„Mikið er þetta skrýtið fólk,“ hljóta þau í útlöndum oft að hugsa ef þeir leiða að okkur hugann.
Eftir hrunið stukku Íslendingar til og ætluðu í einu vetfangi að siðbæta samfélagið.
Meðal annars og ekki síst með því að semja nýja og betri stjórnarskrá sem myndi tryggja betri og opnari stjórnarhætti en áður.
Og farið var af stað með vinnuferli sem tryggði að þjóðin sjálf og fulltrúar hennar settu saman þessa nýju stjórnarskrá. Þetta var vinnuferli sem vakti aðdáun og jafnvel öfund víða um heim, þar sem menn láta sig þessi mál varða.
Nema hvað - þegar búið er að vinna verkið, og tveir þriðju kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu segja að það skuli verða undirstaða nýrrar stjórnarskrár, þá láta íslenskir kjósendur líða að forstokkuð stjórnmálastétt landsins stingi nýju stjórnarskrárdrögunum oní skúffu þar sem þau hafa rykfallið síðan.
Kjósendur höfðu sem sé aðeins þrek til að fara hálfa leið.
Þegar Panama-skjölin koma fram í dagsljósið vorið 2016 virðist hið sama vera að gerast.
Þjóðinni ofbýður þegar þrír ráðherrar finnast í Panama-skjölunum, og forsætisráðherrann gerir óvenju blákalda tilraun til að ljúga sig frá málinu.
Nærri tíundi hluti þjóðarinnar mætir á útifund til að mótmæla.
Forsætisráðherrann hrökklast frá og boðað er til kosninga.
Þar bregður svo við að tveir Panama-ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fá prýðilega kosningu. Annar þeirra er eftir sem áður formaður flokksins.
Og jafnvel forsætisráðherrann forsmáði er aftur kosinn á þing.
Enn ber siðvæðingin okkur einungis út í miðja ána, ekki alla leið yfir. Að við séum „skrýtin“ er líklega mjög vægt að orði komist.
Og nú er útlit fyrir að Bjarni Benediktsson (Falson á Seychelles-eyjum) verði forsætisráðherra.
Er það sú viðreisn sem við vonuðumst eftir?
Er það sú bjarta framtíð sem við vonuðum að nýjum vinnubrögðum myndi fylgja?
Athugasemdir