Bíllinn minn dó á Steingrímsfjarðarheiði fyrir sex vikum. Hljóðin sem hann gaf frá sér, á fáfarinni og þokusmurðri heiðinni, benda til þess að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Jarðneskar leifar hans eru enn á Hólmavík þar sem vel meinandi maður bíður eftir varahlutum. Þeir íhlutir sem berast við og við reynast ekki passa svo áfram heldur biðin. Blinduð af meðfæddri jákvæðni lít ég svo á að bílnum sé haldið sofandi þar til rétta líffærið berst. Ég er sem sagt vongóð varðandi framhaldið.
Tölvan mín kom úr viðgerð í dag. Það eru náttúrlega gleðifréttir fyrir utan þá staðreynd að hún reyndist mun meira biluð við heimkomu en hún var við afhendingu. Þessi orð voru upphaflega skrifuð á blað með penna sem tók langan tíma að finna. Ef þið eruð að lesa þau hef ég náð að slá þau inn á lánsvél sem hlýtur að merkja að mér finnst erindi þessarar greinar brýnt og bið að þið klárið lesturinn. Um mig hríslast fortíðarþrá við að sjá blekið þorna á blaðinu. Út undan mér sé ég upplýstan tölvuskjáinn sem síðustu sjö klukkustundirnar hefur sýnt einmana íbitið epli og tannhjól sem snýst eins og eilífðarvél. Ég ætla að gefa henni nóttina til að finna út úr sínum málum. Ég er sem sagt vongóð varðandi framhaldið.
Lýðræðið mitt er líka bilað. Þetta fólst fyrst í illvígri kerfisvillu þar sem sérhagsmunir trompuðu almannahagsmuni án þess að hægt væri að hreinsa þann vírus úr kerfinu. Hægfara aðför að seinþreyttum almenningi. Sjálf bilunin átti sér svo stað þegar ljóst var að niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2012 yrði ekki fylgt eftir af Alþingi. Þegar skýr vilji aðspurðrar þjóðar reyndist ekki nægja til að stýra vilja þingsins. Lýðræðinu okkar er í raun haldið sofandi í krítísku ástandi. Ég vil trúa því að líffæragjöf sé á næsta leiti og að senn hætti tannhjólið á skjánum að snúast um sjálft sig í einmanalegu tilgangsleysi. Ég er sem sagt vongóð varðandi framhaldið.
„Úr rústunum reis þjóð sem vildi skilja, breyta og bæta. Í smástund var allt hljótt og við sáum til lands. Við fundum kraftinn.“
Hvar varstu annars þegar Geir Haarde bað guð að blessa Ísland? Við horfðum jú saman á landið sem reyndist ekki vera til hrynja árið 2008. Við upplifðum magnaða stund í sögunni þegar úr rústunum reis þjóð sem vildi skilja, breyta og bæta. Í smástund var allt hljótt og við sáum til lands. Við fundum kraftinn. Við töluðum saman og skildum að miklu fleira sameinar okkur heldur en sundrar. Í flýti reyndum við að teikna upp nýjan samfélagssáttmála, fyrstu íslensku stjórnarskrána, á meðan heiðskíran varði. Þúsund manns valin af handahófi báru kennsl á gildin sem nýja stjórnarskráin okkar skyldi geyma á Þjóðfundi. Sérfræðingar tóku gildin saman og útbjuggu skýrslu um stjórnarskrársögu okkar og annarra þjóða. Tuttugu og fimm borgarar, fyrst kjörnir svo skipaðir, skrifuðu á fjórum mánuðum nýjan sáttmála fyrir Ísland. Ég var ein þeirra. Drögin að nýrri stjórnarskrá fóru á netið jafnóðum og þau urðu til og boðið var til samtals við almenning og sérfræðinga. Vanalega verður orðræðan á netinu ljót, köld og ástlaus. Það var ekki raunin í tengslum við vinnu stjórnlagaráðs. Þvert á móti virtist fólk sem tók þátt almennt launa það traust sem því var sýnt með vandaðri og kurteislegri framkomu. Í stað þess að geysa fram vígvöllinn á grundvelli meirihluta um þetta og hitt var gerð tilraun í stjórnlagaráði til að ná samkomulagi sem miðaði að því að við gætum sem flest sátt við unað. Þessi aðferðafræði er falleg og virkar betur að mínu mati en hin hefðbundna hernaðarkennda aðferð að skoðanir minni hlutans skuli að engu hafðar. Í lokin þurftum við að kjósa um það sem út af stóð en okkur tókst þó að smíða, á þessum fjórum mánuðum sumars 2011, nýja stjórnarskrá sem hver og einn einasti meðlimur stjórnlagaráðs skrifaði undir. Það skjal var stútfullt af málamiðlunum og öll hefðum við viljað haga einhverju öðru vísi hefðum við verið einráð. En við mannaparnir erum ekki, og ættum aldrei að vera, einráð. Við erum forrituð sem félagsverur og hvert annars gaman. Án samfélagsins lifum við ekki af og þó við gætum lifað stendur eftir sú spurning hvort lífið væri þess virði án hvert annars. Ég lærði á þessu ferðalagi að sú list að taka tillit til og hlusta á þann sem er á öndverðum meiði er dýrmæt. Mig langar að verða betri í henni. Ekki síst því ég sá við gerð nýju stjórnarskrárinnar að þær tillögur sem urðu til með því að reyna að finna sameiginlega grundvöll voru oft á tíðum betri en upphaflegu hugmyndirnar um svart eða hvítt.
Þann 16. september síðastliðinn héldu Björt framtíð, Píratar, Samfylking og Vinstri græn sameiginlegan hádegisfund í Norræna húsinu til að kanna hvort hægt væri að ná samstöðu um næstu skref í stjórnarskrármálinu. Flokkarnir vilja skoða hvort ýta megi fleyinu af strandstað og klára að koma þeim vilja í verk sem tveir þriðju hlutar kjósenda létu skýrt í ljós, nefnilega að setja Íslandi nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Gríðarlega mikilvægt er að klára verkið og ég vona sannarlega að þingmenn allra flokka muni vinna saman að því að lýðræðislegur vilji nái fram að ganga því annars er erfitt að skilja hvað grundvallar umboð þeirra sjálfra. Lýðræði er ekki hlaðborð. Auk þess horfir heimurinn til Íslands. Sjálf hef ég undanfarin ár sótt ráðstefnur víða um heim til að útskýra hvernig þetta lýðræðisdrifna ferli, sem er einstakt á heimsvísu, hafi getað átt sér stað og ekki síður hvað valdi því að málið hafi ekki enn verið klárað.
Sem kjósendur þurfum við að horfa á heildarmyndina og hagsmuni almennings og Íslands sem lýðræðisríkis. Gylliboðin munu berast fyrir kosningar eins og alltaf en það er okkar að standa í lappirnar og velja okkur fulltrúa sem munu klára það verkefni sem við blasir. Við höfum ætlað okkur að setja okkur íslenska stjórnarskrá í yfir sextíu ár. Nú liggur í skúffunni samfélagssáttmáli sem saminn var af fólkinu og fyrir fólkið í landinu. Við höfum ekkert að óttast því sé nýja stjórnarskráin haldin göllum þá einfaldlega lögum við hana í eðlilegu samtali hvert við annað. Við stöndum á tímamótum eins og svo margar aðrar þjóðir heims. Blinduð að meðfæddri jákvæðni trúi ég að okkur auðnist að virða lýðræðið og endurreisa í framhaldinu traust og virðingu gagnvart þeim sem fara með völdin hverju sinni í okkar umboði.
Athugasemdir