Staðan á Landspítalanum hefur aldrei verið verri.
Prestur í Reykjavík hefur hafið fjársöfnun í messum sínum til að létta undir með sóknarbörnum sem ráða ekki við að halda jól þótt ýtrasta sparnaðar sé gætt.
Á sama tíma kemur Bjarni Benediktsson fram í sjónvarpinu og segir yfirlætislega að „við“ höfum aldrei haft það eins gott.
„Sjáiði ekki veisluna, piltar?“
Jasvei, jasvei og aftur jasvei.
Og á sama tíma sitja þingmenn þeirra fimm flokka sem sögðust vera að reyna að mynda umbóta- og nýsköpunarstjórn, þeir sitja og - ja, og hvað?
Ekki neitt.
Tvær tilraunir til að mynda stjórnina hafa farið í vaskinn.
Af hverju?
Það veit ég ekki. Og ég nenni hreinlega ekki að elta lengur ólar við eitthvað þref um hvort VG sé „eini flokkurinn“ sem „standi í lappirnar“ í velferðarmálum eða hvað Viðreisn sé annaðhvort stíf á meiningunni í kerfisbreytingarmálum eða alls-ekki-hækka-skatta-málum, eða hvað Björt framtíð sé algjörlega ósjálfstæður útlimur Viðreisnar, eða hvað og hvað.
Það er í raun ekki neitt sem ætti að koma í veg fyrir stjórnarsamstarf þessara flokka.
Þeir vita nú orðið alveg hvað þarf til að þeir nái saman.
Píratar eru búnir að sýna og sanna að þeir eru bæði ábyrgir og með bein í nefinu og fyllilega samstarfshæfir - svo ekki er hægt að nota þá afsökun að þeir séu ekki „stjórntækir“.
Og Samfylkingin er búin að sýna að þrátt fyrir sitt mikla högg er hún til í að leggja sitt lóð á vogarskálarnar.
Svo það er ekkert sem hindrar - nema viljinn.
Já, bæði VG og Viðreisn þurfa eitthvað að gefa eftir, en gefiði þá eftir!
Þetta er pólitík!
Hvað er eiginlega að ykkur Benedikt, Þorgerður Katrín, Hanna Katrín, Jón Steindór, Pawel?!
Það þarf að mynda stjórn til að leysa úr brýnum velferðarverkum - það eru kannski ekki nákvæmlega þau verkefni sem sum ykkar hafið mestan áhuga á, en dílið við það!
Vinnið vinnuna ykkar!
Og Katrín Jakobsdóttir, Rósa Björk, Kolbeinn, Steinunn Þóra, Svandís, Andrés Ingi - þið vitið það ósköp vel að fimmflokkastjórnin er sú stjórn sem kjósendur ykkar vilja.
(Eða réttara sagt, yfirgnæfandi meirihluti þeirra.)
Og sú stjórn þar sem velferðarmálum verður gert hæst undir höfði.
Af hverju einhendiði ykkur þá ekki í að búa hana til?
Það læðist að mér illur grunur um að þingmenn séu ekki starfi sínu vaxnir.
Þeir ætli þess vegna meðvitað eða ómeðvitað að láta reka á reiðanum þangað til það verður mynduð bara einhver stjórn.
Það er kannski þægilegast. Þá þurfa heilagar kýr ekki að gefa neitt eftir heldur geta jórtrað tugguna sína við vegarkantinn meðan nútíminn brunar hjá.
En við vitum því miður alveg hver sú „einhver stjórn“ verður.
Sú versta fyrir fólkið í landinu.
Stjórn þeirra „sem hafa aldrei haft það eins gott“.
En þá geta stjórnmálamenn VG og Viðreisnar og hinna flokkanna þess vegna líka komið fram fyrir kjósendur sína og sagt:
„Ja, það var bara ekkert annað í stöðunni. Við reyndum svo sannarlega en „hinir“ vildu ekki gefa neitt eftir.“
Og þá fáum við stjórn sem gerir ekki neitt en heldur „veislunni“ áfram.
En á spítölum liggur fólk í skápum og fólk þarf samskot í kirkjum til að eiga fyrir jólum.
Ef þetta verður niðurstaðan, þið þarna þingmenn fimmflokkanna, ansi er þá lítið í ykkur spunnið.
Athugasemdir