Það er nokkuð ljóst að töluverðar breytingar hafa orðið á Íslandi síðasta áratug ef við ætlum að bera okkur saman við hin Norðurlöndin. Það er vel þekkt að Íslendingar hafa lengi þurft að vinna meira en íbúar nágrannaþjóðanna til að halda uppi sambærilegum eða jafnvel lakari efnahagslegum lífskjörum. Á sama tíma höfum við fórnað ákveðnum lífskjörum sem felast í frítíma. Einnig hefur fyrirkomulag tolla og vörugjalda í bland við fákeppni verið með þeim hætti að vöruverð hér á landi hefur almennt verið hátt. Þetta má meðal annars lesa úr samanburði sem ASÍ hefur gert á lífskjörum á Norðurlöndunum á árunum 2006 og 2013.
„Það er vel þekkt að Íslendingar hafa lengi þurft að vinna meira en íbúar nágrannaþjóðanna til að halda uppi sambærilegum eða jafnvel lakari efnahagslegum lífskjörum.“
Mikið af breytingum síðustu ára hafa falist í aukinni kostnaðarþátttöku bæði í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Þær breytingar leggjast þungt á tekjulága einstaklinga og auka hættuna á því að þeir geti síður fjárfest í menntun eða haft jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, til dæmis tannlæknaþjónustu. Jafnframt er töluverður munur á fjárhagslegum stuðningi við nemendur á Norðurlöndunum þar sem til dæmis í Svíþjóð og Danmörku er veittur styrkur til náms með möguleika á viðbótarláni.
Á hinum Norðurlöndunum eru vissulega ákveðin vandamál til staðar á húsnæðismarkaði. Víða hefur fasteignaverð farið hækkandi undanfarin ár, framboð af leiguhúsnæði er of lítið og þar af leiðandi geta biðlistar verið afar langir. Fyrir kaupendur húsnæðis er hinsvegar ljóst að mikill munur er á þeim vaxtakjörum sem hér á landi bjóðast og í nágrannalöndunum auk þess sem óstöðugleiki í íslensku hagkerfi dregur verulega úr öllum fyrirsjáanleika við fjármögnun. Ekki er óeðlilegt að munurinn geti verið meiri en 5 prósentustig á láni með föstum óverðtryggðum vöxtum til þriggja ára.“
Pistill Róberts Farestveit er innlegg í umfjöllun um flóttann frá Íslandi sem birtist í septemberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir