Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Borgarlína, húsnæðismál og hið lýðræðislega umboð

Líklega er óhætt að fullyrða að Reykjavíkurborg ræður ekki við tvö stór verkefni á einu kjörtímabili, til þess hefur hún hvorki fjárhagslega- né stjórnsýslulega burði. Þess vegna standa nýkjörnir borgarfulltrúar frammi fyrir mjög mikilvægri ákvörðun nú í upphafi kjörtímabils – hvort áhersla verði lögð á uppbyggingu borgarlínu eða átak í húsnæðismálum.

Ef marka má fréttir þá virðist margt benda til að núverandi meirihluti ætli að öðlast framhaldslíf með stuðningi Viðreisnar og áherslan verði á borgarlínu. En flokkarnir þrír töpuðu samanlagt átta prósentustigum í borgarstjórnarkosningunum og hljóta því að velta því vandlega fyrir sér hvert stefnan verður tekin. Hinn meirihlutinn sem hægt er að mynda, þ.e. með Sósíalistum og Flokki fólksins, hefði eflaust aðrar áherslur, þar á meðal á rótækar umbætur í húsnæðismálum.

Það er reyndar vert að hafa í huga að meirihluti núverandi meirihlutaflokka og Viðreisnar hefði minnihluta atkvæða að baki sér þrátt fyrir að hafa meirihluta borgarfulltrúa, þ.e. 46% atkvæða gegn 47% atkvæða Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins, Miðflokks og Sósíalista. Núverandi meirihlutaflokkar myndu aftur á móti hafa meirihluta atkvæða að baki sér ef þeir hæfu samstarf við Sósíalista og Flokk fólksins, eða 49% atkvæða gegn 45% atkvæða minnihluta Sjálfstæðisflokk, Miðflokks og Viðreisnar.

En aftur að stóru ákvörðuninni – átak í húsnæðismálum eða borgarlínu. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar nefndi rúmur helmingur borgarbúa húsnæðismál sem mikilvægasta kosningamálið. Það er síðan óþarfi að fara mörgum orðum um ástandið á húsnæðismarkaði, en við vitum að um hundrað börn á höfuðborgarsvæðinu eru skráð með lögheimili í iðnaðarhúsnæði, heimilislausum fjölgar hratt, sífellt fleira ungt fólk er fast í foreldrahúsum og mikill fjöldi barna býr í ótryggu leiguhúsnæði og upplifir óöryggi vegna tíðra flutninga milli hverfa og sveitarfélaga. Ég fæ ekki séð hvernig félagshyggufólk getur sett þetta ástand á vogarskálar með töfum í umferðinni og ákveðið að borgarlína sé forgangsmál hjá borginni.

Í ljósi þessa verður að telja það í meira lagi vafasamt ef Samfylking, VG og Píratar ætla nú að renna inn í meirihluta með Viðreisn, meirihluta sem hefði varla fjárhagslega burði til að blása til sóknar í húsnæðismálum samhliða uppbyggingu borgarlínu, auk þess sem lýðræðislegt umboð slíks meirihluta, þ.e. meirihluti borgarfulltrúa með minnihluta greiddra atkvæða, yrði stöðugt dreginn í efa. Það er líka alveg ljóst að ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks munu ekki veita borgarstjórn Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar þann stuðning sem þörf er á til að fjármagna borgarlínu. Þess vegna er borðleggjandi, hafi félagshyggjuflokkarnir lært eitthvað af nýafstöðnum kosningum, að þeir biðli nú til Sósíalista og Flokks fólksins um meirihluta sem stefni að því að laga leigumarkaðinn og tryggja þannig félagslegt öryggi og velferð barna og ungs fólks.

Samfylking, VG og Píratar þurfa nú að gera það upp við sig hvort þeir ætla í meirihluta til hægri um borgarskipulag eða til vinstri um velferðarmál. Mig grunar að þessi ákvörðun ráði miklu um framtíð þessara flokka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.