Árið 2002 tók ég þátt í friðsömum mótmælum ásamt um þúsund öðrum Íslendingum. Ástæðan var sú að íslensk stjórnvöld höfðu meinað fólki landgöngu og fangelsað 75 manns á grundvelli trúarskoðana.
Muniði? Falun Gong-iðkendur stóðu í þeirri trú að við Íslendingar, ólíkt kínverskum stjórnvöldum, virtum rétt fólks til að safnast saman og mótmæla mannréttindabrotum með friðsamlegum hætti.
Allt kom fyrir ekki. Forseti Kína vildi jú eiga notalega stund með íslenskum stjórnvöldum í opinberri heimsókn, svo hann færði þeim sérstakan lista yfir fólk sem væri ekki velkomið til landsins – fólkið sem gæti spillt stemmningunni.
Íslenska lögreglan var virkjuð til að handtaka fjölda fólks ólöglega. Njarðvíkurskóli breyttist úr skólastofnun í fangelsi og einkafyrirtækinu Icelandair var breytt í fasíska síunarmiðstöð hins opinbera. Á meðan söng forseti alþýðulýðveldisins lagið O sole mio blindfullur í Perlunni við píanóundirleik Atla Heimis Sveinssonar. Allt í boði íslenskra stjórnvalda: Mannréttindabrotin, valdníðslan og píanóundirspilið.
Allt þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég opnaði RÚV.is í gær og sá mynd af ráðherrum ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni: ,,Mótmælum öll”. Ráðherrar á Íslandi mótmæla því að Trump banni fólki að koma til Bandaríkjanna á grundvelli trúarskoðana.
Einn af ráðherrunum er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hún var aðili að ríkisstjórn sem ekki aðeins meinaði fólki að koma til landsins á grundvelli lífsskoðana heldur fangelsaði það til að þóknast alræðisstjórninni í Kína. Einhver mannréttindalögmaður út í heimi taldi þessi lögbrot svo merkileg að hann fann sig knúinn til að skrifa heila bók um atburðina.
Þorgerður Katrín varði aðgerðirnar með kjafti og klóm sem formaður allsherjarnefndar Alþingis. Liður í því var að ljúga því í sjónvarpsviðtali að listi yfir Falun Gong iðkendur hefði komið frá Interpol – þetta væru semsagt bara einhverjir glæpónar. Með því gerði hún tilraun til að sverta ímynd fólksins opinberlega til að réttlæta glæp íslenskra stjórnvalda. Interpol kannaðist auðvitað ekkert við listann, enda voru það ekki Falun Gong-iðkendurnir sem brutu lög heldur íslensk stjórnvöld eins og Persónuvernd og Umboðsmaður Alþingis staðfestu síðar.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei beðist afsökunar á framgöngu sinni eða sýnt þingsályktunartillögu þess efnis nokkurn áhuga. Ég hef margsinnis beðið um áheyrn þeirra án árangurs. Nú þykjast þeir voða hneykslaðir þegar Trump gerir það sama.
Ég og mamma mín sömdum drög að þingsályktunartillögu fyrir nokkrum árum þar sem þess er krafist að stjórnvöld biðjist afsökunar á valdníðslunni sem Falun Gong-iðkendur urðu fyrir. Þar er ekki beðið um mikið, aðeins að þessi ótrúlega vitfirring verði gerð upp. Að við sýnum manndóm og biðjumst afsökunar.
Ég er og hef alltaf verið þakklátur þingmönnunum sem hjálpuðu okkur með tillöguna og lögðu hana fram á Alþingi. Þar á meðal Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og Birgitta Jónsdóttir, takk fyrir að standa vörð um þau góðu gildi sem við Íslendingar viljum kenna okkur við og eigum að standa fyrir.
Nú er boltinn hjá Þorgerði Katrínu, félögum hennar í ríkisstjórn og öðrum fulltrúum okkar á Alþingi. Er ekki löngu orðið tímabært að við horfum í spegil og biðjumst afsökunar?
Eða hvað, sjáum við kannski ekkert eftir því að hafa hegðað okkur eins og Trump?
Athugasemdir