Þessi færsla er meira en ársgömul.

Rangar ályktanir dregnar af gjaldþroti Íbúðalánasjóðs

Það er líklega ekkert mikilvægara stjórnmálamanni en að njóta almenns trausts. Þess vegna kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart þegar stjórnmálamenn draga ályktanir í mikilvægum málum sem virðast hvorki byggja á rökum né reynslu. Það treysta nefnilega fáir stjórnmálamanni sem byggir afstöðu sína á kreddum og alvöruleysi. Viðbrögð sjálfstæðismanna við fyrirsjáanlegu og yfirvofandi gjaldþroti Íbúðalánasjóðs hafa því komið mér á óvart, ekki síst þar sem það blasir við öllum að Sjálfstæðisflokkinn bráðvantar að sannfæra fleiri kjósendur um að honum sé treystandi fyrir efnahagsmálum.

Gjaldþrot Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóður) hefur verið fyrirsjáanlegt um árabil, enda ekki að ástæðulausu sem Alþingi ákvað árið 2010 að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd valinkunnra sérfræðinga sem var falið að rannsaka málið. Skýrsla nefndarinnar var birt árið 2013 og þar er m.a. fjallað um ábyrgð stjórnmálamanna á lögum sem samþykkt voru árið 2004 og leiddu til þeirra kerfisbreytinga sem kosta munu almenning um 50-200 milljarða króna þegar upp verður staðið. Þar segir í kafla 9.4.6: „Fyrir Alþingi var lagt lagafrumvarp um nýtt form á fjármögnun Íbúðalánasjóðs sem fól í sér mikla áhættu fyrir ríkissjóð … Frumvarpið gerði ráð fyrir að fjármögnunarbréf sjóðsins yrðu hvorki innkallanleg né lántakar þyrftu að greiða uppgreiðslugjald. Það voru mistök. … Alþingi samþykkti lögin þrátt fyrir aðvaranir Seðlabankans. … Ábyrgðin er fyrst og fremst þingsins að samþykkja gölluð lög.“

Það vekur óneitanlega athygli að meðal þeirra þingmanna sem greiddu þessu gallaða frumvarpi atkvæði sitt eru báðir þeir menn sem nú eru í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, orkumálaráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sá hinn sami og telur sig nú hæfan til að gæta hagsmuna skattgreiðenda í málinu. Þeir Guðlaugur og Bjarni kunna að halda því fram núna að þingmenn hafi á sínum tíma verið fullvissaðir um að Íbúðalánasjóður myndi grípa til almennrar áhættustýringar sem átti að koma í veg fyrir að skattgreiðendur sætu uppi með milljarða tjón. En þá hafa þeir greinilega hvorki tekið mark á viðvörunum Seðlabankans né lagt við hlustir í þingsal þegar flokksbróðir þeirra, Pétur Blöndal, varaði við afleiðingum frumvarpsins. Hann sagði í þingræðu þann 29. mars 2004 að sá augljósi vandi sem frumvarpið skapaði væri óleysanlegur. Gert væri ráð fyrir að skuldabréf sjóðsins yrðu seld með óbreytanlegum vöxtum til framtíðar og ef vextir lækkuðu niður í það sem tíðkaðist í löndunum í kringum okkur þá gæti þetta orðið „óskaplegur baggi fyrir ríkissjóð … Ríkissjóður er með ábyrgð á þessum bréfum en hefur enga útgönguleið ef vextir lækka mjög mikið. Það getur orðið mjög þungbært fyrir ríkissjóð. … Menn þurfa að átta sig á þessu og ganga með galopin augun af því að þeir eru að taka á sig mjög mikla skuldbindingu fyrir ríkissjóð og ég vara við því.“

Því miður virðist mannvalið í Sjálfstæðisflokknum heldur hafa versnað síðan þessi orð féllu og þekking innan hans á hagstjórnarmálum síst hafa aukist. Að minnsta kosti ef tekið er mið af ályktunum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hafa dregið af þessu örlagaríka frumvarpi sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði sitt árið 2004. Þannig skrifaði t.d. þingmaður flokksins grein á liðnu ári þar sem hann heldur því fram að saga Íbúðalánasjóðs sýni fram á að ríkið eigi ekki að vasast í rekstri fjármálastofnana, en nefnir ekki einu orði mistökin sem þingmenn sjálfstæðisflokksins gerðu við lagasetninguna 2004. Það er svona eins og að horfa á skip sigla á ísjaka og sökkva og álykta út frá því að skip eigi ekki að vasast í því að sigla, frekar en að styrkja hefði þurft stefni skipsins eða hafa einhvern á útkikki. Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók nýverið viðtal við fjármálaráðherra þar sem sá síðarnefndi lýsti því ágætlega hvernig áhættan sem hann og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku með lögunum árið 2004 hefði „raungerst.“ En spyrillinn, þingmaður flokksins, var svo uppfullur af pólitískum kreddum að hann áttaði sig ekki á orsökum og afleiðingum málsins og ályktaði að gjaldþrot Íbúðalánasjóðs sýndi fram á að rekstur opinberrar lánastofnunar eða samfélagsbanka væri „bara vitleysa.“ Ef þingmanninum þykir þetta frambærilegur málflutningur þá má eflaust gagnálykta á jafn grunnhygginn hátt að bankahrunið 2008, sem kostaði almenning ómældar fjárhæðir og erfiðleika, hafi sýnt fram á að rekstur banka í einkaeigu sé bara vitleysa.

Það er óumdeilt að gjörðir þingmanna Sjálfstæðisflokksins 2004 eru orsök þess að almenningur situr nú uppi með skuldir Íbúðalánasjóðs á sínum herðum. Afleiðingar málsins virðast hins vegar ætla að verða umdeildari. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast draga þann lærdóm einan að fjármálastarfsemi eigi aldrei að vera rekin á samfélagslegum forsendum. Aðrir hljóta þá að álykta að málsvarar Sjálfstæðisflokksins séu enn það kreddufastir og alvörulausir að þeim sé ekki treystandi fyrir efnahagsstjórninni. Annað væri „bara vitleysa.“

Athugasemdir (8)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
  Kærar þakkir!
  1
 • Adolf Jónsson skrifaði
  Virkilega góð skrif og skilmerkileg!
  1
 • Þorsteinn Vilhjálmsson skrifaði
  Fróðlegt og skilmerkilegt, takk!
  1
 • Jóhannes Baldvinsson skrifaði
  Hvernig væri að nafngreina þennan þingmann Sjálfstæðisflokksins sem tók viðtalið við Bjarna? Það eru ekki allir að fylgjast með öllum miðlum.
  1
  • GHG
   Guðmundur Hörður Guðmundsson skrifaði
   Sæll. Það var Bryndís Haraldsdóttir, 6. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Þú getur hlustað á viðtalið hér https://fb.watch/gvhDO3VC2L/
   1
 • Ólafur Þórarinsson skrifaði
  Vel útlistuð grein takk.
  1
 • Jón Ragnarsson skrifaði
  Takk fyrir þessi skrif.
  1
 • Sigurður Einarsson skrifaði
  Góð grein takk.
  1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni