Kannski gerðu Píratar mistök þegar þeir töluðu um að „endurræsa Ísland“.
Mér fannst það að vísu fínt orðalag. Því það þarf vissulega að endurræsa Ísland. Það þarf að losa Ísland úr viðjum þess spillta samtryggingarkerfis auðmanna og stjórnmálamanna sem hér hefur viðgengist áratugum saman; að ég segi ekki öldum saman.
Ísland er fallegt land og þjóðin hefur sína góðu kosti. Sá besti felst líklega í því persónulega umburðarlyndi sem við eigum til að sýna.
En eins og ævinlega geta hinir bestu kostir orðið að slæmum göllum og því miður höfum við útbreitt fyrrnefnt umburðarlyndi yfir samtryggingarkerfið líka. Og við höfum leyft auðvaldinu og sérhyggjunni að taka völdin og valta yfir alþýðuna meðan við tutlum hrosshárið okkar.
Undan þessu þurfum við vissulega að brjótast. Við þurfum – eins og Sigfús Daðason orðaði það – „[a]ð komast burt úr foraðinu, og loftleysinu, og sjálfsánægjunni, hroka smádjöflanna, siðferðisdýrð þrjótanna; burt frá hinni sæluríku fylgispekt, og hinu dáða uppburðarleysi“.
Eitthvað þessu líkt fannst mér vissulega felast í orðum Pírata um að „endurræsa Ísland“. Þótt það sem Sigfús talaði um í ljóði sínu sé raunar ekki verkefni stjórnmálamanna, heldur verkefni okkar allra.
Þar á meðal reyndar í kjörklefanum.
En kannski voru orð Pírata um „endurræsingu“ of hressileg. Að minnsta kosti sýndist mér á endasprettinum að Sjálfstæðisflokknum gengi ágætlega að vekja hræðslu fólks við þá ógurlegu „byltingu“ sem Píratar ætluðu að standa fyrir. Og eftir kosningar – þegar kom í ljós að þótt Píratar höfðu vissulega unnið mikinn sigur og þrefaldað þingmannafjölda sinn, þá hafði greinilega tapast heilmikið fylgi á lokasprettinum – þá varð líka niðurstaða sumra spakviturra álitsgjafa að þjóðin hefði bersýnilega hafnað „byltingu Pírata“ en kosið „stöðugleika Sjálfstæðisflokksins“.
Það fannst mér skrýtin niðurstaða. Sjálfstæðisflokkurinn fékk vissulega „til baka“ töluvert af því fylgi sem tapast hafði til Framsóknarflokksins 2013 en sigur Pírata var hlutfallslega miklu stærri.
En látum það liggja milli hluta. Það sem ég ætlaði að nefna var hvað fólst í þeirri „endurræsingu Íslands“ og „byltingu“ á vegum Pírata sem Sjálfstæðisflokknum tókst svo ágætlega að vekja ótta við.
Sú endurræsing hefði hvorki útheimt annarlegar kvöldstundir, eld, járn né sundurhöggna rót, eins og segir áfram í kvæði Sigfúsar. Í þessu fólst aðeins og einvörðungu – eftir því sem mér skildist hjá Pírötum – að taka upp stjórnarskrártillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll nýrrar stjórnarskrár.
Og það er til marks um hina vel smurðu og ósvífnu kosningavél sem Sjálfstæðisflokkurinn býr enn svo vel að eiga niðri í kjallaranum í Valhöll að það skuli hafa lukkast að telja hluta kjósenda trú um að í þeim stjórnarskrártillögum fælist einhver „bylting“.
Tillögur sem samdar voru og samþykktar af 25 Íslendingum af öllu sauðahúsi með leiðsögn þjóðfundar og þjóðarinnar sjálfrar og með hjálp margra helstu sérfræðinga. Og þótt við í stjórnlagaráði hirtum reyndar ekkert um stjórnmálaskoðanir eða fyrri störf hvert annars, þá vissum við allir að í hópnum voru fáeinir framsóknarmenn – þar á meðal fyrrverandi formaður Bændasamtakanna – nokkrir sjálfstæðismenn – þar á meðal fyrrverandi þingmaður, og fullt af alls konar góðu íhaldsfólki af hinu og þessu tagi.
Að þetta fólk hafi látið blekkjast til að æsa til einhverrar „byltingar“ er auðvitað bara hlálegt.
Enda eru stjórnarskrártillögur stjórnlagaráðs einkar hófsamar – og þær voru líka samþykktar sem grunnur nýrrar stjórnarskrár af tveim þriðju kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er fullt af tillögum sem mun bæta og skýra stjórnsýsluna – störf Alþingis, forseta Íslands, dómstóla, eftirlitsstofnana, o.s.frv. Þótt menn geti haft misjafnar skoðanir á því sem þar er kveðið á um, þá er þar ekkert hættulegt á ferð. Þvert á móti; allt eða flestallt er til mikilla bóta, ekki síst ákvæði um stóraukna upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Og í mannréttindakaflanum – sem sjálfstæðismenn virðast endilega vilja trúa að sé sérlega „róttækur“ – þar er flestallt tekið meira og minna beint upp úr mannréttindasáttmálum. Það er helst að ákvæðið um dýravernd sé frumlegt og óvenjulegt!
En í þessum tillögum eru örfá ákvæði sem hagsmunagæsluflokkarnir amast við í alvöru.
Þar er kveðið á um jafnan kosningarétt yfir allt landið. Þar með væri úr sögunni misrétti milli landshluta, sem hefur vel að merkja haft í för með sér siðlaust forskot Sjálfstæðisflokksins í kosningum, smán sem tímabært er að vaska af okkur. Og þar eru skýr ákvæði um náttúruvernd og auðlindir, sem eru krókamökurum þyrnir í augum.
Allt væri þetta til bóta, en í þessu fælist engin „bylting“ í stjórnsýslu eða samfélagsskipan – líkt og íhaldinu tókst að telja ýmsum trú um. Þessu þurfum við að átta okkur á. Í þessum kosningum tókst að hræða of marga frá því að gera það sem ég er sannfærður um að væri þjóðinni fyrir bestu.
Og gæti hjálpað okkur upp úr foraðinu og hroka smádjöflanna og siðferðisdýrð þrjótanna.
Ég vona að þeir stjórnmálamenn sem nú þurfa að standast eggjunarorð Sjálfstæðisflokksins um að koma í ríkisstjórn til að gæta „stöðugleikans“ fyrir ríka fólkið hafi þetta sérstaklega í huga.
Athugasemdir