Fundur Fólksins er lífleg lýðræðishátíð sem fram fer í Norræna húsinu föstudag og laugardag eða 2. og 3. september. Tilgangur hennar er að skapa vandaðan vettvang þar sem hin ýmsu félagasamtök, stjórnmálaflokkar, stofnanir og fyrirtæki koma saman ásamt því að þjóðþekktir einstaklingar stjórna sjóðheitum umræðum. Hátíðin er haldin með það að markmiði að auka samræður og aðgengi að upplýsingum fyrir fólkið í landinu.
Við búum í lýðræðissamfélagi en okkur skortir vettvang þar sem við fáum að verja tíma með ráðamönnum þjóðarinnar, spyrja spurninga og skiptast á skoðunum í góðu og afslöppuðu umhverfi. Hátíðin er sá vettvangur en ekki síður er hún kjörið tækifæri fyrir stjórnmálamenn að hitta kjósendur, skiptast á skoðunum, hlusta og vekja athygli á þeirra baráttumálum.
Um 70 þátttakendur eru skráðir til leiks með yfir 100 viðburði og kennir þar ýmissa grasa. Sem dæmi má nefna baráttuhópinn Paris 1,5 sem vinna gegn því að stöðva hlýnun jarðar, Fjölmiðlanefnd ætlar að ræða um hatursorðræðu í fjölmiðlum, Mannvirkjastofnun verður með málstofu um húsnæðisvandann, Kvenréttindafélagið fræðir okkur um kynjafræði, Persónuvernd um það hvort verið sé að selja fólk á netinu og Kennarasamband Íslands ræðir um menntun í lýðræði.
Allir stjórnmálaflokkar sem bjóða sig fram til Alþingis í haust taka þátt í sérstökum stjórnmálabúðum þar sem hægt verður að hitta frambjóðendur þeirra ásamt því að á 30 mínútna fresti verða samræður fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna í búðunum.
Hátíðin var fyrst haldin á Íslandi í júní á síðasta ári en sambærilegar hátíðir eru orðnar ómissandi hluti af hverju sumri á hinum Norðurlöndunum . Sú þekktasta er Almedalsveckan í Svíþjóð sem er orðin einn stærsti og mikilvægasti vettvangur sænskrar samfélagsumræðu, suðupottur hugmynda þar sem fólk hlustar og ræðir saman í eigin persónu.
Fundur Fólksins er sjálfstæð hátíð, ekki rekin í hagnaðarskyni og hvorki stýrt af sérhagsmunum á Íslandi né annarsstaðar. Það er Almannaheill- samtök þriðja geirans sem er framkvæmdaaðili Fundar Fólksins í samtarfi við velferðaráðuneytið, Reykjavíkurborg og Norræna húsið.
Höfundur er verkefnastjóri Fundar Fólksins.
Athugasemdir