Það var köld kveðja frá Engeyjarauðvaldinu að á baráttudegi alþýðunnar 1. maí skyldu taka gildi nýjar reglur sem virðist beinlínis ætlað að draga enn frekar úr trú okkar á hugmyndina um samhjálp og samfélag.
Um er að ræða nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðismálum. Því er í orði kveðnu ætlað „að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja heilsugæsluna“ eins og hér segir.
En í sömu frétt er haft eftir formanni læknaráðs Landspítalans að það sé „verið að dreifa þessu yfir á aðra sem að veikjast á árinu en ekki yfir á alla sem eru tryggðir í almannatryggingakerfinu. Þannig að byrðin dreifist á miklu færri og þá sem eru veikir sem svolítið óvanalegt fyrir tryggingakerfi“.
Formaðurinn, Reynir Arngrímsson, segir að eðlilegra hefði verið að hækka útgjöld til heilbrigðismála í stað þess að dreifa kostnaðinum á fleiri sjúklinga.
Sveiattan og sveittan. Á síðasta ári gjömmuðu fulltrúar Engeyjarauðvaldsins, eins og aðrir, um nauðsyn þess að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið.
Það var allt í lagi að ljúga á sig því markmiði meðan verið var að ljúga sig til valda.
En svona vill Engeyjarauðvaldið þá hafa það og hefur þjón sinn í heilbrigðisráðuneytinu til verksins.
Nú á annars vegar að tyggja oní okkur að „gamaldags“ sé að banna arðgreiðslur í heilbrigðiskerfinu og hins vegar að gera okkur svo óánægð með núverandi kerfi að við verðum þeirri stund fegnust þegar Engeyjarauðvaldið sleppir „nútímalegum“ arðgömmum sínum lausum á sjúklinga þessa lands.
Falleg kveðja til alþýðunnar sem barðist mestalla 20. öldina við að koma upp manneskjulegu samfélagi.
Athugasemdir