Undirritaður las af athygli grein Illuga Jökulssonar í Stundinni í febrúar í vetur.
Hann skrifar þar vel um grafalvarlegt málefni sem vill gleymast svo sem ótal mörg slík, enda mannkynssagan almennt tilreidd okkur standandi á haus. Ég hrasaði þó um eitt. Hann talar um forkosningar í Iowa, furðuþátt í kosningaskrípaleiknum í US-landinu mikla, sem augljóslega er hvorki lýðræðis- né réttarríki, enda skilja þeir ekki gríska orðið. Fyrirbærið þar er ekki democracy, það er money-crazy. Illugi segir m.a.:
... Hitler og hans nótar (voru) hins vegar búnir að skipuleggja hvað ætti að gerast eftir þann sigur sem þeir töldu óhjákvæmilegan ... stóran part hinna „frumstæðu“ Slava átti einfaldlega að drepa sem allra fyrst, en hneppa hina í þrældóm - ... Minningar um hina fyrri slavnesku íbúa myndu grafast niður í plógförin í moldinni ... einn af „the good people of Iowa“ þar sem líka þekkist hin svarta frjósama mold og hann sagði: „Þetta er okkar land og við höfum alltaf búið hér ...“ Og samt eru langt innan við 200 ár síðan forfeður hans mættu á svæðið og hrifsuðu landið af „frumstæðum“ íbúum og ráku þá burt sem fyrir voru og drápu þá sem voru með múður ... Nú kann einhver að segja: „Hægan, hægan, ertu virkilega að bera saman hvíta landnema á amerísku sléttunum og innrásarher þýskra nasista sem fóru með fjöldamorðum um Sovétríkin ... Er það ekki fulllangt gengið?“ Og svarið: „Og jú, reyndar er nú svo. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að í sögunni sé ekkert og aldrei neitt að fullu sambærilegt við yfirvegað, ískalt og vandlega skipulagt morðæði Hitlers og nóta hans.
Í fljótu bragði tekur maður undir þetta. Ætla má, að um helmingur þeirra 26 milljóna sem féll í Sovét hafi verið myrtur, t.d. 25% Hvítrússa. Eða hvað? Jú, þetta tvennt er því miður sambærilegt að flestu leyti. Hitler og hans nótar skipulögðu að vísu heildarverkið fyrir fram og betur. Álíka og „Endlösung“ sína á aldagömlu vandamáli kristinnar kirkju með gyðinga (og miklu fleiri, einkum rómafólkið). Þeim leiddist þetta kák, að loka í gettóum þetta Asíulið, sem ásamt kaþólsku hefði spillt hreinni kenningu Jesú og Lúter síðan hreinsað, eða ráðast á þorp og þorp og hrekja fólkið burt, gjarnan til Amríku. Einmitt nafnið, eða hvað? Endanleg lausn! Og mússulíninn tryggði kaþólikkum Vatikanið! Hins vegar voru aðfarir nasista slíkar, að nokkrum klerkum ofbauð, svo og sumum þeirra þýsku heimspekinga, sem fagnað höfðu valdatöku Hitlers: Þar væri kominn holdgervingur hins hreina „deutsche Geist“, sem þeir höfðu saknað og skrifað doðranta um í nær 200 ár. Nasarnir neyddust því til að skjóta einhverja presta og spekinga vegna slíkra leiðinda! (Neurohr, Jean F.: Der Mythos vom dritten Reich, Stuttgart 1957.) (Töluðu ekki íhaldsmenn og bændahöfðingjar hér áður um „hinn mikla norræna anda“?) En ekki bara nasistar myrtu. Benda má t.d. á umfjöllun Kelsos: VICTIMS OF THE CHRISTIAN FAITH (Brot.):
„Furðufáir vita að útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöld voru hreint ekki þær einustu í Evrópu. 1942-1943 var í Króatíu fjöldi slíkra undir stjórn kaþólikkanna í Ustasha og einræðisherra þeirra Ante Paveli, sem var virkur kaþólikki og oft hjá þáverandi páfa. M.a.s. voru sérstakar búðir til útrýmingar á börnum! Í þessum búðum voru myrtir orþodox-kristnir Serbar (ásamt gyðingum o.fl.). Líkt og nasistar brenndu kaþólikkarnir þar fórnarlömbin í ofnum – lifandi. Jafnvel viðstöddum SS-mönnum ofbauð. Þeir „gösuðu“ þó sitt fólk fyrst! Kvörtuðu við Hitler en hann vildi ekki hlusta. En flestir voru einfaldlega stungnir, barðir eða skotnir til dauða, fjöldinn talinn milli 300.000 og 600.000. Meðal morðingjanna voru Franciskanamunkar. Páfinn vissi vel af þessu en gerði ekkert.“ Var einhver að tala um ISIS-múslima? Nefna má og, að kaþólikkar ráku líka útrýmingarbúðir í S-Víetnam til að myrða kommúnista, lúterana og búddista, undir stjórn Amríkana.
Aðeins meira um nasistana og trúna, ekki síst vegna þess, að svonefndir „landnemar“ í Amríku voru vel kristnir, svo sem afkomendur þeirra flestir í dag. Nasistar voru sem sé almennt kristnir og byggðu ruglkenningar sínar ekki síst á heimspekiritunum um þennan sérstaka „þýska anda“. Örfáar tilvitnanir:
Herr Müller, vinur Hitlers og ríkisbiskup: „Ég skal byggja upp nýja þýska kirkju með aðstoð 80% þýsku þjóðarinnar, sem hafnar kristni dagsins í dag. ...Við höfum verið um of kirkja friðarins.“
Gerð nasista af postulajátningunni, 1938: „Ég trúi á Þýskaland, hinn elskaða son Guðs, Guð af honum sjálfum getinn undir norðurhimni; fæddur milli Alpa og hafs, þjáður undir páfum og dýrkendum Mammons, rægður, misþyrmt og rúinn, pyntaður af djöflum af öllum gerðum allt að hliðum helvítis, eftir tímaskeið fátæktar og vesældar hefur það risið upp á ný af pólitískum og þjóðarlegum dauða, stigið til andlegs og menningarlegs samfélags Eckhardts, Bachs og Goethes, og situr við hlið bróðurins mikla frá Nasaret til hægri handar Guðs föður almáttugs. Þaðan mun hann koma í sinni heilögu mynd að dæma lifendur og dauða.“
Baldur von Schirach um fána nasistaæskunnar: „Ég sé í þeim ekki aðeins tákn nasistahreyfingarinnar - heldur einnig jarðneska mynd þar sem eilífur Guð hefur birt sjálfan sig.“
Hermenn Hitlers sögðu: „Gott mit uns“. „In God we trust“, segja aðrir. Nær allir þeir fáu nasistar, sem hengdir voru í Nürnberg, báðu guð að blessa Þýskaland, þegar þeir gengu í snöruna. Öllum þorra nasista var hins vegar haldið áfram í stjórnkerfinu í V-Þýskalandi. (Innan sviga má það vera einhverjum huggun, að Stalín var menntaður til prests í rússnesku orþodoxkirkjunni, sem nú er aftur komin til valda þar með ofsóknum á hommum og annarri einokunarkúgun, sem meirihlutamenn Leníns sviptu hana rétti til á sínum tíma, við ramakvein allra kristinna, auðvitað!)
Rétt er að nefna hér Karl May, 1842-1912 (frb.: Mæ), og áhrif hans á Adólf litla, og fleiri. Hann skrifaði fjölda bóka um villta vestrið, kom reyndar aldrei þangað en sagðist hafa upplifað þessi ævintýri. Aðalpersónur eru Old Shatterhand (May sjálfur!), kúrekakappi í baráttu við bófa og vonda indjána, og vinur hans, góði indjáninn Winnetou. Fyrsta bókin kom út 1893. Varð vinsæll og er enn. Nasistar hrifust af bókunum, ekki síst Hitler, sem las þær unglingur og vitnaði í, t.d. í sambandi við hugmyndina um að útrýma slövum jafnóðum og sannir germanir með „deutsche Geist“ þyrftu meira „Lebensraum“. Þeir ættu að lesa betur Karl May, sagði hann. Því miður: Aðfarir kristinna Amríkana voru engu betri. Þeim lá að vísu ekki eins á en dreifðu m.a. bólusýktum teppum, auk skelfilegrar „sjálfkrafa“ sýkingar en fregnir þar af þó ýktar.
Ekki þarf lengi að kynna sér aðfarirnar svo í ljós komi skipulagður viðbjóðurinn. Benda má á t.d. „Heygðu mitt hjarta við Undað Hné“, og tengt klassíkt verk, „Black Elk speaks“ e. Niehardt, en hana þýddi undirritaður og las á RÚV. M&m vildi ekki gefa hana út, efnið væri ekki „aktúelt“ lengur! Einnig verk um Nez Percés-fólkið en út frá þeim samdi ég framhaldssögu á útvarpi Rót, gaf svo út fyrir nokkrum árum. Nú eða bók og kvikmynd um Ishi, sem lýsa vel skipulagðri útrýmingu fjölda smáþjóða í Kaliforníu, t.d. fóru menn gjarnan eftir messu á sunnudögum að skjóta innfædda. Lengi hétu stjórnvöld háum verðlaunum fyrir höfuðleður indjána, líka barna en minnst fyrir grátt! Eyra af Víetcong-liða var einnig vel borgað löngu seinna. Custer, Buffla-Billi og margir aðrir skreyttu reiðskálmar sínar og hnakka með höfuðleðrum. Venjan, sem fáar heimaþjóðir stunduðu, kom líklega með Spánverjum, sem lærðu hana víst af Asíumönnum! Bufflum var skipulega útrýmt af sléttunum til að dauðsvelta síðustu sjálfstæðu þjóðirnar, sem lifðu mest á þeim. Húsdýr bændaþjóða, t.d. Apatsía, voru drepin og jarðargróði og hús brennd. Hernámsliðar eyðilögðu allt sem heimamönnum var heilagt, einnig grafreiti, og ódrepin börn voru tekin þúsundum saman og send í trúboðaskóla þar sem allt, já allt, var úr þeim barið, enda hrundu þau niður. Blástakkahernum var beitt ótæpilega, og skipulega, gegn lítt eða óvopnuðu fólki, gjarnan heilum þorpum í fyrstu morgunskímu, með nýjum rifflum, Gatlin-vélbyssum og sprengjuvörpum og engu hlíft. Leifum þjóðanna var smalað á „Indian Territory“ (Gúlag?), þar sem ekki var búandi og áttu menn að lifa á matargjöfum sem sjaldnast bárust nema að skemmdum hluta. Fólk dó í hrönnum. Meir en 250 sjálfstæðar þjóðir í N-Amríku, milli 15 og 20 milljónir manna á 17.-18. öld, 250 þúsund um 1900. Og þetta þrátt fyrir að innfæddir björguðu mörgum kristnum hópum frá hungurdauða fyrstu hörðu veturna, jafnvel sjálfum löndum okkar, sem launuðu með því að ræna fólkið landinu og jafnvel húsum þess.
Og viðhorfið: "Governor Thomas Dale had them hunted down and executed: 'Some he apointed (sic) to be hanged Some burned Some to be broken upon wheles, others to be staked and some shott to deathe'." Væri innfæddur sakaður um þjófnað, ósannað, var þorp hans og oft fleiri brennd og allir drepnir, karlar konur og börn. Mörg slík dæmi úr Virginíu, t.d. Svipað gera Ísraelar nú, sprengja allt holt og bolt og skjóta t.d. hiklaust til bana börn ef þeir halda! að þau séu með hnífa. Í Massachusetts frömdu púrítanar þjóðarmorð, kallað á amrísku „Pequod War“. Grimmir hundar voru þjálfaðir í að elta uppi fólk og drepa, og éta lík, m.a. barna. Fáir lifðu og voru þrælkaðir: „Thus doth the Lord Jesus make them to bow before him ...“. Nefna má enn Sand Creek. Þar myrti herinn næstum 600 manns, nær eingöngu konur og börn. Eða Beotuc, sem útrýmt var á Nýfundnalandi, víst einmitt þessir bláeygu, sem sumir telja komna af Leifi og þeim. 1862 lét Lincoln „góði“ forseti hengja 38 Súa fyrir máttlausa uppreisn, og setja 284 í fangelsi þar sem þeir dóu fljótt. Peltier, einn leiðtoga við Undað Hné 1973, fékk tvöfalda lífstíð fyrir morð sem hann sannanlega ekki framdi. Hver einasti samningur sem þeir kristnu neyddust til að gera, nær 400, hefur verið svikinn, og enginn af innfæddum! Enn í dag er uppi áróður gegn veiðum innfæddra, t.d: „Save a Deer. Shoot an Indian. Save a Fish. Spear a Squaw.“ Mikið grín, mikið gaman!
Ekki voru „hvítu mennirnir“ spænsku betri. Aðfarirnar við fjöldamorð þeirra á eyjum Karíbahafs voru svo ofboðslegar að því er erfitt að lýsa. Bendi ég þar t.d. á verk Vagns Lundbye, Indianske skyggebilleder, Kaupmannahöfn 1992. Um 1700 höfðu u.þ.b. 200.000 Spánverjar flust til Ameríku og þá var talið að um 60 milljónum innfæddra hefði þegar verið eytt, þar á meðal öllum íbúum Karíbahafsins, a.m.k. 10 miljónum. Loks var búið að eyða svo miklum hluta frumbyggja, í báðum eða öllum „Amríkum“, að þræla vantaði svo við góðu hvítu menninrnir urðum að flytja milljónir af „negrarusli“ yfir hafið til að þrælka þá þar, í fullri kristilegri miskunn og mildi, auðvitað. Það þurfti heila borgarastyrjöld fyrir aðeins 150 árum til að byrja að leiðrétta þennan skepnuskap, en ekki hinn: Hernám, landrán, fjöldamorð og útrýmingu nær þrjú hundruð þjóða, mesta þjóðamorð sögunnar. Ástandið í USA er í dag víða mjög vont. Hjá leifum Lakóta t.d. er meðalaldur undir 50 árum, atvinnuleysi yfir 70%, 4. hvert barn deyr og lyfjafyrirtæki gera gjarnan tilraunir á börnum þar. Ýmsir læknanlegir sjúkdómar eru algengir, svo sem berklar. Og vonleysi! (Sbr. Russel Means, t.d.)
Ef þetta er ekki skipuleg útrýming, þá skil ég ekki móðurmálið mitt. Hitler? Bliknar! Upprunafólkið, íbúar í a.m.k. 12 þúsund ár, var réttlaust og réttlítið enn, svo sem ég kynntist nokkuð í Yukon 1989 og Québec 2000. Fólk var pínt til að taka kristni, jafnvel oft á ný eftir því hvaða kenningu trúboðinn aðhylltist. Öllu öðru heilögu eytt. Það fékk ekki einu sinni að halda nöfnum sínum, var skírt evrópskum ónefnum. Á fjölskyldu sem ég kynntist í Yukon var t.d. klínt nafninu Shorty af einhverjum trúboða, ekki endilega sagt nafnið, bara tilkynnt yfirvöldum, svo „mállausir“ innfæddir vissu ekkert hvað þeir hétu! Meir en 250 háþróuð tungumál tókst að skrá fyrir útrýmingu, langflest horfin. Fólk nýtur ekki alþjóðlegs réttar síns til móðurmálsins, þess sem enn tórir. Ég kom t.d. í grunnskóla í Mayo, þar var stór hluti barna „first nation“-fólk. Spurði skólastjórann um kennslu á tungu þeirra, norður-tútsjóní. Hann leiddi mig fram í skólaeldhús og sýndi mér stoltur langan lista yfir nytjajurtir, á tútsjóní og ensku. Það var allt og sumt! Ein mikilvægasta eign mannsins, móðurmálið, eyðilögð svo fólk endaði í fátæklegum enskudrafla. Og auðvitað fótum troðin gróin virðingin fyrir náttúru og öllu lífi.
Svona má halda áfram, eða þangað til maður fer að æla ofan yfir alla „miskunnina og mildina“. Vilpan er botnlaus! En USA stjórnar heiminum í dag og flassar logna sögu sína í augu okkar og eyru. Við hlustum og hlýðum, enda er krossblessaður Kaninn fljótur að leggja í rúst heilar þjóðir og lönd ef honum mislíkar og hann þarf að koma vopnum sínum í lóg. Einkum er honum uppsigað við fyrri góðvini sína svo sem Noriega, Talíbana og Saddam Hussein. Simbarnir og Bjössarnir ættu kannski að fara að hugsa.
Ég vil taka skýrt fram, að glæpir nasista, Spánverja, Englendinga, Kana o.fl. afsaka að sjálfsögðu engin ódæðisverk annarra. Og allt of marga skortir ekki viljann en vantar bara vopnin og getuna til slíkra stórafreka!
Athugasemdir