Nýlega samþykktum við Píratar framsækna stefnu um aðgerðir til verndar lofthjúps jarðar. Loftslagsmálin eru eitt stærsta viðfangsefni stjórnmála samtímans og Píratar telja að Ísland geti rutt veginn fyrir önnur ríki og miðlað af reynslu sinni og þekkingu.
Fyrr í sumar undirrituðu Íslensk stjórnvöld Parísarsamninginn og vilja Píratar fylgja því eftir með metnaðarfullri og raunhæfri aðgerðaáætlun sem miðast að nokkru leyti við að hraða fyrri áætlunum ríkisvaldsins og bæta við úrræðum. Tekið er tillit til aðgerðaáætlana ríkisins í loftslagsmálum frá 2010 og 2015 ásamt áætlun um endurheimt votlendis frá 2016. Píratar vilja þó tímasetja aðgerðir þannig að Parísarsamningurinn verði að mestu uppfylltur árið 2025 og að Ísland verði sjálfbært, bæði í umhverfislegu tilliti og einnig að landið verði sem mest óháð innflutningi á orkugjöfum, með því að nýta orku frá endurnýjanlegum og vistvænum orkulindum innanlands.
Við undirskrift Parísarsamningsins hefur Ísland skuldbundið sig til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% af því sem losunin var viðmiðunarárið 1990. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur losun frá Íslandi hinsvegar aukist um 27% frá viðmiðunarárinu og er sú aukning nær öll í tengslum við málmiðnað. Þegar losun gróðurhúsalofttegunda frá kísilmálmvinnslum sem samþykktar hafa verið er tekin með í reikninginn verður er ljóst að aukin losun frá árinu 1990 verður um 50%. Íslendingar losa núna því sem nemur 14 tonnum af gróðurhúsalofttegundum á mann á ári, en meðal losun í heiminum eru 6 tonn á mann sem er um það bil sú losun sem við höfum skuldbundið okkur til að stefna að með því að uppfylla Parísarsamkomulagið.

Í loftslagsstefnu Pírata er að finna metnaðarfull ákvæði um hvernig beita skuli mengunarbótareglu og varúðarreglu á allar athafnir og starfsemi sem menga andrúmsloftið. Þannig verða lögð gjöld og skattar umfram hefðbundna skatta á allar athafnir sem menga. Fyrir mengandi iðnstarfsemi er miðað við að mengunarbótagreiðslur verði hærri en sú upphæð sem besta fáanlega tækni í mengunarvarnabúnaði kostar í hverju tilfelli. Þannig myndast hvati fyrir iðnfyrirtæki að minnka vistspor sitt svo um munar.
Í samgöngum hafa íslensk stjórnvöld nú þegar sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10%. Píratar vilja þó stefna að því að bílafloti og fiskiskipafloti landsins noti eingöngu vistvæna orku úr innlendum endurnýjanlegum orkulindum og að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust árið 2040. Til að flýta fyrir þeirri þróun vilja Píratar koma upp aðgengilegum rafhleðslukerfum um allt land, fella niður tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt af nýjum rafbílum og öðrum visthæfum samgöngutækjum.
Því er miðað við að árið 2025 verði eingöngu flutt til landsins ökutæki sem nýta visthæfa orku. Til að ná slíkum árangri á næstu 8 árum þarf meðal annars stórefla ívilnanir við kaup á rafbílum og öðrum visthæfum ökutækjum og miða við að slík farartæki verði ætíð fjárhagslega betri kostur en kaup á ökutækjum sem menga andrúmsloftið. Því má búast við að kolefnisgjald verði smám saman hærra á innflutt jarðefnaeldsneyti og að mengunargjald á ökutæki útfært í réttu hlutfalli við útblástur.
Í landhelginni þarf að herða reglur um olíu í skipum með því að innleiða 6. viðauka MARPOL samningsins um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Þannig að skip sem sigla í íslenskri landhelgi noti einungis olíu með brennisteinsmagn innan við 0,1%. Á sama tíma verður gert átak í fjölgun rafhleðslustöðva í höfnum landsins til að greiða fyrir rafvæðingu skipastólsins. Til greina kemur að taka fyrir notkun ljósavéla sem brenna olíu í höfnum landsins. Í þessu sambandi má nefna að Píratar taka skýra afstöðu gegn olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögu landsins, enda fellur slík starfsemi engan veginn að markmiðum um að stórminnka notkun jarðefnaeldsneytis.
Einnig vilja Píratar að unnin verði metnaðarfull ný landbúnaðarstefna sem tekur tillit til þess að minnka þurfi útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldi, jarðrækt og annarri landnotkun. Fara verður í markvissar aðgerðir um að ljúka vistheimt á framræstu landi fyrir árið 2025, en uppþurrkuð mýrlendi losa mikið magn af gróðurhúsalofttegundum. Hefta þarf losunina ýmist með því að fylla í framræsluskurði til að hækka grunnvatnsyfirborð eða stunda markvissa skógrækt og landgræðslu.
Píratar vilja að sett verði á laggirnar verkefnatengd stofnun, Loftslagsstofa, sem samræmir fræðslu, rannsóknir og verkefni tengd aðgerðaáætlunum í loftslagsmálum. Slík stofnun á að flýta fyrir aðgerðum og kemur í stað sundurlausrar stjórnsýslu með loftslagsmál og er til þess gerð að skila tilætluðum árangri. Loftslagsstofu er ætlað að ljúka tilteknum verkefnum, m.a. að skipuleggja fjölbreytta gagnaöflun, rannsóknir og upplýsingaveitu, ásamt þróun líkana og útreikninga. Þegar árangri hefur verið náð má jafnvel leggja stofnunina niður eða sameina við aðrar stofnanir.
Með framsækinni aðgerðaáætlun er ætlast til þess að loftslagsmál verði tekin föstum tökum og að Ísland verði með þeim fyrstu að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins árið 2025 og að árlegt útstreymi gróðurhúsalofttegunda minnki úr 14 tonnum á mann í 6 tonn á mann, líkt og best gerist á meðal vestrænna ríkja. Aðgerðirnar munu verða kostnaðarsamar fyrir ríkið fyrstu árin, en vitandi hvað hlýnun jarðar mun hafa ógnvænleg áhrif á hafið umhverfis landið, á fiskistofna, landbúnað og lifnaðarhætti fólks er ljóst að of mikið er í húfi til að ganga í þessi verk með hangandi hendi.
Að mati Pírata ber okkur skylda að grípa til aðgerða til að viðhalda atvinnulífi, lífsgæðum og velferð á Íslandi til framtíðar. Vonast er til að stjórnmálahreyfingar verði samstíga í að uppfylla Parísarsamninginn árið 2025 og halda síðan áfram að minnka kolefnisspor Íslands til að sporna gegn manngerðri hlýnun jarðar, loftslagsbreytingum og súrnun sjávar.
Albert Svan Sigurðsson er umhverfislandfræðingur og ritari Pírata á Suðurnesjum.
Athugasemdir