Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ótti Sjálfstæðisflokks við rannsókn á Landsbankanum

Það er fráleitt að ráðandi stjórnmála- og embættismenn hafi ekkert vitað þegar viðskiptaveldi Framsóknarflokksins komst yfir Búnaðarbankann með svindli. Þeir sem höndluðu með almannaeigur í bönkunum á þessum tíma og segjast núna ekki hafa vitað af fléttu Ólafs Ólafssonar og félaga, þeir hafa einfaldlega ekki viljað sjá spillinguna. Vilhjálmur Bjarnason þingmaður hefur sakað stjórnvöld þess tíma um sinnuleysi og vanhæfni: „Ef þeir hafa ekki haft neinn grun þá eru þeir ekki hæfir til þess að taka þátt í þeim störfum sem þeim var ætlað á þeim tíma.“

Glæpur þessa fólks – t.d. Halldórs Ásgrímssonar, Davíðs Oddssonar, Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs Haarde, er að hafa vandað svo illa til verka við sölu samfélagslega mikilvægra fjármálastofnana árið 2002, viljandi eða óviljandi, að þeim var stýrt í gjaldþrot og rændar að innan á um sex árum.

Framsóknarflokkurinn hefur nú fengið skell með útgáfu skýrslu um sölu Búnaðarbankans en Sjálfstæðisflokkurinn reynir allt til að koma í veg fyrir að salan á Landsbankanum verði nokkru sinni rannsökuð. Forsætisráðherra segir ástæðulaust að fara í víðtæka rannsókn á einkavæðingunni og flokkurinn setti Brynjar Nielsson, fyrrverandi verjanda eins þeirra sem bjó til svikafléttuna í kringum Búnaðarbankann, yfir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, vitandi að skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri á leiðinni til umfjöllunar þar. Formaður Sjálfstæðisflokksins veit að Brynjari er treystandi til að þvæla þetta mál á þingi, enda þjóðþekktur gasprari sem skeytir hvorki um skömm né heiður. Brynjar hefur m.a. vegið að Hæstarétti vegna dóma yfir fyrrverandi skjólstæðingi sínum og Ólafi Ólafssyni en segist nú ekki ætla að hafa skoðun á því hvort þessir sömu menn hafi blekkt stjórnvöld – þrátt fyrir að hafa rannsóknarskýrslu í höndunum sem segir: „Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt.“

Brynjar hefur nú þegar lýst því yfir á Alþingi að hann telji ástæðulaust að hefja frekari rannsókn á einkavæðing ungukanna því ekki liggi ljóst fyrir hvað eigi að rannsaka. Þetta er auðvitað rangt hjá þingmanninum þar sem Alþingi hefur þegar samþykkt ályktun um að slík rannsókn eigi að fara fram og þar er vandlega farið yfir það hvað eigi að rannsaka. Meðal þess sem þar er nefnt er blekkingin um að Landsbankinn yrði greiddur með erlendu fé, þegar reyndin var sú að 70% kaupverðsins voru greidd með lánum frá Kaupþingi. Eins það smáatriði að stjórnvöld hirtu ekkert um settar verklagsreglur til að Björgólfsfeðgar kæmust yfir Landsbankann. Vinnubrögðin voru svo ósvífin að meira að segja innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum sjálfum sagði sig úr einkvæðingarnefnd bankans og kvaddi með þeim orðum að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.  

Áhrifafólk í Sjálfstæðisflokknum fékk síðan að njóta þess að hafa komið Landsbankanum í hendur Björgólfsfeðga. Stórefnafólk hóf að flytja peninga í skattaskjól í gegnum bankann, þeir sem voru í klíkunni gátu orðið milljónamæringar með því að fá lán frá bankanum  gegn engum eða lélegum veðum, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins til 26 ára var settur í stjórn bankans og milljónir rötuðu inn á bankareikning flokksins. Auðvitað gerir Sjálfstæðisflokkurinn nú allt til að koma í veg fyrir rannsókn á sölunni á Landsbankanum, enda myndi hún varpa skýru ljósi á þessi tengsl.

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði aðspurður árið 2014 að rannsóknin á einkavæðingu bankanna væri ekki hafin vegna þess að Alþingi þyrfti fyrst að fara yfir reynslu af störfum fyrri rannsóknanefnda og sú vinna væri í fullum gangi. Síðan eru liðin tvö og hálft ár en ekkert hefur heyrst frekar af þessari vinnu. Nú þegar þessi afsökun heldur ekki lengur vatni þá er línan hjá Sjálfstæðisflokknum orðin sú að ástæðulaust sé að hefja rannsóknina nema að ný gögn komi fram. En Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki lengur upp með að tefja þessa rannsókn, ekki nema að Viðreisn og Björt framtíð kjósi að líta undan og gerist þannig virkir þátttakendur í spillingunni, rétt eins og stjórnmálamennirnir sem seldu Búnaðarbankann og þóttust ekkert vafasamt sjá.

(Kæri lesandi, ef þú vilt að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankanna þá geturðu skrifað undir þessa kröfu, eða sent þingmönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tölvupóst).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.