Sæll Sigurður Ingi.
Síðastliðinn sunnudag var íslenska þjóðin illa særð.
Þá fékk hún í andlitið skelfilega sönnun þess hve stjórnmálamenning landsins er fúin og spillt.
Forsætisráðherra landsins gerði aumkunarverða tilraun til að ljúga um tengsl sín við peningafélag á Tortóla.
Því við skulum ekki gleyma því, Sigurður Ingi, hvað Sigmundur Davíð gerði.
Það kom ekki bara á hann, og hann rauk út í fússi.
Hann laug. Hann laug blákalt. Og hann hafði raunar í mörg ár logið með þögninni um tengsl sín við þetta félag.
Nema hvað, hann var ekki einn um að tengjast peningafélögum á skrýtnum stöðum.
Nefnum bara formann og varaformann Sjálfstæðisflokksins.
Þessar upplýsingar - í viðbót við stöðugt auðmannadekur ríkisstjórnarinnar sem þið öll sátuð í - þær urðu til þess að fólki blöskraði.
Reiðialda fór um samfélagið og að minnsta kosti 22.000 manns mættu á Austurvöll til að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar.
Ekki einungis afsagnar Sigmundar Davíðs, heldur allrar ríkisstjórnarinnar.
Þar á meðal krafðist fólk þess að þú segðir af þér.
Og fólk bað um siðbót í stjórnmálalífinu.
Við vitum hvað gerðist svo.
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra, en gerir nú tilraun til að halda í völd sín með því að vera áfram formaður Framsóknarflokksins.
Ef ykkur framsóknarmönnum finnst skemmtileg tilhugsun að njóta formennsku manns sem hefur logið blákalt sem forsætisráðherra þjóðarinnar, þá verði ykkur að góðu.
Þá eruð þið bara svoleiðis flokkur.
En Sigmundur Davíð gerði fleira.
Hann valdi þig líka sem eftirmann sinn á stóli forsætisráðherra, Sigurður Ingi.
Því skaltu aldrei gleyma.
Þjóðin valdi þig ekki sem forsætisráðherra.
Þjóðin vildi meira að segja losna alveg sérstaklega við þig úr embætti ráðherra.
Því þú hafðir varið Sigmund Davíð og Tortóla-tengsl hans alveg fram í rauðan dauðan.
Með frægum ummælum þínum um að „það sé svo flókið að eiga peninga á Íslandi“.
Eða hitt gullkornið að „einhvers staðar verða peningar að vera“.
Þetta sagðir þú, Sigurður Ingi, þegar þú sást sóma þinn í að verja auðkýfing sem hafði vísvitandi leynt hlutum fyrir íslensku þjóðinni, logið að henni og vildi ekki deila kjörum með henni.
Þá sagðir þú þetta.
Það er því ekki skrýtið þótt fólk hafi líka viljað losna við þig úr ráðherrastóli.
Eins og raunar alla ríkisstjórnina.
Þjóðin vildi þig sem sagt ekki.
En ekki nóg með það.
Ég skal hengja mig upp á að framsóknarmenn vildu þig ekki heldur. Ef þeir hefðu fengið að velja hver úr þeirra hópi hefði orðið forsætisráðherra, þá hefðu þeir ekki valið þig, Sigurður Ingi.
Og það má svo sannarlega fullyrða að sjálfstæðismenn vildu þig ekki.
Enda sérðu væntanlega sjálfur á upptökum frá frægri senu í stiganum í Alþingishúsinu hve djúpa fyrirlitningu Bjarni Benediktsson sýnir þér.
Sem sagt, Sigurður Ingi.
Enginn vildi þig sem forsætisráðherra.
Og alveg sérstaklega ekki íslenska þjóðin.
Það var Sigmundur Davíð, afhjúpaður lygari, sem handvaldi þig sem arftaka sinn.
Og aðeins einhver þröng klíka kringum hann leit á þig sem vænlegan forsætisráðherra.
Af því Sigmundur Davíð taldi víst að þú gætir orðið þægilegur leppur hans á forsætisráðherrastól, meðan hann skryppi aðeins frá - „tímabundið“ eins og frægt er orðið.
Nú tekur þú til starfa í forsætisráðuneytinu í dag, Sigurður Ingi.
Og þú veist þá þetta.
Enginn vildi þig.
Nema Sigmundur Davíð og pabbi hans.
Á ég að rifja upp fyrir þér ummæli pabba hans Sigmundar um hvað skipan þín í þetta æðsta embætti þjóðarinnar hafi verið „brilljant flétta“?
Nei, ég nenni því ekki.
En þú, Sigurður Ingi, þú ert sem sagt brilljant flétta Sigmundar Davíðs.
Það kemur úr innstu herbúðum Sigmundar Davíðs sjálfs.
Hvernig finnst þér að vera „brilljant flétta“ manns sem er að reyna að snúa á vilja þjóðarinnar, gefa henni beinlínis á kjaftinn og tryggja sjálfum sér einhver áframhaldandi völd?
Í alvöru, Sigurður Ingi, hvernig finnst þér það?
En það má svo sem viðurkenna að á einhvern hátt var það eflaust „brilljant“ að geta snúið svona á þjóðina og troðið þér í embætti sem þjóðin vildi bara alls ekki fá þig í.
En það var óvart einmitt slíkur brilljans sem útifundurinn á Austurvelli á mánudaginn var að reyna að losna við úr íslensku stjórnmálalífi.
Við vorum að reyna að losna við þig, Sigurður Ingi.
Ekki bara Sigmund Davíð. Heldur líka þig.
Í staðinn varst þú dubbaður til forsætisráðherra með skítamixi, brögðum, brellum og löðrungum framan í andlit þjóðarinnar.
Bara svo Sigmundur Davíð fengi haldið einhverjum völdum, bara svo Sjálfstæðisflokkurinn geti notað þig til að ljúka sínum „mikilvægu verkum“ sem eru að sölsa fleiri ríkiseignir undir auðmennina sína.
Að því búnu verður þér kastað á hina pólitísku hauga, Sigurður Ingi.
Og þín pólitísku örlög?
Jú, að lenda á lista Gettu betur-krakka yfir þá sem styst hafa gegnt embætti forsætisráðherra á Íslandi.
Finnst þér það virkilega tilvinnandi Sigurður Ingi Jóhannsson?
Finnst þér tilvinnandi að fá framan í þig frá fyrsta degi fyrirlitningu og jafnvel sorg þjóðarinnar yfir því að vonir hennar um siðbót hafa brugðist um sinn, og tæki spillingarinnar sért þú?
Er embættið heiðurs þíns virði, Sigurður Ingi Jóhannsson?
Athugasemdir