega bæta framleiðnina til að geta unnið minna.

Samtök atvinnulífsins verða fúl

Þessar hugmyndir leggjast illa í framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann vill heldur lækka skatta á fyrirtækin og lækka við þau gjöldin – framleiðni eykst víst ekki við að stytta vinnutíma, að hans sögn.

Hann bætti við að vinnutími á Íslandi væri einn sá stysti í Evrópu. Framkvæmdastjórinn rökstuddi þessa fullyrðingu sína á þann veginn að ef skoðaðar væru virkar vinnustundir, og dregnir frá frídagar, „neysluhlé“ og sumarleyfi, þá væru vinnustundir á Íslandi einna fæstar í Evrópu. Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun.

Samkvæmt gögnum úr gagnagrunni The Conference Board – sem koma þaðan frá OECD – eru unnar vinnustundir á Íslandi fleiri en í flestum þróuðum Evrópuríkjum. Í þessum gögnum er reynt, eins og kostur er, að draga úr ónákvæmni sökum ólíkra mæliaðferða, sem og að samræma gögnin þannig að t.d. neysluhlé og sumarfrí skekki gögnin sem minnst. Gögnin eiga því að geta gefið góða mynd af stöðu landanna innbyrðis hvað varðar vinnustundir.

Samkvæmt gögnunum er meira unnið á Íslandi en í Noregi (munur upp á um sex stundir á viku), Danmörku (sex stundir), Svíþjóð (tveggja stunda munur), Þýskalandi (sex stunda munur), Frakklandi (fimm stunda munur), Hollandi (sjö stundir) – og svo mætti áfram telja. Athygli vekur að jafnvel í Bretlandi eru vinnustundir eilítið færri (um klukkustund). Samkvæmt gögnunum eru Ísland og Bandaríkin um það bil á pari (árið 2012 er notað til viðmiðunar hér að framan).

Samtök atvinnulífsins hafa áður gefið út að vinnustundir á Íslandi séu færri en víðast hvar í Evrópu. Í um ársgamalli frétt Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá „hagtölum“ frá Samtökum atvinnulífsins, kemur fram að vinnustundir á Íslandi samkvæmt kjarasamningum séu einna fæstar í Evrópu. Þetta virðist vera að teknu tilliti til ólíks frídagafjölda í löndunum, sem og neysluhléa. Samhljómurinn við yfirlýsingu framkvæmdastjórans frá í gær er mjög mikill; vel mögulega var hann að vitna í sömu tölur. Vandamálið er að umsamdar vinnustundir í kjarasamningum spegla ekki raunveruleikann. Raunveruleikinn speglast hins vegar eins og mögulegt er, í þeim hagtölum sem áður voru nefndar.

Samtök atvinnulífsins – gegn framleiðni?

Ein forsenda frumvarpsins er að stytting vinnudagins myndi leiða til þess að fyrirtæki myndu endurskoða vinnuskipulag – hvernig vinnan er unnin – svo hægt væri að vinna sömu verk, en á skemmri vinnudegi. Með öðrum orðum: Reynt yrði að auka framleiðni.

En þessu er framkvæmdastjórinn ósammála, styttingu vinnudagsins myndi ekki auka framleiðni, segir hann, nær væri að lækka skatta. Hann virðist ekki átta sig á – eða kýs að líta fram hjá – reynslu úr Evrópu þar sem vinnudagurinn var styttur. Á árunum milli 1970 til 2000 var samið um styttingu vinnudagsins – og í einhverjum tilfellum voru lög sett – í þó nokkrum Evrópuríkjum. Reynslan af því var almennt góð, en eitt af því sem einmitt gerðist var að stjórnendur og launþegar breyttu vinnuskipulagi, sem viðbragð við vinnutímaskerðingunni (eða yfirvofandi skerðingu). Í einhverjum tilfellum lukkaðist þetta svo vel, að atvinnurekendur högnuðust á öllu saman, þvert á spár margra.

Samtök atvinnulífsins slá hendinni varla gegn aukinni framleiðni – getur það verið?

Skemmri vinnudagur – bót fyrir fjölskyldurnar

Aðalmálið í þessari umræðu allri ætti þó að vera að bæta samfélagið okkar, til að gera fólki kleift að lifa betra lífi. Við nefnilega lifum ekki til að vinna – vinnan er til að gera okkur kleift að lifa, til að hafa í okkur og á.

Framkvæmdastjórinn lítur framhjá þessari mikilvægu staðreynd. Það er svolítið eins og hann – og fólkið sem hann vinnur fyrir – hafi engan áhuga að hugsa um tilgang og markmið vinnunnar.

En þegar á öllu er á botninn hvolft myndi stytting vinnudagsins mest gagnast fjölskyldum í landinu og auka lífsgæði þeirra með meiri og ríkari samvistum. Það er fyrir öllu.

Vitanlega hefur framkvæmdastjórinn lítinn áhuga fyrir nokkru slíku, enda eru Samtök atvinnulífsins fyrst og fremst hagsmunasamtök atvinnurekenda – þeir hafa lítinn áhuga á lífi og líðan vinnandi fólks; þeirra áhugi snýr að því að hagnast. Reynsla síðasta áratugar og áratuga ætti að kenna okkur það.

***

Nánari skýringar ásamt heimildum má finna hér.

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.