Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Röðum auknum lífsgæðum ofar landsframleiðslu og neyslu

Röðum auknum lífsgæðum ofar landsframleiðslu og neyslu

Nú undanfarið hafa heyrst ítrekaðar áhyggjuraddir af stöðu íslenska hagkerfisins, en það er trúlega að dragast saman um þessar mundir — neyslan er farin að minnka, m.a. vegna þess að ferðamönnum sem koma til landsins er tekið að fækka.1 Um þessar mundir veikist einnig gjaldmiðill landsins, krónan,2 væntanlega vegna þess að ferðamönnunum hér fækkar og þar af leiðandi streymir minna fé til landins — veikari króna getur haft þau áhrif að verðbólga fer að láta sér kræla, nema gripið verði til mótvægisaðgerða.

Þessi tíðindi vekja skiljanlega ugg, því ef fer fram sem horfir getur fólk hæglega misst vinnuna, í hundraða- eða þúsundatali, og einnig geta afborganir af lánum stökkbreyst, verði verðbólgan mikil, þökk sé verðtryggingunni. Nú þegar hafa hundruðir misst vinnuna, m.a. með falli flugfélagsins WOW fyrr á þessu ári.3

En þessar áhyggjur leiða í raun og veru fram annan, mun djúpstæðari vanda við það hvernig við hugsum um efnahagsmál: Við einblínum á efnahagslegar stærðir sem meta neyslu — hversu mikið við neytum og hversu mikið við flytjum úr landi — mun fremur en hvernig samfélaginu sjálfu gengur að reka sig, hvernig fólki líður, hvernig húsaskjól og aðbúnaður fólks er, hvernig tengsl fólks við hvort annað eru, og hvort fólk hafi yfir höfuð tíma fyrir sjálft sig og börnin sín og áhugamál. Í stjórnmálaumræðum á Íslandi trompar mælikvarðinn á neyslu — sem við köllum landsframleiðslu4 — allt annað, hvort sem það er ákall um að bæta húsnæðismarkaðinn eða bæta úr stöðu fólks sem á við félagslega erfiðleika að stríða.

Minnkandi landsframleiðsla, í okkar samfélagi og umræðuhefð, kallar á viðbrögð, strax, frá öllum aðilum — eitthvað verður að gera, án tafar: Gera verður allt sem hægt er, til að fá landsframleiðsluna til að aukast á ný, og tilgangurinn raunverulega helgar meðalið. Í okkar samfélagi hefur þannig þótt í fína lagi að drekkja stórbrotnu landi, af því að það vantaði rafmagn fyrir nýtt álver, sem átti svo að auka landsframleiðsluna okkar.5

Minnkuð landsframleiðsla og skjót viðbrögð

Ástæðan fyrir því að við einblínum svona á landsframleiðslu er sú að þegar hún minnkar, getur störfum fækkað, ójöfnuður aukist, efnahagslegt óöryggi aukist, og lífsgæði þeirra sem verða fyrir barðinu á þessu dragast saman. Þegar landsframleiðsla minnkar fjölgar gjaldþrotum, bæði fyrirtækja og einstaklinga, sem getur haft langvarandi áhrif á lífsgæði fólks.

Á nákvæmlega sama tíma og ákall á sér stað um að auka landsframleiðslu með öllum ráðum — hvort sem er í þeim samdrætti sem er í gangi núna, eða við efnahagsöngþveitið sem skapaðist 2008 — blasir við mikil og nauðsynleg þörf til að draga úr neyslu, vegna þess hve mannkynið gengur hratt á auðlindir jarðar, en líka vegna þess að athafnir mannanna auka á loftslagsbreytingar með síauknum þunga.6 Loftslagsbreytingar eru ekki bara breytingar, heldur eru þær loftslagshamfarir sem eru rétt að byrja, því slík verða áhrifin.7 Hafa þarf í huga að aukin landsframleiðsla eykur á loftslagsvandann, því nær öll efnahagsleg umsvif kalla á aukna losun gróðurhúsalofttegunda — þetta er óhjákvæmileg staðreynd eins og staðan er í dag.8 Að auka landsframleiðslu fer þannig alls ekki saman við að grípa til aðgerða gegn loftslagsbreytingum.

Á nákvæmlega sama tíma og kallað er eftir aukinni landsframleiðslu er ljóst að við stöndum okkur illa á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar jafnvægi vinnu og einkalífs,9 kulnun, stöðugan húsnæðismarkað,10 efnahagslegan jöfnuð11 og margt fleira. Aukin landsframleiðsla mun nær örugglega ekki bæta jafnvægi vinnu og einkalífs, draga úr kulnun né bæta húsnæðismarkaðinn, öllu heldur mun hún nær örugglega auka á þessi vandamál — því aukin landsframleiðsla kallar á meiri vinnu, meira húsnæði (m.a. undir ferðamenn) og meira álag í vinnunni.

Staðreyndin er sú að við erum alveg nógu rík nú þegar til að geta lifað góðu lífi, og aukning á landsframleiðslu er ekki nauðsynleg til að bæta líf okkar sem í þessu landi búum. Það er mun mikilvægara fyrir okkar samfélag að hugsa um lífsgæði en landsframleiðslu, því að skortur samfélagsins sem heildar er enginn — þó eru hópar sem búa við skort, og á þeim vanda verður að taka. Einnig verður að taka á kulnun og mikilli vinnu, því hvort tveggja er skaðlegt. En til að geta gert þetta verðum við að huga að öðrum mælikvörðum á það hvernig okkur vegnar sem samfélagi, því það eru mælikvarðarnir sem drífa áfram ákvarðanir um hvað skal gera í samfélaginu og hvernig skal gera það — ákvarðanir okkar eru teknar út frá mælikvörðum, beint og óbeint, á hinum ýmsu sviðum samfélagsins.

Það er kannski rétt að undirstrika hvað íslenskt samfélag er í raun og veru ríkt. Þannig er landsframleiðsla á Íslandi ein sú hæsta í heimi, við erum þráfaldlega í einu af efstu sætunum á heimsvísu (sjá myndina fyrir neðan).12 Þá kemur okkar samfélag mjög hátt í mælingum Sameinuðu Þjóðanna um þróun (e. Human Development Index), en þar erum við sem stendur í einum af tíu efstu sætunum (af 170 mögulegum).13 Einnig komum við vel á heildina litið á mælikvarða OECD um hagsæld (e. Better Life Index), en þar stöndum við vel á mælikvörðum eins og tekjum, öryggi, og samfélagi.14 Ísland er samfélag sem einkennist af gríðarlegum tekjum og miklum möguleikum til að lifa góðu lífi, þótt það séu raunar viss svið þar sem við komum illa út — nokkur þeirra voru nefnd hér að framan.

 

Landsframleiðsla á mann eftir aðildarríkjum OECD, 1960 til 2015.12 Líkt og sjá má er landsframleiðsla á Íslandi mjög mikil, meiri en í flestum aðildarríkjum OECD. Þau lönd sem eru með hærri landsframleiðslu en Ísland eru skattaparadísir, olíuríki, lönd sem njóta ágóðans af millifærslu hagnaðar milli landa, eða blanda alls þessa. Ísland er hins vegar ekkert af þessu.

Með þessu tali um landsframleiðslu er ekki átt við að við eigum hætta að framleiða vörur og veita þjónustu, heldur að við verðum að hætta að einblína á þennan eina mælikvarða, landsframleiðslu. Í staðinn verðum við að fara að hugsa meira um hvernig fólk hefur það, hvernig umhverfið stendur og beina aðgerðum okkar að því að laga það sem úr lagi er, fremur en að hugsa um að auka þessa einu stærð sífellt. Sem stendur gerum við þetta ekki, heldur er sem við ætlumst einhvernveginn óbeint til þess að aukin landsframleiðsla auki lífsgæði, jafnvel þótt það sé vel vitað að lítill hluti aukningarinnar rennur til vinnandi fólks, heldur rennur hún til lítils hóps fólks.15

Við þurfum að hugsa um árangur samfélagsins eftir öðrum mælikvörðum en landsframleiðslu.

Nýja-Sjáland vísar veginn: Fjárlög ákvörðuð eftir öðrum mælikvörðum

Við fáum ekki oft fréttir frá Nýja-Sjálandi hér á Íslandi, ekki hvað varðar stjórnmál eða efnahagsmál, en engu að síður átti sér stað pólítísk stefnubreyting þar nýverið sem snertir á þessu málefni, landsframleiðslu og lífsgæðum. Þannig er að nýverið voru árleg fjárlög ákvörðuð fyrir Nýja-Sjáland, en vinnan að baki þeim byggir á vissri nýlundan. Þessi nýlunda er að fjárlögin byggja á notkun fjögurra „máttarstólpa“ sem allir varða okkur mannfólkið og umhverfi okkar beint, og allar ákvarðanir um fjárútlát verða að hafa jákvæð áhrif á þessa máttarstólpa, en ekki eingöngu hafa jákvæð áhrif á landsframleiðslu og efnahagsstarfsemi.16

Þessir máttarstólpar eru eftirfarandi:

  • félagslegt umhverfi: Traust, lög og regla, tengsl milli fólks og samfélaga
  • náttúran: Gæði lands, vatns, ástand plantna, dýrategunda og náttúruauðlinda
  • mannlegir styrkleikar: Þekking, menntun, og heilsa, hvort sem er geðræn eða líkamleg
  • efnahagslegir styrkleikar: Hús, vegir, spítalar, verksmiðjur, tækjabúnaður og farartæki

Þessir máttarstólpar, í sameiningu, líta til möguleika fólks á að taka þátt í samfélaginu og hvort samfélagið virki bærilega, taka tillit til náttúrunnar og þess að við setjum álag á hana, en líta einnig til þess hvort við mannfólkið búum við nægilega þekkingu og heilsu. Einnig er tekið tillit til efnahagslegra þátta, enda eru þeir undirstaða flest þess sem við gerum í samfélaginu. Markmiðið með þessum máttarstólpum er að ákvarðanir um fjárútlát hafi bein, marktæk áhrif á fólkið sem á að njóta þeirra, fremur en eingöngu að auka landsframleiðslu sem stundum og stundum ekki eykur lífsgæði.

Í síðustu fjárlögum hafði þessi stefnubreyting Nýsjálendinga þau áhrif, að mun meira fé var veitt til geðheilbrigðismála, til félagslegra málaflokka, — meðal annars til að taka á heimilisofbeldi, sem ku vera útbreiddur vandi þar í landi —, og til að hjálpa fátækum börnum sem búa við skort, en talið er að um eitt af hverjum fjórum börnum þar í landi búi við skort þegar kemur að mat, húsnæði og upphituðu heimili.17 Þessi breyting á fjárlagagerðinni skilaði sér í því, virðist vera, að fjármunum var veitt á annan hátt og ýmislegt virðist hafa verið gert á markvissari hátt. Og það er akkúrat það sem við hér á Íslandi verðum og eigum að gera, vinna markvissar að umbótum á samfélaginu okkar.

Við þurfum mælikvarða eins og Nýja-Sjáland notar til að vísa okkur veginn í samfélagsumræðunni. Við þurfum ekki endilega að taka upp þessa mælikvarða óbreytta þaðan, en það væri hollt fyrir okkur að líta til nýrra mælikvarða sem skoða beint líðan og umhverfi fólks,18 því slíkir mælikvarðar myndu breyta umræðunni og því hvernig ákvarðanir eru teknar. Mælikvarðarnir eiga svo að breytast, eftir því sem samfélagið þróast og áherslur okkar breytast og þróast.

Landsframleiðsla var gagnlegur mælikvarði hér á árum áður þegar okkar samfélag var fátækara, en það er bara ekki fátækt lengur — við erum með ríkustu ríkjum heims. Við verðum að taka upp aðra mælikvarða sem skoða hvernig lífsgæðum okkar er háttað, því þannig getum við mótað og myndað skynsamlega stefnu í efnahagsmálum, sem svo aftur hefur bein áhrif á fólkið í landinu og lífsgæði þess. Af nægu er að taka í okkar samfélagi.


Neðanmálsgreinar:

1. Sjá t.d. umfjöllun í Morgunblaðinu, hér, hér og hjá RÚV hér.

2. Gengi krónunnar má meðal annars sjá hér — eins og sjá má hefur krónan veikst gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum Íslands undanfarið.

3. Sjá hér.

4. Nánar má lesa á Vísindavefnum um hagvöxt og landsframleiðslu.

5. Um þessa umræðuhefð og raunar mun meira til hefur verið skrifuð heil bók, Draumalandið, eftir Andra Snæ Magnason, sem kom út árið 2006.

6. Um þetta er fjallað ítarlega í þáttunum Hvað höfum við gert? sem voru sýndir nýlega á RÚV, en þættina má nálgast hér. Tim Jackson fjallar einnig ítarlega um þetta í bókinni sinni, Prosperity without growth, sem kom út árið 2009. Í bæði bókinni og þáttunum er ítarlega fjallað um hvernig aukning á landsframleiðslu, hagvöxtur, eykur á loftslagsvandann og eykur á ósjálfbærni, án þess þó að auka lífsgæði í efnuðum samfélögum.

7. Stefán Gíslason, líffræðingur og umhverfisstjórnunarfræðingur, færir rök fyrir notkun þessa hugtaks í þessum pistli hér.

8. Hér má benda aftur á bók Tim Jackson Prosperity without growth.

9. Sjá t.d. yfirlit OECD Better Life Index um þetta hér. Sjá einnig þennan pistil hér varðandi vinnuna í stærra samhengi.

10. Sjá t.d. þessa umfjöllun hér hjá Íbúðalánasjóði.

11. Um ójöfnuð á Íslandi er fjallað ítarlega í hinu mikla riti Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi, sem kom út árið 2017.

12. Upplýsingar um stöðu Íslands hvað landsframleiðslu varðar má finna hjá OECD, hér, en þaðan er myndin fengin.

13. Þróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna heldur úti mælingum og reglulegum úttektum á stöðu ríkja á hinum svonefnda Human Development Index, en hér má finna nýjustu úttekt á stöðu mála.

14.OECD heldur úti hinum svonefnda OECD Better Life Index, en nýjustu tölur um frammistöðu Íslands má finna hér.

15. Þórður Snær Júlíusson fjallar um hvernig aukningu á landsframleiðslu var skipt árið 2016, í pistli á Kjarnanum, hér, en það ár er ekkert einsdæmi. Misskipting á Íslandi hefur farið vaxandi undanfarin ár.

16. Umfjöllun um þessa „máttarstólpa“ má finna hér. Þá má finna umfjöllun um notkun þeirra í fjárlagagerðinni sjálfri og hvað það þýddi fyrir hana hér og hér.

17. Sjá hér.

18. Yfirlit yfir ólíka mælikvarða, kosti þeirra og galla má finna hér.


Myndin, efst: Málverkið Un Patron or The lesson of the Apprentice eftir Jean-Eugène Buland, máluð 1888. Stærri útgáfu má nálgast hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Lífsgildin
1
Blogg

Lífsgildin

Til­finn­inga­mál fyr­ir lang­reyð­ar

Um­ræða um af­líf­un hvala í land­helgi Ís­lands fór fram í Viku­lok­un­um á Rás 1, laug­ar­dag­inn 13. maí 2023. Þar voru rædd­ar slá­andi nið­ur­stöð­ur í skýrslu Mat­væla­stofn­un­ar um með­ferð á lang­reyð­um, hvort rétt­læt­an­legt væri að veiða hvali með þeim hætti sem gert er. Vel­ferð þeirra er aug­ljós­lega fórn­að fyr­ir óljósa hags­muni en dauða­stríð­ið er oft veru­lega lang­vinnt og sárs­auka­fullt....

Nýtt efni

Fernur eiga ekki framhaldslíf en hvað með sambandið mitt?
Alma Mjöll Ólafsdóttir
Pistill

Alma Mjöll Ólafsdóttir

Fern­ur eiga ekki fram­halds­líf en hvað með sam­band­ið mitt?

Í eld­hús­inu safn­ast upp haug­ur af fern­um sem þarf að skola, flokka og setja í end­ur­vinnslutunnu, sem er oft­ar en ekki yf­ir­full, svo fern­urn­ar halda áfram að hlað­ast upp.
Gjörningaveisla í afmæli Kling & Bang
GagnrýniKling & Bang gjörningaveisla

Gjörn­inga­veisla í af­mæli Kling & Bang

Lista­manna­rekna galle­rí­ið Kling & Bang fagn­aði tutt­ugu ára starfsaf­mæli seint í síð­asta mán­uði og list­fræð­ing­ur­inn Mar­grét Elísa­bet Ólafs­dótt­ir fjall­ar hér um gjörn­inga­veislu í til­efni þess.
Skatturinn samþykktur: Eigandi Arnarlax mótmælir
FréttirLaxeldi

Skatt­ur­inn sam­þykkt­ur: Eig­andi Arn­ar­lax mót­mæl­ir

Norska lax­eld­is­fyr­ir­tæk­ið Salm­ar er ósátt við aukna skatt­lagn­ingu á grein­ina í Nor­egi. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur sagt að skatt­lagn­ing­in dragi úr mögu­leik­um á fjár­fest­ing­um í Nor­egi en geti auk­ið þær á Ís­landi.
„Ekkert að því að laun þingmanna hækki eins og annarra“
Fréttir

„Ekk­ert að því að laun þing­manna hækki eins og annarra“

Þing­menn segja að þeir eigi líkt og aðr­ir rétt á launa­hækk­un­um, en hækk­an­ir fram und­an séu óþarf­lega há­ar.
Dæmi um að rithöfundar fái 11 krónur fyrir streymi
Greining

Dæmi um að rit­höf­und­ar fái 11 krón­ur fyr­ir streymi

Breytt­ar neyslu­venj­ur les­enda hafa áhrif á við­kvæmt vist­kerfi bóka­út­gáfu á Ís­landi. Inn­koma Stor­ytel á mark­að­inn fyr­ir fimm ár­um hef­ur haft sitt að segja en marg­ir rit­höf­und­ar gagn­rýna tekjumód­el fyr­ir­tæk­is­ins og segja það hlunn­fara höf­unda. Á sama tíma hafa end­ur­greiðsl­ur til út­gef­anda haft áhrif og formað­ur RSÍ tel­ur að hún mætti gagn­ast höf­und­um bet­ur.
Að selja stolin reiðhjól er uppgripavinna
Skýring

Að selja stol­in reið­hjól er upp­gripa­vinna

Á síð­asta ári var til­kynnt um tugi þús­unda stol­inna reið­hjóla í Dan­mörku. Lög­regl­an tel­ur að raun­veru­leg tala stol­inna hjóla sé þó marg­falt hærri. Þjóf­arn­ir sækj­ast í aukn­um mæli eft­ir dýr­ari hjól­um, sem auð­velt er að selja og hafa af því góð­ar tekj­ur.
Garðrækt í safni í súld
Gagnrýni

Garð­rækt í safni í súld

Doktor Gunni rýn­ir í tvær plöt­ur ís­lenskra tón­list­ar­kvenna: How To Start a Garden með Nönnu og Muse­um með JF­DR.
Beinadalur
Hlaðvarp

Beinadal­ur

Níu þátta hlað­varps­serí­an Bo­ne valley, eða Beinadal­ur, fer með hlust­end­ur í rann­sókn­ar­leið­ang­ur í gegn­um mýr­ar og dómsali Flórída­rík­is í leit að sann­leik­an­um og rétt­læti fyr­ir Leo Schofield, sem var rang­lega dæmd­ur í lífs­tíð­ar­fang­elsi fyr­ir að hafa átt að bana eig­in­konu sinni, Michelle, ár­ið 1987.
Kærir Gísla til héraðssaksóknara og lætur kyrrsetja eignir
Fréttir

Kær­ir Gísla til hér­aðssak­sókn­ara og læt­ur kyrr­setja eign­ir

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Gísla Hjálm­týs­son­ar, fjár­fest­is og pró­fess­ors, hef­ur kært hann fyr­ir að hafa hald­ið eft­ir pen­ing­um vegna sölu fast­eigna sem þau áttu sam­an. Sam­hliða hef­ur hún far­ið fram á kyrr­setn­ingu eigna hans vegna kröfu upp á 233 millj­ón­ir króna, sem með­al ann­ars er til­kom­in vegna við­skipt­anna sem hún kær­ir.
„Kannski er þetta grænþvottur“
RannsóknFernurnar brenna

„Kannski er þetta græn­þvott­ur“

Best væri að fern­um væri safn­að sam­an í sér­söfn­un, eins og gert er með til dæm­is bjór- og gos­dós­ir. Það er hins veg­ar ekki gert. Sorpa hef­ur, í kjöl­far fyr­ir­spurna Heim­ild­ar­inn­ar um mál­ið, ver­ið að reyna að átta sig á því í næst­um eitt ár hversu stórt hlut­fall af fern­um fer raun­veru­lega í end­ur­vinnslu. Eng­in skýr svör hafa borist.
Litlar breytingar á áratug: Karlar stýra enn peningum á Íslandi
Úttekt

Litl­ar breyt­ing­ar á ára­tug: Karl­ar stýra enn pen­ing­um á Ís­landi

Lög um kynja­kvóta í stjórn­um ís­lenskra fyr­ir­tækja tóku gildi fyr­ir tíu ár­um síð­an. Í út­tekt sem Heim­ild­in hef­ur gert ár­lega á þeim ára­tug sem lið­inn er frá þeim tíma­mót­um kem­ur fram að hlut­fall kvenna sem stýra fjár­magni á Ís­landi hef­ur far­ið úr því að vera sjö pró­sent í að vera 14,7 pró­sent. Af 115 störf­um sem út­tekt­in nær til gegna kon­ur 17 en karl­ar 98.
Sif Sigmarsdóttir
Sif Sigmarsdóttir
Pistill

Sif Sigmarsdóttir

Af­neit­un hinna far­sælu

Ef Ris­hi Sunak hefði ekki klæðst ákveðn­um sokk­um á G7-fundi hefði draum­ur sokka­sala um vel­gengni ekki ræst. Það þarf stund­um heppni og góð sam­fé­lög með öfl­ug skatt­kerfi til að njóta far­sæld­ar.