Þegar ég var 28 ára og nýskilin við barnsföður minn fór ég að hanga með hópi af stelpum um tvítugt þar sem aðrar vinkonur á sama aldri voru eitthvað aðeins of ráðsettar að mínu mati fyrir dansbrjálæðinginn mig. Ég var þá búin með tvær háskólagráður í heimspeki, sálfræði og guðfræði og vissi einhvern veginn ekkert hvað ég vildi gera í framhaldinu. Fór þá að vinna að Landspítalanum sem aðstoðamaður sjúkraþjálfara sem var reyndar mjög áhugvert og gefandi starf. Launin voru hins vegar ekki upp á marga fiska og ég ein með 4 ára strákinn minn þannig að ég upplifði svona týpíska tilvistarkreppu íslensks ungs fólks á Íslandi. Reyndar var ég svo heppin að afi minn hafði getað hjálpað mér með útborgun í fyrstu íbúðina mína sem var á kjallaraíbúð á Óðinsgötu og kostaði 6 milljónir árið 1999. Ég býð ekki í hefði ég þurft að flakka á milli misgóðra leiguíbúða í ofanálag fyrir meira en helminginn af tekjunum mínum sem þó dugðu aldrei fyrir uppihaldi. Þetta er auðvitað einn stærsti skandall íslenskra stjórnvalda fyrr og síðar hvað þau eru búin að leyfa húsnæðis- og leigukerfinu að blása út seinustu ár. Ungt fólk, námsmenn, öryrkjar, aldraðir og annað óbreytt launafólk þarf að upplifa streitu og óöryggi vegna heimilis ofan á allt annað sem fylgir því að lifa í íslensku samfélagi. En það er önnur saga.
„Ein þeirra var á leiðinni í lokapróf í heimspekiáfanga og kom til mín eitt kvöldið og bað mig um að útskýra einhver hugtök og stefnur fyrir sér.“
Einhverjar af þessum ungu og danshressu vinkonum mínum voru á þessum tíma að klára stúdentinn eftir að hafa tekið sér frí af misjöfnum ástæðum á þeirri vegferð. Ein þeirra var á leiðinni í lokapróf í heimspekiáfanga og kom til mín eitt kvöldið og bað mig um að útskýra einhver hugtök og stefnur fyrir sér. Henni fannst útskýringarnar góðar og einfaldar og mér fannst þetta hrikalega gaman svo að ég hugleiddi eftir kvöldið hvort ég gæti kannski orðið góður kennari. Síðan ákvað ég bara strax daginn eftir að skrá mig í kennslufræðina. Ég hafði aldrei hugleitt það svo mikið sem einu sinni að verða kennari. Þarna tók líf mitt mikilvæga stefnu og hef ég síðan kennt farsællega í framhaldsskóla í um 15 ár. Kennslan er æðislegt starf; bæði lifandi og skapandi en líka mjög krefjandi. Ég hef stundum líkt því við leikarastarfið. Ég upplifi mig stundum sem uppistandara; ekki í merkingunni „fyndin“ heldur meira eins og að þurfa að vera með 4 einleiki á dag og sá fyrsti gjarnan klukkan átta að morgni. Auk þess að þurfa að útskýra efnið þannig að nemendur skilji og getið unnið með það í prófum þarf maður að vekja áhuga og tengja við eigin upplifun þannig að þau geti hagnýtt það í sínu lífi. Ég hef hoppað upp á borð, lagst í gólfið og meira að segja breikað í tíma svo fátt eitt sé nefnt. Ég elska að kenna; mér þykir vænt um nemendur mína og það skiptir mig máli hvernig þeim líður.
Eftir þetta að því er virðist hversdagslega atvik eitt kvöld um seinustu aldamót hef ég sem sagt öðlast starfsvettvang sem er bæði skemmtilegur og mjög krefjandi. Svo skemmtilegur að í vetur er ég á leiðinni í námsleyfi til að klára master í menntunarfræðum og margbreytileika með áherslu á hvernig hægt er að efla sjálfsmynd og farsæld nemandans í námi sínu. Þess má líka geta að þessar „ungu“ vinkonur mínar er nú langt gengnar á fertugsaldurinn og ég er ennþá að fara með þeim út að dansa. Fyrir 2 árum ákvað ég svo að gerast plötusnúður líka. Enda trúi ég ekki á að hætta að gera það sem maður elskar vegna aldurs. Lífið er núna. Njótum þess.
Athugasemdir