Þessi færsla er meira en 10 ára gömul.

Davíð Oddssyni (trúlega) svarað

Um daginn birtist stuttur en nafnlaus leiðari í Morgunblaðinu. Leiðarinn, sem líklega var skrifaður af ritstjóranum, Davíð Oddssyni, fjallaði meðal annars um vinnutíma.

Í pistlinum fárast ritstjórinn yfir hugmyndum um að stytta vinnudaginn, með þeim orðum meðal annars að það séu sígild og „gömul sannindi“ að „vinnan göfgi manninn“. Eins og allir vita, sem hafa unnið handtak um ævina, þreytir vinnan manninn aðallega, þótt hún göfgi nú stöku sinnum líka. Fyrir utan það, þá er langur vinnudagur fyrir okkur mörg vandamál, enda margt sem vinnandi fólk þarf að sinna utan vinnu, eins og til dæmis börnum, heimili og vinum. Fjöldi fólks á Íslandi nær ekki að sinna fjölskyldunni – vegna vinnu – og er einna mest kvartað yfir því á Íslandi, miðað við fjölmörg önnur lönd, ekki síst hin Norðurlöndin.

Hitt er að ritstjórinn vitnar til bresks læknis sem nýlega hvatti til að vinnuvikan í Bretlandi yrði stytt í fjóra daga – en lætur alveg eiga sig að fjalla um rök læknisins. Rökin sem hann færir fram eru nefnilega góð: Fólk hefur ekki tíma til að hugsa um líkama sinn – hreyfa sig –, það hefur ekki tíma til að hugsa um fjölskylduna, auk þess sem streita af völdum vinnu hrjáir marga. Vinnan tekur upp svo stóran hluta lífs okkar, að fyrir marga er erfitt að koma þessum sjálfsögðu hlutum fyrir í „dagskránni“, og í ofanálag er álagið í vinnunni orðið mjög mikið hjá mörgum. Það að stytta vinnuvikuna um einn dag myndi gefa fólki einn auka dag til að hugsa um alla þessa hluti, og slaka aðeins á – það munar um minna. En ritstjórinn lætur eins og ekkert af þessu skipti máli. Fyrir honum skipta „sannindin“ meiru máli – sannindi sem læknirinn hrekur með örfáum og einföldum staðreyndum.

Það er vert að hugsa um hvar rætur þessara sígildu „sanninda“ liggja. Ræturnar liggja aftur til miðalda, þegar fólk þurfti mestmegnis að vinna með höndunum. Þar að auki er líklegt að ræturnar liggi í mótmælendatrúnni. Nú eru hins vegar breyttir tímar: Fæstir nú á dögum vinna með höndunum, flestir vinna við að þjónusta aðra – um 80% – og framleiða ekkert; aðeins um fimm prósent vinnandi fólks á Íslandi veiðir allan fiskinn og sér um allan búskap í landinu. Þeir tímar eru liðnir þar sem fólk þurfti að leggja sig allt fram í vinnunni, því núorðið sjá vélarnar um erfiðustu verkin. Í ljósi þessa er kannski þess virði að endurhugsa þessi meintu sannindi.

Það hafa nefnilega allir gott af því að endurskoða hugmyndir sínar um heiminn – líka nafnlausi pistlahöfundurinn á Morgunblaðinu.

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni