Athafnamaður sagði um daginn í viðtali um kjarasamninga eitthvað á þá leið að lögmál efnahagslífsins væru skýr og við Íslendingar gætum ekki farið að gerast einhver tilraunadýr.
Fyrir utan allt hagfræðilegt orðskrúð fela svokölluð lögmál efnahagslífsins það í sér að um það bil 1% mannkynsins ræður yfir næstum helmingi allra eigna á jörðinni. Nálægt 90% mannfólksins á ekki neitt nema einhverja persónulega smámuni. Þannig hefur þetta verið í stórum dráttum um þúsundir ára eða eins lengi og sögur má rekja. Af augljósum ástæðum vitum við ekki hvernig ástandið var áður en fólk fór að skilja eftir sig túlkanlegar heimildir en kynni
Evrópumanna af lítt tæknivæddu fólki síðasta hálfa árþúsundið benda til þess að misskipting lífskjara hafi verið minni en hjá þeim sjálfum á sama tíma, enda úr langtum minni efnum að spila.
Hvergi í heiminum hefur gæðum nokkru sinni verið skipt á réttlátan hátt í efnuðum samfélögum.
Skást hefur okkur gengið í norðanverðri Evrópu á seinustu hundrað árum en samt er enn óravegur frá því að viðunandi efnahagslegt réttlæti geti talist ríkja. Íslendingar eru til að mynda nú á dögum ein af ríkustu þjóðum jarðar en mestur hluti arðsins rennur til fámenns hóps fjármagnseigenda innanlands og erlendis.
Hvað ræður misskiptingu auðsins? Er það dugnaður einstaklinga? Vissulega getur duglegur og laginn verkmaður unnið sér talsvert meira inn en skussi í sömu starfsgrein. Samt nemur slíkur skakki aldrei meira en tvöföldun eða þreföldun og er ekki í nokkurri í líkingu við þann þúsundfalda mun sem verið hefur á sögulegum tíma á auðmönnum og yfirstéttum annarsvegar og hinum almenna vinnulýð hinsvegar.
Eru þá sumar starfsgreinar mikilvægari en aðrar? Segja má að næstum öll störf komi að einhverju gagni þótt þau séu mismunandi lífsnauðsynleg. Kannski mætti sættast á að setja í fyrsta flokk þau störf sem fást við afla mannfólkinu lífsviðurværis og húsakosts og bæta heilsufar þess. Undanskilja mætti á hinn bóginn þau sem beinlínis stuðla að útrýmingu eða kúgun mannanna, til að mynda hergagnaframleiðslu.
Engin dæmi finnast þess í mannkynssögunni að góðvild eða hjálpsemi hafi lyft mönnum til auðs og valda. Þeir eiginleikar sem reynst hafa mönnum drýgstir í því efni eru græðgi, frekja og slægð. Vera má að líkamsafl hafi skipt máli í öndverðu líkt og hjá dýrum merkurinnar en það gat aldrei náð út fyrir þröngt svið. Ef fyrrnefndir hæfileikar sameinuðust í einum manni ellegar þröngum hópi var komið efni í forystumann eða forystusveit sem gat lifað á vinnuframlagi annarra.
„Engin dæmi finnast þess í mannkynssögunni að góðvild eða hjálpsemi hafi lyft mönnum til auðs og valda. Þeir eiginleikar sem reynst hafa mönnum drýgstir í því efni eru græðgi, frekja og slægð.“
Þessi sjálfsprottna yfirstétt þróaðist og efldist einkum í löndum sem voru rík að náttúrugæðum.
Æðstu menn báru ýmis tignarheiti svosem keisari, konungur og soldán og í næstu lögum voru barónar, greifar, jarlar og fjölmargir aðrir titlar. Yfirvöld leituðust við að styrkja stöðu trúarbragða sem viðurkenndu ríkjandi misskiptingu eigna sem einhverjum Guði þóknanlegt ástand. Auður og völd grundvölluðust lengi vel á jarðeignum og afrakstri þeirra sem vinnulýðurinn framleiddi. Þá urðu til hin gömlu keisaradæmi í Asíu og Evrópu. Milli þeirra og innan þeirra voru á hinn bóginn háðar ótal styrjaldir um fyrrnefndar auðlindir og er svo reyndar enn.
Fyrir fáum öldum kom svonefnd iðnbylting til sögunnar í Vesturevrópu og Norðurameríku. Með henni ásamt tengdri bankasterfsemi varð smám saman til ný auðstétt sem nú á dögum er langtum voldugri en gamla jarðeigendastéttin. Hún á það sameiginlegt henni að ríkjandi eiginleikar til velgengni eru ekki hjálpsemi eða góðvild heldur fyrrnefnd græðgi, frekja og slægð.
Í ofanálag hafa gjöfulustu auðsuppsprettur þessara risafyrirtækja seinustu hundrað árin verið annarsvegar eyðing náttúrunnar og hinsvegar fjöldaframleiðsla á sífellt fullkomnari drápstækjum í því skyni að ræna auðlindum frá öðrum og verja þær ellegar blátt áfram til að halda framleiðslunni gangandi og láta skattborgara greiða kostnaðinn. Vopnaframleiðslan sjálf er orðin auðsuppspretta. Í þessu skyni þarf að viðhalda stríðsótta til að réttlæta framlög til hermála á fjárlögum. Til þess eiga framleiðendurnir hlut í ótal fjölmiðlum og fréttastofum.
Eignaskiptingin á Íslandi er ekki annað en smámynd af því rangláta ástandi sem ríkir víðast hvar í veröldinni. Sem áður sagði er það þó með skárra móti á heimsvísu og það ætti ekki að vera útilokað að bæta það enn. Til þess þurfa þeir sem í tímans rás hafa hagnast meira en meðalhófi gegnir og hlotið að erfðum lítt verðskuldaðan forgangsrétt að auðlindum þjóðarinnar blátt áfram að fallast á að gæðum landsins verði réttlátar skipt í framtíðinni. Þar skyldi munurinn felast í dugnaði, iðjusemi og vandvirkni en ekki því hvort menn stunduðu járnsmíði eða fjármálabrask.
„Eignaskiptingin á Íslandi er ekki annað en smámynd af því rangláta ástandi sem ríkir víðast hvar í veröldinni.“
Þetta ætti ekki að vera til of mikils mælst og nóg væri samt eftir handa öllum til að búa við þokkaleg kjör.
Slíkur gjörningur væri vitaskuld heimssögulegur. Og vissulega væri skemmtilegt ef íslenskir athafnamenn gætu sýnt þvílíkan stórhug í stað þess að grúfa sig eins og aðrar gyltur ofan í lítilvægt peningasufl. Svo merkilega vill reyndar til að Íslendingar drýgðu fyrir rúmum þúsund árum svipaða dáð, að vísu óvart og án langtíma skipulagningar. Það var þegar þeir mynduðu hér eigið samfélag án þess konungs og aðalsveldis sem þá hafði rutt sér til rúms um mestalla
Evrópu og var að komast á kreik á öðrum Norðurlöndum. Hér ríkti vissulega ekki fullkomið réttlæti en samt stórum skárra en sú grimmdarlega kúgun sem fólk mátti búa við í evrópsku lénsskipulagi á sama tíma. Þessi tilraun stóðst reyndar ekki nema í nokkrar kynslóðir eða tvær aldir. Þá höfðu nokkrir ættarhöfðingjar, sem bjuggu í nægum mæli yfir eiginleikunum græðgi, frekju og slægð, náð yfirhendinni hér sem annarstaðar, reyndar með hjálp erlendrar íhlutunar.
Minningin um þetta tímabil varðveittist engu að síður í skáldskap og sagnaritun, einkum í hinum harmrænu Íslendingasögum sem túlka vígaferli sem ógæfu en engan hetjuskap. Þetta varð að skrifa á móðurmáli því fæstir áheyrendur kunnu latínu. Skriftlærðir prestar í þjónustu kirkjubænda munu einkum hafa annast þetta ásamt munkum. Þannig varð íslenskt ritmál til.
Kauðalega innrættir menn hafa á síðari öldum leitast við að klína evrópskum víkingastimpli á íslenska landnámsmenn þótt ljóst sé að yfirgnæfandi meirihluti þeirra var bændur jafnvel þótt fáeinir hafi slæðst með sem í einhver skipti höfðu tekið þátt í víkinga eða kaupferðum. Virkir víkingar og önnur illmenni höfðu engin verðmæti hingað að sækja sem ránsfeng. Það fór hinsvegar ekki illa á því að kalla fjármálaséní nútímans útrásarvíkinga.
Ef hið ótrúlega gerðist að forysta íslenskra athafnamanna sæi sóma sinn í að setjast niður í vinsemd og semja um að deila kjörum sínum réttlátlega með öllum almenningi, þá yrði það saga til annarra heimsálfa. Og henni yrði trúlega ekki tekið fagnandi af öllum ráðamönnum. Þótt þjóðin sé fámenn gæti gjörningur hennar haft óþægilegt fordæmisgildi. Nánast allir hagfræðingar heimsins eru aldir upp við þær kenningar að hið efnahagslega misrétti í samfélaginu sé eðlilegt ástand og þeir mundu vafalítið vara við slíku samkomulagi. Án efa mætti brátt reikna með viðskiptaþvingunum. Og hver veit nema sagan frá 13. öld endurtæki sig með nýrri sturlungaöld og einhvers konar erlendri íhlutun.
Árni Björnsson er þjóðháttafræðingur og hefur gefið út fjölda bóka um íslenska þjóðmenningu frá árinu 1963.
Athugasemdir