„Just because your're paranoid, doesn't mean they're not out to get you.“
Svo hljóðar málsháttur einn, enskur, sem gæti hljóðað svo í íslenskri þýðingu: Þótt þú sért paranojd (ofsóknarsjúkur), þá þýðir ekki að fólk sé EKKI að reyna að hafa þig undir.
Undanfarna daga hefur verið fjallað um þá trú Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að RÚV standi fyrir sérstöku stríði gegn sér.

Það tal allt hljómar - frómt frá sagt - eins og í það hafi verið bætt meira en örlitlu dassi af paranoju.
En í dag rakst ég á vísbendingu þess að Sigmundur Davíð eigi vissulega fjandmann fleiri en einn.
Nema hvað þar er ekki um RÚV að ræða.
Heldur hefði Sigmundur mátt líta sér nær.
Í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins um daginn var gefið út sérstakt blað um sögu og afrek flokksins.
Það var kallað Tíminn, en Tíminn var - eins og elstu menn muna - málgagn Framsóknarflokksins hér á árum áður.
Forsíðuna má sjá hér á mynd, fyrirsögnin er „Leiðandi afl í 100 ár“ og svo eru myndir af fimm formönnum Framsóknarflokksins.
Jónasi frá Hriflu, Hermanni Jónassyni, Ólafi Jóhannessyni, Steingrími Hermannssyni - og svo núverandi formanni, Sigurði Inga Jóhannssyni.
Á fyrstu opnu er ávarp Sigurðar Inga formanns, og má það eðlilegt heita.
Ég lyfti hins vegar annarri augabrúninni yfir hálfsíðu myndinni sem fylgir ávarpinu.
Sigurður Ingi á spjalli við Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Ahá! Svo myndin á að segja okkur að Sigurður Ingi sé mikilsháttar leiðtogi á alþjóðavettvangi?
Það veit ég nú ekki. En óneitanlega virkar þessi myndbirting frekar undarlega.
Látum það samt vera.
Sé blaðinu flett, þá rekst maður á hverja greinina af annarri um fyrri forystumenn Framsóknarflokksins.
Og stórar myndir af Ólafi Jóhannessyni og sona.
Allt í einu fór mér samt að líða eins og eitthvað vantaði.
Og jú - í öllu blaðinu, þá er ekki ein einasta mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Og það er beinlínis með ólíkindum.
Nú er ég ekki aðdáandi Sigmundar Davíðs. Það er meira að segja býsna langt frá því.
En hann var nú samt sem áður mjög fyrirferðarmikill og umfram allt sigursæll formaður - framan af.
Í kosningunum 2013 náði hann fylgi Framsóknarflokksins upp í hæðir sem flokkurinn hafði ekki náð í áratugi.
Maður hefði haldið að það verðskuldaði eina mynd - en nei, svo var greinilega ekki.
Umsjónarmenn blaðsins telja svo ekki vera.
Og í grein um sögu flokksins er framlag Sigmundar Davíðs metið eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Þar er vissulega farið hratt yfir alla sögu og formennirnir Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir til dæmis afgreidd í sömu setningunni.
En í fyrsta lagi er skondið að sjá talað um „svokallað Icesave-mál“ eins og um sé að ræða eitthvað löngu gleymt og grafið.
Í öðru lagi gerði Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs gott betur en að „ná aftur vopnum sínum“. Þetta orðalag gerir hlálega lítið úr árangri hans 2013 - hvað sem okkur kann að finnast um málflutning hans þá. Fylgið varð meira en í áratugi, eins og ég sagði áðan.

Í þriðja lagi hefði kannski þrátt fyrir allt mátt spandéra einni setningu á hvernig til tókst hjá stjórn Sigmundar - miðað við allt það mál sem finna má í blaðinu um ýmsa fyrri formenn.Í þessu afmælisblaði Framsóknarflokksins - sem Eggert Skúlason er skrifaður fyrir - virðist markvisst og meðvitað vera gert lítið úr Sigmundi Davíð.
Heilt blað um Framsóknarflokkinn og ekki ein mynd af honum!
Ég verð að segja að ég skil vel hafi honum sárnað.
En óþarfi samt að telja RÚV vera óvininn.
Athugasemdir