Flestir Íslendingar þekkja vel Kristjaníu-hverfi Kaupmannahafnar. Færri vita þó að frá stofnun fríríkisins Kristjaníu, árið 1978, hefur bílaumferð verið bönnuð þar með öllu. Þar með skapaðist þörf fyrir fjölhæfari hjól sem gætu sinnt fjölbreyttari hlutverkum.
Fyrst gerðu íbúarnir tilraunir með að setja hjól á rúmgrindur og búa þannig til fyrirferðarmiklar kerrur sem dregnar voru á eftir hjólunum. Þessi útfærsla átti seinna eftir að verða endurbætt og ná í þeirri mynd útbreiðslu um allan heim í formi hjólavagna, sem talsvert er af hér í Reykjavík.
Árið 1984 logsauð Lars Engstrøm tvö dekk á hliðarnar á kassa sem hann festi svo framan á hjólagrind. Í kassann setti hann bekk fyrir börnin sín til að sitja á, og gaf svo Annie Lerche, sambýliskonu sinni, hjólið í afmælisgjöf. Þar með varð fyrsta Christiania-hjólið til.
Á árunum síðan hefur hjólunum fjölgað svo nú má sjá þau, ekki aðeins úti um alla Kaupmannahöfn, heldur um allan heim. Eins og með fyrsta hjólinu hafa Annie og Lars lagt mikla áhersla á að þjóna barnafjölskyldum. Þegar ég hef verið í Kaupmannahöfn, Berlín, Osló og víðar hafa þessi hjól alltaf fangað athygli mína. Krúttleg börn brosandi í kössum á fleygiferð með sveitta foreldrana fyrir aftan sig. Ég fékk smám saman djúpstæða löngun til þess að verða hluti af þessu teymi.
Réttlætingarferlið
Það voru þó nokkrir hlutir sem komu í veg fyrir að ég gæti gengið í Kristjaníu-klúbbinn. Í fyrsta lagi átti ég ekkert barn, þannig mig skorti sárlega haldbæra ástæðu til þess að kaupa hjól sem réði við 100 kílóa farm, sérhannað til að flytja barn. Í öðru lagi átti ég heima í Mosó. Í MosfellsSVEIT. Uppi á fjalli. Með malarveg. Það eitt að hjóla þangað er afrek, hvað þá að hjóla þangað á 30 kílóa þungu ferlíki sem er hannað fyrir rennisléttar og mjúkar götur Kaupmannahafnar. Í þriðja lagi var ég skítblankur. Hjól hafa alltaf komið inn í líf mitt í formi gjafa frá fjölskyldumeðlimum eða á uppboði lögreglunnar.
Svo smám saman þokaðist ég í áttina að því að verða gjaldgengur. Hinn 22. mars árið 2015 varð ég pabbi. Í fæðingarorlofinu fórum við til Berlínar og vorum þar í átta vikur sumarið 2015. Berlín hentar einnig mjög vel til hjólreiða og inn á milli racer-a og fjallahjóla eru Kristjaníu-hjól á hverju strái. Þetta sumar gengu miklar hitabylgjur yfir álfuna og úti um allt voru fáklæddir flissandi krakkar í Kristjaníu-kössum með rauðþrútna foreldra sína másandi á hnakknum. Þar sem ég rogaðist með kornabarnið framan á mér í burðarpokum eða ýtti henni á undan mér í vögnum og kerrum, sem hún algjörlega hataði, horfði ég öfundaraugum á þessa tignarlegu riddara hjólastíganna. Svo komum við heim og beint í kjallara í Mosfellssveit. Barnið ekki byrjað á leikskóla. Veturinn sérstaklega snjóþungur. Blankheitin staðreynd. Enginn ástæða eða möguleiki á því að kaupa hjól.
Sumarið 2016 fluttum við svo á stúdentagarða og stuttu seinna byrjaði dóttir mín í leikskóla niðri í bæ. Allt í einu voru forsendurnar fyrir því að eignast hjól að verða raunverulegri. Eina vandamálið var að sambýliskona mín átti erfitt með að sannfærast um það að kaupa mörg hundruð þúsund króna hjól væri góð fjárfesting sem myndi spara okkur pening til langs tíma. Ég gerði hins vegar samning við hana; ef mér tækist að selja annað drasl (sem ég keypti mér fyrir of mikinn pening á sínum tíma en hef síðan takmarkaða þörf fyrir) og söluandvirði draslsins næði upp í verðið á hjólinu þá mætti ég kaupa það.
Þannig ég seldi tengdapabba gamla bílinn minn og seldi pabba trommusettið mitt. Bingó!
Næsta skref var að finna einhverja leið til þess að kaupa þetta risavaxna hjól og koma því til Íslands. Í fyrstu sýndist mér vera ódýrast að panta hjólið, fara svo út þegar búið væri að setja það saman, taka það í sundur og flytja í handfarangri til landsins. Þetta hljómar kannski brjálæðislega, en sé kassinn tekinn í sundur og grindin sett í „odd-size“ farangur þá held ég að það gæti gengið. Flugfarið út og heim var ódýrara en sendingarkostnaðurinn.
Eina vandamálið væri þá bara að ég þyrfti, án þess að hafa gistingu í Kaupmannahöfn, að taka í sundur heilt, tröllvaxið reiðhjól, pakka því niður og saman þannig að ég mætti fljúga með það til Íslands, og setja það svo saman aftur hér á landi. Eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér fór ég að gera mér grein fyrir því að þetta væri líklega aðeins flóknara í framkvæmd en ég hafði upphaflega áætlað.
Engin stafræn sýndarmennska
Á meðan þessar vangaveltur áttu sér stað var ég búinn að setja mig í samband við Christiania Smedie, verkstæðið sem smíðar og setur þessi goðsagnakenndu hjól saman. Það er engin leið að senda þeim tölvupóst, bara hægt að senda inn fyrirspurn í gegnum vefsíðuna þeirra, skilja tölvupóstfangið sitt eftir þar og vona að einhver svari þér. Vikur liðu. Ég skoðaði síðuna þeirra nánast daglega. Ekkert símanúmer. Enginn tölvupóstur. Ekkert svar. Framleiðendur hjólanna eru ekki í neinum samfélagsmiðlaleik. Þeir vita að þeir ná bara að framleiða ákveðið mörg hjól á ári og að þau hjól munu seljast, þannig þau nota alla sína orku í smíðina og ekkert af orkunni fer í stafræna sýndarmennsku.
Ég fór jafnvel að skoða að panta hjólið frá Englandi, þar sem mjög vinaleg hjólabúð bauð upp á nánast alla þá aukahluti og þjónustu sem Danirnir buðu upp á. Eina vandamálið var að álagið hjá Bretunum þýddi að verðið var að skríða yfir það sem ég hafði fengið fyrir bíldrusluna og trommusettið.
Eftir margra vikna bið gerðist það svo. Ég fékk svar frá smiðjunni, og það frá engri annarri en sjálfri Annie Lerche Olsen, eiganda fyrsta Kristjaníu-hjóls allra tíma. Svarið var einfalt: „Robert will take the contact to you :)“ Ekkert símanúmer, enginn tölvupóstur, engar upplýsingar aðrar en að einhver Robert myndi nú taka við mér. Ég þakkaði kærlega fyrir en spurði hvort ég þyrfti sjálfur að finna út hvernig ætti að hafa samband við téðan Robert. Þrjár vikur liðu. Ég ítrekaði spurninguna. Tvær vikur liðu. Þá fékk ég annað svar: „robert@tri.is“
Í æsingnum yfir því að vera kominn í samband við einhvern sem gæti mögulega aðstoðað mig sendi ég einfaldlega tölvupóst á ensku á netfangið sem hún gaf mér þar sem ég gubbaði því út úr mér að mig langaði rosalega í svona hjól og hvað ég þyrfti að borga fyrir það komið til Íslands. Svarið kom á ensku, en undir það ritaði maður með mjög íslensku nafni. Hann hét Róbert Grétar. Ég var kominn í samband við Íslending!
Eftir samræður fram og til baka um hvaða aukahluti ég vildi fá og hvað ég þyrfti að borga fyrir þá lagði ég loks inn formlega pöntun: Christiania Light, með sjö gírum í stað þriggja. Bekk og belti fyrir barn og svokallaða bugatti-hlíf yfir boxið. Það var svo í lok september sem mér var tilkynnt að hjólið væri að verða tilbúið og færi í skip á leið til Íslands í lok mánaðar.
Úr bið-æfingu
Ég fór þá rakleiðis yfir allar heimasíður íslensku skipaflutningafyrirtækjanna, bar ferðir þeirra og leiðir saman við upplýsingarnar sem Róbert gaf mér, komst að því að hjólið væri líklega um borð í Goðafossi. Þvínæst fór ég á marinetraffic.com og fylgdist næstu dagana með hjólinu sigla frá Árósum til Færeyja. Frá Færeyjum til Raufarhafnar. Og svo frá Raufarhöfn til Reykjavíkur. Þegar skipið var komið að höfn hér á landi hóf ég að ónáða starfsmenn Tri.is með stöðugum tölvupóstum og símhringingum með fyrirspurnum um það hvenær ég gæti búist við því að fá hjólið í hendurnar.
Þrátt fyrir að hafa aldrei sett annað eins hjól saman tókst verkstæðinu það að lokum. Ég fékk svo símtal þar sem mér var tilkynnt að ég mætti koma að sækja hjólið. Restina af vinnudeginum gat ég varla um annað hugsað. Vikum saman hafði ég horft á öll myndbönd af Kristjaníu-hjólum sem ég hafði fundið á netinu. Búinn að lesa öll blogg eftir eigendur svona hjóla, sem og dóma og reynslusögu þeirra sem höfðu fengið að prófa. Ég var búinn að liggja svo mikið yfir þessum hjólum að ég hafði stundað það í nokkra mánuði þegar ég gekk um Reykjavík að ímynda mér að ég væri á hjólinu. Hvernig ég myndi hjóla, hvaða leiðir, það yrði erfitt að hjóla upp þessa brekku, en gaman að hjóla eftir þessari götu.
Ég hef í seinni tíð ekki lent í því að verða eins hugsjúkur út í nokkurn hlut. Á okkar tímum erum við svo vön því að fá það sem okkur langar í strax. Kveikjum á tölvunni og getum fengið allar upplýsingarnar, horft á öll myndböndin, hlustað á alla tónlistina, allt án fyrirhafnar. Pöntum okkur framandi hluti frá fjarlægum heimshornum og þeir eru komnir heim til okkar innan örfárra daga. Allt gerist samstundis. Þarna þurfti ég hins vegar að bíða. Í nokkra mánuði. Og það var bæði algjörlega óbærilegt en líka dásamleg reynsla. Spenningurinn þegar loksins kom að afhendingu var orðinn yfirþyrmandi.
Ég fór á hjóli sambýliskonu minnar upp í verslun Tri.is. Þegar ég kom þangað inn var þríhjólið samsett og glæsilegt inni í versluninni. Afgreiðslumaðurinn var að aðstoða annan kúnna þegar ég kom inn, þannig ég stikaði í kringum hjólið, yfirspenntur, þar til komið var að mér. Ég greiddi, ýtti því út, settist á hnakkinn og hjólaði af stað. Eftir allan þennan tíma varð það að óraunverulegri og draumkenndri upplifun að vera loksins farinn að hjóla á þessum hlut sem mig hafði dreymt um í mörg ár.
Sam-ferðir
Í vetur hef ég svo farið flestra minna ferða innan Reykjavíkur á þríhjólinu. Ég fer með dóttur mína á leikskólann, en hún elskar að fá að sitja í kassanum. Á góðviðrisdögum get ég sleppt hlífinni og þá er öll upplifunin svo hrein. Í stað þess að sitja í stól fyrir aftan mig á venjulegu reiðhjóli með bakið á mér í andlitinu er ekkert fyrir henni. Hún tjáir sig um bílana í kringum okkur, fólkið og dýrin, við stoppum og spjöllum við kisur sem verða á vegi okkar, og gefum okkur tíma til að fylgjast með strætóum og ruslabílum, sem eru í sérstöku uppáhaldi. Og svo syngjum við saman, því ólíkt ferðum okkar í bíl þar sem hún er í aftursætinu og snýr aftur að auki, þá er hún bara beint fyrir framan mig. Það krefst ákveðinnar æfingar að syngja og hjóla á sama tíma, æfingar sem ég er ekki alveg kominn í, en mér fer fram.
Í stað þess að ferðalögin okkar séu einfaldlega ástand þar sem við þurfum að þrauka á milli tveggja staða þá eru þau orðin samverustund. Þegar við komum heim vill hún oftast halda áfram að hjóla í „dóra jólinu“ (stóra hjólinu). Þá kippum við stundum með okkur poka af brauði og förum niður á Tjörn að gefa öndunum að borða. Kannski skutlum við mömmu í kassann líka, jafnvel ömmu ef hún er í stuði. Allir eru velkomnir. Einnig kemur fyrir að ég fari á hjólinu í búðir og kaupi í matinn, því kassinn rúmar auðveldlega vikuinnkaupin.
Christiania Smedie segja sjálf að light-hjólin eigi að ráða við 100 kíló, en ég held það sé varlega áætlað, því ég hjólaði með 130 kg fullvaxna fyrrverandi handboltahetju upp Frakkastíginn í fyrsta gír. Það var ekkert auðvelt, en ég gerði það nú samt, og reyndi að láta eins og það væri minnsta mál.
Seglbátur götunnar
Hjólið hefur að sjálfsögðu sínar takmarkanir. Í fyrsta lagi er það þrjátíu kíló og tvöfalt breiðara en önnur reiðhjól. Ef ég er á gangstétt þurfa gangandi vegfarendur að vara sig, og ég nota hina háværu bjöllu hjólsins óspart til þess að forða fólki frá því að lenda undir kevlar-dekkjunum mínum. Einnig gerir þyngd hjólsins það að verkum að ég er ekkert sérstaklega hraðskreiður á því, þannig ég passa illa inn á hinar fjölmörgu einbreiðu götur borgarinnar. Þrátt fyrir að þær séu flestar með 30 kílómetra hámarkshraða þá er ég of hægfara fyrir þolimæði þeirra bílstjóra sem eiga leiðir um miðbæinn. Þannig ég þarf að sigla á milli skers og báru, svigandi á milli vegar og gangstéttar til þess að vera ekki fyrir neinum eða keyra fólk niður.
Samlíkingin við bát endar ekki þar, því kassinn og hlífin yfir hann eru eins og segl. Þetta tekur á sig allan þann vind sem er í boði. Fyrst þegar ég hjólaði með Úu á leikskólann var ég með vindinn í bakið og þurfti í raun bara að vera á bremsunni allan tímann. Tilfinningin var eins og að stýra seglbát á fullu stími um götur borgarinnar. En í vetur hef ég líka fengið vindinn í fangið. Ég er tæpir tveir metrar á hæð og á Kristjaníu-hjóli situr maður frekar hátt uppi. Þar að auki er kassinn og bugatti-hlífin ofan á honum stórir fletir sem taka á sig mikinn vind. Á leiðinni heim úr vinnunni í mesta rokinu hef ég nokkrum sinnum þurft að stoppa, halla mér fram, hanga í handbremsunni og bíða eftir því að vindurinn ljúki sér af, því annars færi ég einfaldlega aftur á bak. Einu skiptin sem ég hef efast um það hversu góð ákvörðun það var að kaupa hjólið er þegar ég kem heim algjörlega búinn á því eftir að hafa hjólað heim í svona veðri.
Hjólað í núinu
En það að eiga mitt eigið, vandaða hjól sem hægt er að hjóla á í flestum veðrum hefur tengt mig við æskuna á nýjan hátt. Ég fer á milli staða á eigin fótafli. Ég er aftur úti í öllum veðrum. Þurfti að kaupa mér pollagalla af því ég get ekki hjólað í kraftgallanum mínum án þess að vera löðrandi sveittur þegar ég kem á áfangastað. Ég hjóla af stað í sólskini og hjóla í gegnum rigningu, haglél og svo aftur sólskin. Þegar ég ek á milli staða stilli ég einfaldlega miðstöðina og rúðuþurrkurnar eftir veðrinu, en á hjólinu er ég bara í því.
Þegar það er rok og laufblöðin og sandurinn fýkur í augun á mér er ég í veðrinu. Þegar ég hjóla í svo mikilli snjókomu að ég er hvítur þegar ég kem heim er ég í veðrinu. Ég hlusta á gnauðið í trjánum og húsunum. Ég hlusta eftir umferðinni þegar ég nálgast gatnamót og þegar ég hjóla fyrir horn. Ég hlusta á fólkið á götunni tala saman. Hlusta á tónlistina í bílunum sem ég hjóla framhjá. Hlusta á snjóinn marra undir dekkjunum. Það er ekkert sem er á milli mín og upplifunarinnar. Ég er ekki lengur einangraður frá umhverfinu á meðan ég ferðast á milli staða. Ég verð meðvitaður partur af því.
Að sjálfsögðu get ég ekki mælt með því við alla að kaupa sér tröllvaxið hjól. Í mínu tilfelli þurfti ég að uppfylla ákveðin skilyrði til þess eins að það væri réttlætanlegt og skynsamt að fjárfesta í því. Að því sögðu hef ég nánast ekkert hreyft bílinn undanfarna mánuði nema þegar ég þarf að fara utan borgarinnar. Þess í stað fæ ég að verða meðvitaður hluti af mannlífinu. Lærin á mér eru orðin eins og tveir vöðvaþrútnir drumbar undir skrokknum. Fæturnir á mér snúa pedölunum sem láta keðjuna fara í hringi sem færir kraftinn í tannhjólin yfir í dekkin sem velta yfir götuna áföst við kassann með dóttur minni í og boddíið þar sem sætið stendur og rassinn á mér situr. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta hjól. Á því er ég viðstaddur hvert sem ég fer. Get ekki annað.
Stutt heimildarmynd þar sem rætt er við notendur hjólanna í Kaupmannahöfn.
Athugasemdir