Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Vinsamlegt verðmat

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifaði eftirtektarverða færslu á facebooksíðu sína 22. júlí síðastliðinn þar sem hann skoraði á Fjármálaeftirlitið og Héraðssaksóknara að taka til skoðunar viðskipti með Lindarvatn ehf., m.a. vegna aðgerðaleysis stjórna lífeyrissjóðanna sem tengjast viðskiptunum. En það voru lokaorð Ragnars sem vöktu sérstaka forvitni mína: „Ég mun svo halda áfram þar sem frá var horfið og fjalla um fleiri mál sem tengjast þessum snillingum en þá mun ég senda frá mér uppskriftina af því hvernig sjallarnir græða 850 milljónir, og grilla á kvöldin, með því að selja almenningshlutafélaginu Festi, sem er í eigu lífeyrissjóðanna, 3 ára fyrirtæki, sem framleiðir ekki neitt, á 30 faldri ebitda en þar koma við sögu m.a. Magnús Júlíusson fyrrum formaður sambands ungra sjálfstæðismanna og fleiri góðir gestir.“

Þarna er formaður VR að öllum líkindum að boða umfjöllun um fyrirtækið Íslensk orkumiðlun, en það var í eigu Bjarna Ármannssonar, Kaupfélags Skagfirðinga, Ísfélags Vestmannaeyja og fleiri. Umræddur Magnús Júlíusson er annar tveggja starfsmanna fyrirtækisins og hluthafi. Festi, eignarhaldsfélag sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, keypti Íslenska orkumiðlun fyrr á þessu ári fyrir 722 milljónir króna, greitt með hlutabréfum í Festi og reiðufé.

Það er tvennt sem vekur sérstaka athygli manns í tengslum við þessi viðskipti, annars vegar þeir einstaklingar sem að þeim standa og hins vegar verðmatið á Íslenskri orkumiðlun. Eins og áður segir var Bjarni Ármannsson stærsti hluthafi Íslenskrar orkumiðlunar og stjórnarformaður þess en þeir sem stjórna Festi eru Þórður Már Jóhannesson stjórnarformaður og Eggert Þór Kristófersson forstjóri. Það þarf ekki að leita lengi á netinu til að komast að því að þessi þrír einstaklingar tengjast viðskipta- og vinaböndum. Í umfjöllun Stundarinnar frá 2015 segir: „Eggert Þór er nátengdur Bjarna Ármannssyni, fyrrum forstjóra Glitnis og meðal hans nánustu samstarfsmanna“, en í fréttinni er fjallað um 1.200 milljóna króna gjaldþrot einkahlutafélaga Eggerts. Í umfjöllun Morgunblaðsins árið 2003 má svo lesa um það að Bjarni Ármannsson hafi ráðið æskuvin sinn Þórð Má til Kaupþings og síðar Straums, en báðir tengjast þeir stórum gjaldþrotamálum Bankahrunsins.

Fyrr á árinu virðast þessir nánu vinir og samstarfsmenn hafa metið Íslenska orkumiðlun, í eigu Bjarna Ármannssonar, á 850 milljónir króna og ákveðið að Festi, fyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna en undir stjórn þeirra Þórðar og Eggerts, keypti félagið. Þetta verðmat vekur þó óneitanlega upp nokkrar spurningar, líkt og Ragnar Þór Ingólfsson hefur bent á. Hann segir að kaupverðið bendi til að fyrirtækið hafi verið keypt á 30 faldri svonefndri EBITDA, en viðteknara viðmið á kaupverði fyrirtækja er fjórum til sex sinnum EBITDA. Íslensk orkumiðlun framleiðir ekkert og á engar stórar eignir, það er bara milliliður á raforkumarkaði milli framleiðanda og kaupanda. Líkurnar á að slíkt fyrirtæki geti boðið betri verð en stóru orkufyrirtækin og skilað eigendum sínum jafnframt viðunandi arði eru litlar sem engar. Auk þess virðast mikilvægustu sölusamningar fyrirtækisins, m.a. við Granda og fleiri fiskvinnslufyrirtæki, vera gerðir til mjög skamms tíma, eða tveggja ára. Framtíð fyrirtækisins hvílir því á afar veikum grunni. Kaup Festi á Íslenskri orkumiðlun eru réttlætt með því að N1, dótturfélag Festa, ætli að færa sig inn á raforkumarkaðinn til að taka þátt í raforkuvæðingu bílaflotans. Það hljómar samt sérkennilega að kaupa veikburða fyrirtæki á 722 milljónir til þess að sinna slíkum viðskiptum þegar það myndi einungis kosta N1 eða Festi 15 milljónir króna að stofna nýtt raforkusölufyrirtæki.

Hátt verðmat Festa á Íslenskri orkumiðlun og persónuleg tengsl forystumanna þessara fyrirtækja hljóta að verða til þess að stærstu hluthafar í Festi, þ.e. Lífeyrissjóður verslunarmanna (11,2%), Gildi – lífeyrissjóður (9,7%), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (7,6%) og fleiri lífeyrissjóðir, hefji sérstaka athugun á þessum viðskiptum. Gerist það ekki munu varnaðarorð Ragnars Þórs, formanns VR, halda áfram að bergmála um samfélagið: „Atvinnulífið hefur farið ránshendi um lífeyrissjóði landsmanna árum og áratugum saman í skjóli eftirlitsleysis, meðvirkni verkalýðshreyfingarinnar og ítaka SA í stjórnum lífeyrisjóðanna.“Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni