Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Einkafyrirtæki á Íslandi ættu að prófa skemmri vinnuviku

Einkafyrirtæki á Íslandi ættu að prófa skemmri vinnuviku

Fréttir berast um þessar mundir af erlendum fyrirtækjum sem hafa prófað sig áfram með skemmri vinnuviku fyrir starfsmennina sína. Fréttirnar eru í senn, af árangri fyrirtækjanna við að reka sig og af betri lífsgæðum starfsfólksins. Hér á Íslandi hefur í það minnsta eitt einkafyrirtæki tekið upp skemmri vinnuviku, með góðum árangri. Þetta ætti að vera hvati fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækja að prófa sig áfram með styttingu vinnuvikunnar, enda til mikils að vinna.

Einkafyrirtæki erlendis stytta vinnuvikuna

Fyrirtækin sem hafa reynt skemmri vinnuviku erlendis eru meðal annars Perpetual Guardian1 og IHH Nordic2, en fyrrnefnda fyrirtækið stundar fjárfestingarráðgjöf og er staðsett í Nýja-Sjálandi, á meðan hið síðarnefnda er tæknifyrirtæki í Danmörku. Í báðum tilfellum var um að ræða talsvert mikla styttingu vinnuvikunnar: Í stað fimm daga vinnuviku, er unnið fjóra daga eftir styttinguna. Og áhrifin á rekstur fyrirtækjanna hafa síður en svo verið neikvæð, því Perpetual Guardian er í fullum rekstri og gengur vel, á meðan IHH Nordic jók hagnað sinn verulega eftir að vinnuvikan var stytt, en hagnaðurinn meira en tvöfaldaðist. Í báðum tilvikum var vinnuvikan stytt úr 37 tímum í 30 tíma, án launaskerðingar.

Og starfsfólkinu gengur líka vel: Hjá Perpetual Guardian minnkaði streita starfsfólksins, jafnvægi vinnu og einkalífs stórbatnaði, og virkni á vinnustaðnum varð mun meiri. Hjá IHH Nordic jókst framleiðnin um 20% og veikindadögum fækkaði, en Perpetual Guardian hefur ekki gefið út tölur um framleiðni – kannski af því að það á illa við um þeirra atvinnugrein – en hafa þó gefið út að öllum verkum sé sinnt eins og áður.

Nú nýverið bárust fregnir af fyrirtæki í Bretlandi, Simply Business að nafni, sem hefur ákveðið að stytta vinnuvikuna úr 37,5 stundum í 30 fyrir starfsfólkið sitt, og aftur er það án launaskerðingar.3 Um 500 manns vinna fyrir fyrirtækið, en það rekur símaver. Markmiðið er að innleiða tæknilausnir til að draga úr verkum sem þarf að vinna, en leyfa starfsfólkinu að njóta ávinningsins líka.

Í öllum tilvikum fer saman löngunin til að gera betur og leyfa starfsfólkinu að njóta ágóðans, áhrifin á reksturinn eru jákvæð og skila sér svo í betri líðan, færri veikindadögum og minni streitu.

… og hér heima líka

Á Íslandi hafa líka borist tíðindi af einkafyrirtækjum sem hafa prófað sig áfram með styttingu vinnuvikunnar. Hugsmiðjan, fyrirtæki sem sérhæfir sig í veflausnum, stytti vinnuvikuna fyrir sitt starfsfólk í 30 stundir – 6 klukkustundir á dag –4 fyrir um þremur árum. Árangurinn hefur verið góður, en framleiðni hefur aukist um 23%, veikindadögum fækkað um 44% og ánægja starfsfólksins aukist til muna. Þetta var gert án þess að skerða laun.

Hjá Hugsmiðjunni hefur starfsfólkið talað um fleiri gæðastundir með fjölskyldunni, meiri tíma fyrir sjálfsnám og þróun í starfi, og meiri tíma til að hugsa um sjálft sig, sem afleiðingu af styttingu vinnuvikunnar. Aftur er hugmyndin að leyfa starfsfólkinu að njóta ágóðans af árangri fyrirtækisins í formi meiri frítíma.

Á Íslandi hafa opinberir aðilar verið einna mest áberandi í styttingu vinnuvikunnar, einna helst Reykjavíkurborg, þar sem um 2.000 manns taka nú þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar á um 100 starfsstöðum.5 Útlit er fyrir að samið verið um styttingu vinnuvikunnar hjá opinberum starfsmönnum á næstunni.6 Einnig hefur verið í gangi tilraunaverkefni hjá ríkinu um styttingu vinnuvikunnar, en það nær til nokkurra tuga starfsmanna.7 Bæði tilraunaverkefnin eru rekin í samstarfi og samráði við BSRB og hafa þau gengið ákaflega vel.

Fleiri ættu að reyna styttingu vinnuvikunnar

Tilraunir einkafyrirtækja erlendis og hér heima með styttingu vinnuvikunnar hafa þannig gefist vel, og það sama má segja um tilraunaverkefni opinberra aðila á Íslandi. Þetta ætti að vera einkafyrirtækjum hvatning til að prófa sig áfram með að stytta vinnuvikuna fyrir sitt starfsfólk. Til að átta sig á því hvernig er best að gera það er gott að leita í reynslubanka annarra, svo sem hjá Reykjavíkurborg, IHH Nordic og Hugsmiðjunni, en auðvitað þarf að byrja hjá sjálfu starfsfólkinu – það vinnur verkin og veit hvernig tímanum er varið.

Einkafyrirtæki á Íslandi ættu sem fyrst að innleiða hjá sér skemmri vinnuviku, starfsfólki sínu til góða. Fyrirtæki í tæknigeiranum og fyrirtæki sem reka fyrst og fremst skrifstofur eiga líklega auðveldast með að stytta vinnuvikuna – sbr. umfjöllunina að ofan – en eins og Reykjavíkurborg sýnir fram á með sínu framtaki er styttingin gerleg í mörgum öðrum greinum atvinnulífsins – Reykjavíkurborg stytti nefnilega vinnuvikuna hjá fólki sem vinnur ýmiss konar störf, allt frá umönnun til viðhalds umferðarmannvirkja.

Einkafyrirtæki á íslandi geta farið fram með góðu fordæmi og rutt veginn fyrir skemmri vinnuviku enn víðar í okkar samfélagi. Það er þeim og starfsfólki þeirra í hag að stytta vinnuvikuna.

 ***

1. Upplýsingar um styttinguna hjá Perpetual Guardian má finna í bæklingi sem settur var saman af fyrirtækinu og háskólasamfélaginu. Coulthard Barnes, et. al. (2019). Guidelines for an outcome-based trial – raising productivity and engagement.

2. Sjá umfjöllun á vef Informatíon, hér: https://www.information.dk/moti/2019/06/it-virksomhed-saenker-arbejdstiden-30-timer-oeger-overskuddet-233-procent – sótt þann 13. júlí 2019.

3. Sjá umfjöllun á vef The Guardian, hér: https://www.theguardian.com/money/2019/may/03/uk-call-centre-to-trial-four-day-week-for-hundreds-of-staff – sótt þann 13. júlí 2019.

4. Sjá upplýsingar á vef Hugsmiðjunnar, á http://hugsmidjan.is/6klst – sótt þann 13. júlí 2019.

5. Sjá skýrslu frá Reykjavíkurborg (júní 2019). Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. 2. áfangi. Reykjavík: Reykjavíkurborg. Sjá skýrslu á vef BSRB, hér: https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/Skyrslur_stytting_vinnuviku/lokaskyrsla_2019._lokautgafa.pdf – sótt þann 13. júlí 2019.

6. Sjá frétt á vef BSRB, hér: https://www.bsrb.is/is/frettir/frettasafn/samid-um-innagreidslu-i-endurskodadri-vidraeduaaetlun – sótt þann 13. júlí 2019.

7. Sjá vef BSRB fyrir nánari upplýsingar um styttinguna, hér: https://www.bsrb.is/is/stytting-vinnuvikunnar – sótt þann 13. júlí 2019. Einnig má finna upplýsingar í BA-ritgerð: https://skemman.is/handle/1946/31067

***

Mynd: Kauphöllin í New York einhverntíma um miðja síðustu öld, frekari upplýsingar um myndina má finna hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni