Það er í sjálfu sér virðingarvert hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að senda frá sér yfirlýsingu á Twitter, sem skilja má sem gagnrýni á hið ótrúlega sjónarspil sem Donald Trump Bandaríkjaforseti stendur nú fyrir vestan hafs.
En raunar má gagnrýni Guðlaugs Þórs alls ekki mildari vera.
Af hverju tekur hann ekki bara sterkar til orða?
Þetta sagði hann nákvæmlega: „Það er forgangsmál að berjast gegn hryðjuverkum en baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef við mismunum fólki eftir trúarbrögðum eða kynþætti.“
(Ég myndi sleppa hér hinu erfiða og vandmeðfarna orði „kynþætti“ og segja einfaldlega „þjóðerni“ en látum það liggja milli hluta í bili.)
En af hverju þarf Guðlaugur Þór að setja þann fyrirvara að baráttan gegn hryðjuverkum, sem Trump kveður vera rótina að fyrirskipunum sínum, að sú barátta sé „forgangsmál“?
Með því er nú eiginlega verið að spila upp í hendurnar á þeim sem vilja styðja aðgerðir Trumps - á einn eða annan hátt - og hneigjast alltaf til að nota hina miklu hryðjuverkaógn sem afsökun fyrir mannréttindabrotum og ofstopa.
Það er kominn tími til að segja það hreint út: Baráttan gegn hryðjuverkum ætti EKKI að vera forgangsmál á Vesturlöndum.
(Annað mál í Miðausturlöndum.)
Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir þeim sem fallið hafa í viðurstyggilegum hryðjuverkaárásum hér á Vesturlöndum. Og flýti mér að taka fram að auðvitað á að berjast gegn þeim með öllum þeim tiltæku lögregluaðgerðum sem ekki ganga gegn lögum, reglum og hefðum um mannréttindi.
En þótt við drúpum höfði af samúð með þeim sem eiga um sárt að binda, þá er augljóst að í okkar heimshluta er við miklu djúpstæðari og hættulegri vandamál að etja.
Barátta gegn loftslagsbreytingum ætti að vera forgangsmál.
Sömuleiðis barátta gegn vaxandi ójöfnuði milli almennings og hinna ofsaríku.
Barátta gegn lýðskrumi, þjóðernisofstæki og uppgangi öfgaafla er líka forgangsmál.
Og barátta gegn stríðsæsingamönnum.
Vopnasalar eru hættulegri en hryðjuverkamenn.
Og almennt séð er barátta fyrir mannréttindum, alltaf, allsstaðar og ævinlega hið algjöra forgangsmál.
Þetta allt saman mætti Guðlaugur Þór líka tvíta um, þótt seinniparturinn af tvíti hans í dag sé vissulega góðra gjalda verður.
- - - -
Rétt er að geta þess að Guðlaugur Þór varð afdráttarlausari og vafningalausari í tali sínu um þetta mál þegar á leið dag.
Athugasemdir